Pikkföst

Líklega hefði ég aldrei heyrt um Solvej Balle þegar hún vann bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2022 ef ég hefði ekki dvalið í Danmörku á 10. áratugnum sem var fyrra stóra tímabilið hennar. Ég las hana aldrei þá, fannst hún of umtöluð sem heimspekilegur fantasíuhöfundur og ímyndaði mér að hún væri ófyndinn femínískur Andri Snær. Ekki veit ég heldur hvort ég hefði fengið mikið út úr verkum hennar þá en sé eftir að hafa ekki prófað hana á mömmu, aðdáanda Camus og Pauls Auster.

Hvernig væri lífið ef við hefðum ekki hugmyndina um rás tímans, þróunina, orsakir og afleiðingar og þá ímyndun að við deilum heiminum, rúminu og tímanum ásamt öðrum? Við slíkar spurningar fæst Solvej Balle í sínu mikla verki sem nú er farið að birtast á íslensku í fallegri þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur og heitir Rúmmálsreikningur I, fyrsta bindi lengri sögu sem þó er ekki beinlínis saga því að hugtakið saga virðist krefjast einhvers sem vantar í þennan texta um Töru Selter sem er föst í 18. nóvember, ósköp venjulegum degi, ásamt manni sínum Thomas en þó ekki því að aðeins Tara lifir 18. nóvember aftur og aftur. Hún trúir Thomas fyrir þessu og hann trúir henni en samt gleymir hann því að hans tími er ekki lengur hennar.

Gagnrýnendur vísa gjarnan til kvikmyndarinnar Groundhog Day en munurinn er á sögunum er þó afgerandi og róttækur því að bandaríska gamanmyndin er þroskasaga um mann sem lærir á heiminn og nær að lokum að fullkomna daginn sem að sjálfsögðu felur í sér að vera góður við náungann og ná að lokum saman við Andie McDowell. Enga slíka sögu er að finna í fyrsta bindi Rúmmálsreiknings, Tara er þvert á móti pikkföst og sögunni lokið, tilfinning sem er kannski ekki jafn fjarlæg okkur miðaldra og ungu fólki og að einhverju leyti fæst Solvej við þann tíma ævinnar þegar markmiðum er náð og aðeins viðhaldið eftir en raunar glímir hún líka við miklu stærri spurningar í þessum heimspekitrylli eins og bókin hefur verið kölluð á netinu, samband manns og heims og þátt tímans í að skapa það og móta.

Solvej Balle skrifar minimalískan stíl sem nýtur sín vel á íslensku. Hún er óhrædd við endurtekningar enda kallar viðfangsefnið beinlínis á það. Nútímaskáldskapur er gjarnan skýr og einfaldur og ekki síst er andófið gegn „stílnum” hugsjón norrænna höfunda. Sagan verður samt heillandi fyrir suma en viðtökurnar skiptast eðlilega í tvö horn því að öðrum finnst ekkert gerast, hvorki ytra né innra né í textanum sjálfum. En væri það ekki álíka svindl og Groundhog Day? Eiga hugtök á borð við „skemmtilegt“ yfirleitt við tilraunir til að ná utan um tilvistina?

Vonandi kemur sagan öll út á íslensku. Fimm bindi eru komin út í Danmörku en sagan er septólógía sem gæti tengst fjölda vikudaga og almennri menningarlegri stöðu tölunnar sjö en vitaskuld verður manni einnig hugsað til snillingsins Proust sem breytti skáldsöguforminu á sínum tíma.

Previous
Previous

Amlóðasaga í enskri höll

Next
Next

Hversu krípí er Love Actually reyndar?