Leitin að hljómbotni tilverunnar
Þegar Francesco, einmana, upptekinn og stressaður ítalskur innanhúsarkítekt á fertugsaldri, erfir fasteign í Istanbul og fer að vitja hennar breytist allt líf hans því að þessi ófullnægði stórreykingamaður sem er stöðugt með símann á lofti og vildi helst ekki einu sinni gefa sér tíma til að fara til Tyrklands uppgötvar hamingjuna í öðrum og hægari takti en hann hefur lifað í hingað til. Hin ítalsk-tyrkneska Hamam (1997) er sérstæð kvikmynd um tiltölulega ómeðvitaða miðlífskrísu sem á sér farsæla lausn sem fótunum er síðan kippt undan í lokin. Húsið sem Francesco erfir reynist innihalda fagurskreytt tyrkneskt bað í niðurníðslu sem hann ákveður að endurnýja og verður myndhverfing fyrir hæglátu hamingjuna en nýfundin ást mannsins beinist ekki síst að öllu því sem baðið táknar: minningunni um látnu frænkuna, minni asa og óeirð, meiri áhuga á lífinu, lystisemdum holdsins, Istanbul sjálfri, Tyrklandi, hefðum, nýju vinum hans þar sem gæta fasteignarinnar og ekki síst hinum unga en innilega Memet húsvarðarsyni sem hann fellur óvænt fyrir í miðri mynd eftir ísbíltúr (fram að því hélt maður að það yrði hin aðlaðandi dóttir hússins og líklega hélt hún það líka) þó að Francesco sé þegar í hjónabandi sem raunar einkennist einkum af lygum og svikum og auðvitað miklum hlaupum og fundum og stressi og ópum og skjölum sem þarf að undirrita.
Eldri vinur frænkunnar látnu sem Francesco hittir í Istanbul lýsir lífi sínu þar sem löngu fríi og kannski verða þá kennslin sem ungi stressaði maðurinn þarfnast (skömmu síðar svarar hann ekki farsímanum í fyrsta sinn) en raunar dregst hann hægt og rólega að nýju lífi sínu eins og fluga að blómi. Það er mikið sameiginlegt borðhald í þessari kvikmynd, hún er óður til fjölmennis við matarborð og þegar eiginkonan Marta eltir mann sinn til Istanbul eftir allmörg símsvaraskilaboð (því að hún er aldrei við) er hún hissa að eiginmaðurinn hafi ekki fitnað af öllum matnum. Hún er laumulega tortryggin þó að hún skilji aðdráttarafl óuppgerða baðsins enda líka innanhúsarkítekt en kemur að lokum að manni sínum í nýuppgerða tyrkneska baðinu ásamt Memet (áhorfandinn kemst að því um leið og hún hversu náið samband þeirra er orðið), verður öskureið og reynir að skandalisera og afhjúpa ástarævintýri eiginmannsins og Istanbul sem yfirborðskennt en Francesco er ekki lengur maður sem hefur djúpar áhyggjur af slíku og hvað þá nýja fjölskyldan hans þannig að ekkert verður úr dramanu og Marta uppgötvar þvert á móti þegar hún er á leið heim að hún er ekki aðeins áfram ástfangin af Francesco heldur hefur líka smitast af ást hans á Tyrklandi, eins og hann hafði áður smitast af ást látnu frænkunnar á þessum stað. Síðar er Francesco skyndilega myrtur með hníf vegna þess að hann stóð ekki við fasteignaviðskipti við ríka konu sem hugðist nútímavæða hverfið og sennilega byggja þar tröllvaxið Landsbankagrjótmulningshrúgald og þá ákveður Marta sem nú hefur áttað sig á eigin firringu og örvæntingu að vera áfram í Istanbul og taka á móti nýja lífinu og hamingjunni sem Francesco hafði fundið.
Þetta er frekar óvæntur söguþráður sem stöðugt vindur upp á sig en þó ekki endilega fyrir haganleg sniðugheit heldur bara eins og lífið sjálft fylgir ekki formúlu og fólk er ekki heldur alltaf fyrirsegjanlegt enda er það ekki fléttan sem gefur Hamam gildi heldur takturinn sem myndin er í sem er einmitt sá sem Francesco finnur í Istanbul án þess að leita hans. Memet lýsir þessu sem ást á öllu og öllum sem hann sjálfur uppgötvaði í bernsku þegar frænka Francescos baðaði hann (og sú ást nær að lokum líka til Mörtu sem hann er jafn vænn við og Francesco áður). Þetta gæti verið boðskapur leikstjórans Ferzan Özpetek sem varð frægur á þessari fyrstu kvikmynd sinni (hún er frá 1997) sem er óður til rólegheitanna, hins gamla lífsstíls sem snýst ekki um hlaup í leit að peningum og hagvexti heldur hæglátum unaði sem tyrkneska baðið er táknrænt fyrir. Líkt og Francesco og Marta fær áhorfandinn tækifæri til að hugsa um hvað lífið sé og í hverju gæði þess felast.
Það er ekki laust við að ég sjái líkindi með fagurfræði Özpeteks og þessari vefsíðu minni sem einnig er í hægum takti og fylgir aðeins eigin formúlu. Hér er ekki hamast við að klína stjörnum á nýjar bækur fyrir jólin heldur þvert á móti ræði ég eingöngu það sem mig langar að tala um (alveg eins og ég skrifa aðeins bækurnar sem mig langar til) og leyfi mér að rekast á 25 ára gamlar ítalsk-tyrkneskar bíómyndir sem enginn annar er að horfa á eða tala um vegna þess að á endanum njótum við ekki listar til að safna punktum eða vera vinsæl.