Hversu krípí er Love Actually reyndar?

Af því að það eru enn jól og á jólunum segir maður satt (mjög vond hugmynd í fjölskylduboðum) er best að viðurkenna að með hækkandi aldri er ég farinn að horfa á jólamyndir seinustu dagana fyrir jól og í ár urðu það Die Hard (skrifaði um hana í fyrra), Jólaævintýri prúðuleikaranna (þyrfti að skrifa heila bók um Jim Henson sem raunar dó áður en þessi besta kvikmynd Hensonheimsins var gerð), Martröðin fyrir jól (frábær mynd, skrifa kannski um hana í árslok), Aleinn heima (aldrei við mitt skap en batnar smám saman) og Love Actually sem ég hélt ekki upp á þegar ég sá hana fyrst, fór síðan æ meira í taugarnar á mér uns sáttaferlið hófst nýlega. Eins og allur hinn vestræni heimur veit er þetta sagnasveigur með níu ástarsögum og margar þeirra eru einkennilega pervertiskar og fráhrindandi fyrir utan að flestar lýsa skyndiskoti fólks sem þekkist ekki neitt en það er að vísu einkenni á allri greininni og kannski er vandinn fyrst og fremst hjá áhorfendum sem halda að rómantískar gamanmyndir fjalli um raunverulega ást. Það gera ýmsar tegundir kvikmynda en ekki þær.

Fyrir alllöngu raðaði ég ástarsögunum í þessa röð frá þeim mest krípí til hinna minnst: 1. stalkerinn með spjöldin, 2. leiðinlegi Bretinn sem fer til Ameríku, 3. ameríska konan með geðveika bróðurinn, 4. parið sem talar ekki sama tungumál, 5. ráðherrann og ritarinn, 6. kynlífsatriðaparið, 7. popparinn og umbinn, 8. framhjáhaldssagan, 9. feðgarnir. Síðan hef ég endurskoðað röðina aðeins. Bretinn kynóði sem Kris Marshall leikur er enn óþolandi en ljósglærur í handritinu samt. Ég samþykki ekki enn að konur sem eiga geðveik ættmenni megi ekki lifa kynlífi og það sé skylda þeirra að taka alltaf símann þegar veikir ættingjar hringja. Hugsanlega er þetta réttlát refsing konunnar fyrir að hafa mætt með ullarhúfu í brúðkaup (sjá að neðan) en samt finnst mér þetta áfram ljót og leiðinleg saga.

Eins er hægt að fyrirgefa sögunni um það þegar Colin Firth fer til útlanda að skrifa bók og fellur samstundis fyrir vinnukonunni þó að þau skilji alls ekki hvort annað og hún sé efnahagslega háð honum; brandarinn í sögunni er auðvitað að þetta er Colin Firth og þau stökkva ofan í tjörn á einum tímapunkti því að engin rómantísk gamanmynd með Colin sleppur við tilvísanir í það þegar hann lék Mr Darcy forðum. Þá má segja að það sé hugljúft að þau reyna að læra tungumál hins þó að bónorðssenan í útlandinu sé afar mikið föst í miðjarðarhafsbúar-eru-léttir-á-bárunni-klisjunni og vandræðalegu gríni um ensk-ameríska heimsvaldastefnu (eins og írónía geri hana betri). Eins er í sjálfu sér ekkert að sögunni um kynlífsatriðaparið nema hugsanlega að mörgum finnst það hálf gróteskt að vera stöðugt með allsbert fólk að símúlera kynlíf í fjölskyldumynd. Þetta er þó hið viðfelldnasta og kurteisasta par og ekkert að sambandinu nema þessi undarlegu tengsl. Eins er sagan um popparann og umbann vandræðaleg en á sinn hátt hugljúf þó að persónan sem Bill Nighy leikur mætti kannski hæðast minna að vaxtarlagi vinar síns (það eru endalausir fitubrandarar í myndinni). Flóknast er kannski að meta sögurnar um ráðherrann og ritarann (þar sem Hugh Grant leikur viðfelldnari útgáfu af Tony Blair) og eltihrellinn með spjöldin enda fá þessar sögur mesta reiði á netinu.

Reiðin snýst annars vegar um valdamisvægi ráðherrans og ritarans en það er nú kannski ekki létt fyrir forsætisráðherra að finna maka sem hann er ekki á einhvern hátt yfirskipaður. Margir hafa einfaldlega ekki hlustað nógu vel og halda að hann reki konuna úr starfi vegna einkamála en hann gerir það ekki beinlínis og það er frekar hún en hann sem sýnir sambandi áhuga. Hins vegar er það náunginn með spjöldin sem er sannarlega ástfanginn af eiginkonu vinar síns en honum til varnar þegir sá yfir því uns hann er afhjúpaður og jafnvel atriðið með spjöldin má túlka sem tilraun til að ljúka samtali sem hann æddi út úr fyrr í myndinni. Miðað við endi myndarinnar virðist allt í lagi með hjónabandið og besta vininn þegar hann hefur náð að ræða þráhyggju sína við konuna. Sú staðreynd að leikkonan var aðeins 18 ára skiptir ekki öllu máli, persónan á greinilega að vera eldri.

Ég get eftir sem áður ekki sagt að mér finnist þetta beinlínis góðar ástarsögur. Einu sem standa undir því eru sagan um stjúpföðurinn og litla strákinn ef hún er fyrst og fremst skilin sem saga um þá tvo því að hrifning þess litla á amerísku stelpunni sem syngur eins og stjarna er ekkert undirbyggð (leikarinn var meira sannfærandi sem elskhugi í Drottningarbragðinu löngu síðar). Sagan um framhjáhaldið nýtur þess að Alan Rickman og Emma Thompson hunsa það að þau eru stödd í bíómynd sem er alger froða og ég verð æ hrifnari af fínlegum og tilfinningaþrungnum leik þeirra beggja þó að umfjöllunarefnið sé ömurlegt og lausnin ekki gleðileg. Eins á þessi lummumynd þakkir skyldar fyrir að gera þjóðargersemina Bill Nighy frægan því að það var löngu tímabært og hans leikur er líka skemmtilega öðruvísi og frumlegur á sínum tíma þó að sagan sé ekki djúp.

Í stuttu máli er hluti af vandanum við myndina sameiginlegur vandi allra rómantískra gamanmynda, annar vandi er að mynd með níu sögum hlýtur að vera yfirborðskennd á köflum og sá þriðji er að hún endurspeglar almenna úrelta samfélagsfordóma um samskipti kynjanna en hún er vitaskuld ekki ein um það. Er að lokum engan veginn jafn fyndin og búast mætti við af höfundi Blackadder en samt notaleg og létt og auðvelt að gleyma sér í.

Previous
Previous

Pikkföst

Next
Next

Leitin að hljómbotni tilverunnar