Amlóðasaga í enskri höll

Eins og þeir fáu vita sem lesa allar greinar á þessari síðu var ég ekki laus við aðdáun á kvikmynd leikstjórans Emerald Fennell um efnilegu ungu konuna sem ég sá í fyrra og þegar næsta mynd hennar Saltburn kom í ljós á Prime sem ég álpaðist til að gerast áskrifandi að í fyrra og tími ekki að hætta þar sem ég er ekki búinn að horfa á allt efnið sem gæti höfðað til mín, hvar var ég? Já, Saltburn birtist á Prime og ég varð að horfa á hana þar sem ég hafði séð mikið rætt um þessa mynd á Guardian og öðrum enskum miðlum sem ég fylgi. Þetta er kvikmynd með Barry Keoghan úr Vábeiðunum frá Insherin og Dunkirk og hinum ástralska Jacob Elordi sem mér er sagt að sé afar heitur og fjallar um Oxford og enskar stéttaandstæður, efni sem eru alfa og ómega gamalla marxista eins og mín. Maður finnur líka strax í upphafi að þetta er metnaðarfull mynd sem ætlar sér að vera eins konar and-Crown um vúlgeran valdaræningja. Barry Keoghan leikur Oliver, fátækan og vandræðalegan stúdent í Oxford sem fellur illa að samfélagi sem snýst um snobb fyrir yfirstéttinni en kynnist Felix, hávöxnum og fallegum yfirstéttargaur sem hann hefur séð úr fjarska en nær svo að gera gaurnum greiða og kynnast honum. Samband ljóta andarungans með gleraugun sem fína liðinu finnst varla mennskur og er einu sinni líkt við kroppinbakinn Ríkharð 3. við hárfagra goðumlíka nepógaurinn verður að lokum langvarandi enda snemma greinilegt að Oliver ætlar sér eitthvað, að minnsta kosti sýnist manni það þegar hann stendur utandyra í myrkrinu og horfir á vin sinn fá sér á broddinn með kærustunni og leitar síðar í sömu stúlku, sennilega til að komast óbeint í bólið með goðinu. Það eru 5-6 stórundarlegar senur í Saltburn sem margar tengjast líkamsvessum og kalla á afburðaleikara eins og Barry Keoghan til að maður hreinlega gefist ekki upp en Barry kann manna best að leika sympatísk frík og hin óræða en ákafa og hamslausa girnd hans heldur spennunni uppi til loka. Felix fellur aðdáun hans greinilega vel og er fullur samúðar með nýja forréttindalausa vininum sem allir fyrirlíta; fínu vinum hans finnst nýja gæludýrið aftur á móti greinilega þreytandi þó að hann sé líka skilgreindur sem einn af mörgum strákum sem Felix hefur aumkað sig yfir en muni síðan missa áhugann eins og draslinu á gólfinu sem Oliver á erfitt með að stilla sig að taka ekki til fyrir hann.

Felix býður Oliver í höllina sína sem myndin er kennd við og um hríð er sagan eins og Brideshead Revisited uppfærð til nútímans. Þar ríkir ágeng fegurð og þar er ég ekki aðeins að tala um Jacob Elordi sjálfan heldur líka náttúruna og skreytilist hallarinnar. Hinn ólánlegi Oliver fær að kynnast hallarbúum, yfirstéttinni sem hefur óljósa hugmynd um hvar Liverpool er og er haldin fælni við ljótleika, vill samt gjarnan hafa einn fátækling á heimilinu og ætlar augljóslega að dömpa fyrra viðhengi (sem er sjálf Carey Mulligan) fyrir hann. Hann verður þannig tímabundið viðhengi kenjóttrar yfirstéttarfjölskyldu með hina ágætu fv. Bond-stúlku Rosamund Pike í broddi fylkingar; hún fær allar bestu línurnar og brillerar í hverri senu. Felix er líka með systur og ögn fyrirlitinn kynblandaðan frænda í taumi og Oliver býðst að slást í hópinn þar sem þau liggja öll nakin í háu grasinu og njóta hins áhyggjulausa yfirstéttarlífs. Til þess er hann greinilega afar fús og þau virðast ekki laus við hrifningu á sköpulagi hans. Þegar Oliver fylgist eitt kvöld með Felix rúnka sér í baði og sleikir síðan baðkarið áttar maður sig endanlega á að þetta er ekki alveg Brideshead og Oliver ætlar sér greinilega að kynnast þeim öllum náið með öllum tiltækum ráðum. Í kjölfarið táldregur hann fjölskyldumeðlimina einn af öðrum til þess að síðan svíkja þau og koma fyrir kattarnef. Ekkert þeirra virðist standast áfergju hans; yfirstéttin með öllu grunlaus um illan hug lágstéttarinnar og vantrúuð á hæfileika hennar til að láta illt af sér leiða. Systir Felix er fyrst á dagskrá og aðkomumaðurinn ófeiminn að sleikja tíðablóð hennar en þegar fátæki frændinn sér þau og kjaftar frá verður hann efstur á listanum. Í svörtum sakamálamyndum fyrri áratuga drápu illmennin þá sem stóðu í vegi fyrir þeim en Oliver forfærir afætufrændann í staðinn sér til skemmtunar og klínir á hann þjófnaði til að losna við sögusmettuna úr höllinni. Væntanlega er þetta symbólskt hjá Emerald, bresku alþýðuna dreymir líklega bæði um að serða aðalinn og myrða.

