Að leika píslarvott

Ég sótti auðvitað heim listasöfn í fyrstu og einu Ítalíuferð minni árið 2019 og í einu slíku varð ég heillaður af vinsældum heilags Sebastians sem voru líklega mestar á 15. og 16. öld þó að hann hafi látið lífið á 3. öld eftir Krist. Hylli þessa tiltekna dýrlings virðist ekki síst stafa af því að Sebastian var ungur og stæltur karlmaður og hann varð t.d. vinsæll til áheita hjá íþróttamönnum. Síðmiðalda- og endurreisnarmálverk af dýrlingnum eru því mýmörg eða legio og eitt þeirra kemur við sögu í kaþólsku glæpasögunni minni Skollaleik sem var enda samin eftir Feneyjaferðina.

Eitt af því sem vakti athygli mína á safninu er að mörg málverk af Sebastian eru alls ekki af honum heldur fyrirsætunni, þ.e. persónuleiki unglingsins sem stendur og leikur Sebastian ryðst í gegn og úr verður mynd af (oftast) ítölskum unglingsstrák sem situr fyrir fáklæddur í von um mat og peninga og kannski vanur að selja hitt og þetta. Sumum þeirra er farið að leiðast mikið og langa í hressingu (eins og þessum að neðan) á meðan aðrir virðast hálfsárir við málarann að hafa sett þá í þessa stöðu (sá að ofan). Gerir það málverkin misheppnuð að áhorfandinn hugsi alls ekki um dýrlinginn heldur ítalskar miðaldafyrirsætur? Eiginlega ekki og ekki einu sinni óguðlegri ef við samþykkjum að guð búi í okkur öllum.

Manni virðist ekki ólíklegt að atriði úr Biblíunni og kristnisögunni hafi veitt málurum tilefni til að mála það sem heillaði þá sjálfa jafnvel umfram hið heilaga orð og það gátu verið allir þessir geispandi og kæruleysislegu Sebastianar sem leiðist meira en þeir þjást, burtséð frá öllum örvum sem bætt var við málverkið. Fáir þeirra eru mjög hvekktir yfir örvaregninu þó að einstaka sé svolítið á svipinn eins og þolinmæðin sé mjög á þrotum.

Það varð einmitt styrkur kristninnar að fá myndlistarmenn í þjónustu sína og jafnvel þótt þeir væru aðeins beðnir um helgimyndir rúmaðist hitt og þetta sem augu þeirra námu innan rammans, til dæmis þessi mæðulegi ítalski drengur að neðan sem að vísu lét líf sitt tæplega fyrir trúna en samt sést alveg á honum að tilvera hans hefur ekki alltaf verið auðveld.

Previous
Previous

Bláhvítar bækur

Next
Next

Atómiðrun eyðimerkurrefs