Bláhvítar bækur
Guðrúnarhvöt er næstaftasta eddukvæðið í Konungsbók eddukvæða og í nóvember sat ég við þýðingu þess þegar ég staldraði við fjórða erindið: „bækr váru þínar / enar bláhvítu / roðnar í vers dreyra, / folgnar í valblóði“ en mjög svipað er tekið til orða í Hamðismálum hinum forna. Þar er þó ekki sagt að bækurnar hafi verið fólgnar í valblóði en hins vegar eru þær sagðar „ofnar völundum“ og er þá væntanlega átt við hina högustu vefara því að Völundur var þekktur smiður og þetta er þá eins konar „ablativus agentis“ (en ablatívusar voru eftirlætið mitt í latínu forðum). Þegar sagt er að þær séu fólgnar í valblóði er væntanlega átt við að blóð dauðra hermanna (eða eins) hafi nánast dulið upphaflegan bláhvíta lit bókanna.
En hvað eru bækur? Ég hef verið að skoða dæmi um þetta orð og alla Íslandssöguna merkir það hið sama og snýr þannig einkum að prentverki eða handritum fram á tölvuöld. Hvernig geta slíkar bækur verið ofnar? Hvaða handrit eru bláhvít? Væntanlega eru bækurnar hennar Guðrúnar þá frekar klæði en merkir orðanotkunin þá að þetta hafi verið bláhvít rúmföt með ofnum textum með sögum sem Guðrún og Sigurður hafi sofið í? Það er þá einboðið að sjá fyrir sér þessi sögulegu rúmföt sem umluku hina ungu konunga og hetjur og væntanlega eru þau ekki síst bláhvít til að andstæðan sé sem mest þegar blóð Völsungsins hefur fallið á þau. Eins virðast fögur rúmföt með listrænum áletrunum sérstaklega siðmenntuð en ódæðið þegar blóðinu er úthellt þeim mun hrárra og grófara. Eddukvæðin eru sannarlega heimur sterkra og jafnvel ofsafenginna andstæðna eins og ég hef áður skrifað um og kannski einmitt þess vegna móteitur gegn hversdagslegri andstæðum hins venjulega lífs.
Er orðið bók í þessari merkingu nefnt í Altwestnordische Kleiderkunde eftir Hjalmar Falk? Þetta er mál sem ég hef enn ekki kannað til fulls eða leyst en orðalagið hefur greinilega þótt nógu glæsilegt til að vera tekið til handargagns í tveimur eddukvæðum sem raunar eru náskyld. Upphaf Guðrúnarhvatar og Hamðismála er raunar hið sama en eftir það er annars vegar fylgt Guðrúnu Gjúkadóttur (Guðrúnarhvöt) en hins vegar sonum hennar (Hamðismálum). Guðrún situr á tái þegar samræðunum lýkur og e.t.v. er það eins konar grastó eða hlaðið framan við húsið. Ekki er orðið þó algengt og þar með er merkingin óljós en sú er einmitt iðja mín þessa dagana að glíma við loðna merkingu hinna fágætu orða.