Empatía Felix er næstum búin að spilla plotti Olivers, fallega kúltúrbarnið slysast til að afhjúpa lygar gestsins um eigið munaðarleysi og fátækt og þar sem samband þeirra var að einhverju leyti byggt á vorkunn hyggst hann greinilega vísa uppskafningnum úr þessu himnaríki en deyr voveiflega í kjölfarið og engan grunar litla aðkomudrenginn nema auðvitað okkur áhorfendur. Hið óvænta brotthvarf Felix úr myndinni truflar marga áhorfendur sem héldu að hann væri hnoss sögunnar og finnst hálfgert andklímax að næstmikilvægasta persónan deyi fyrst en Emerald hefur engan hug á að búa til snyrtilega byggðan trylli og maður verður að virða það. Oliver tekst að kenna um klöguskjóðufrændanum sem tortryggði hann einna mest og losna þannig endanlega við keppinautinn en hefst síðan handa við að taka yfir persónulega hluti Felix og hans líf í kjölfarið eins og Alain Delon í Plein soleil forðum en virðist þó harma vin sinn mjög sem lýsir sér m.a. í því að hann fróar sér nakinn á gröf hans, sterk vísbending um að Emerald vilji ganga fram af áhorfendum en þeir sem eru enn að horfa eftir baðkarsatriðið eru harðgerðari en svo. Líklega er það þó ekki eini tilgangurinn því þessar öfgasenur eru ekki aðeins sláandi þáttur í fagurfræði myndarinnar heldur eiga einnig sinn þátt í að viðhalda þversagnakenndri samúð manns með tröllinu. Næsta skref Olivers er að ganga frá systurinni sem er seint um síðir farin að gruna hann um gæsku og sitja einn að foreldrunum enda gesturinn orðinn eins og óhagganlegur húsmunur. Ekki endilega raunsætt en táknrænt gengur þetta upp og mér finnst eðlilegt að beita þjóðsagna- og ævintýragleraugunum á þessa mynd. Afbragðsleikur hins lágvaxna og svolítið ófríða Barry Keoghan (sem er þrátt fyrir allt kynþokkafyllri en fallega fólkið) nær líka að halda manni með í för.

Í lok kvikmyndarinnar hefur Oliver náð að endurnýja kynnin við mömmuna sem nú er orðin ekkja, hefja ástarsamband við hana og að lokum eignast hann þannig húsið og í ljós kemur (kannski ekki mjög óvænt) að allt var þetta skipulagt af honum frá upphafi, jafnvel fyrstu kynni þeirra Felix. Þetta hefðum við sennilega átt að skilja um leið og breska Zadokkrýningarstefið kveður við ásamt heiti myndarinnar. Þessi nútímalega Amlóðasaga fylgir gömlu formi nema það liggur alls ekki fyrir hvaða harma Oliver á að hefna og hann þarf ekki heldur að leika sig óðan því að það er alveg nóg að vera undirmáls táknrænn kroppinbakur og þykjast ekki þekkja fínar morgunverðarhefðir. Hinn undirföruli aðkomumaður hefur í lokin losað sig við þau öll og er orðinn eigandi hallarinnar sem hann dansar síðan allsnakinn um í lokaatriði myndarinnar en það atriði hefur vakið meira umtal en flest annað í kvikmyndinni, ekki vegna þess að það sé endilega óraunsætt því að auðvitað getur fólk sem býr eitt notað tækifærið og sprangað nakið um hvern krók og kima og í evrópskri mynd þætti það varla tiltökumál þó að leikari sýndi gervallt sköpulag sitt aftan og framan en líklega ætlar Emerald með þessum nektardansi söguhetjunnar að sýna okkur hið dýrslega og frumstæða eðli hins gíruga millistéttardrengs sem var talinn hallærislegur brandari en hefur með klækjum náð undir sig höll aðalsins og þarf ekki að vera feiminn enda kannski orðinn hinn nýi fegurðarstaðall. Endir myndarinnar gæti valdið vonbrigðum nema einmitt ef hún er skilin sem almenn saga um útskúfun og trylltar langanir fremur en eins konar samfélagsspegill.

Ég hélt fyrst að ég myndi skrifa um samfélagslegan boðskap myndarinnar en á endanum finnst mér gildi hennar alls ekki felast í því heldur er hún athugun á hamslausri þrá hins fyrirlitna, efni sem ekki er svo erfitt að tengja sig við. Fyrir utan góða frammistöðu leikaranna og talsvert skemmtigildi Saltburn er eðlilegt að margir velti fyrir sér hvort þetta sé í raun góð mynd en eftir að hafa horft á hana tvisvar og haldið áfram að hugsa um táknin þá finnst mér skrítin uppbygging sumra atriðanna aukaatriði en hitt meira virði að Emerald fangar eitthvað í manneðlinu sem full ástæða er til að hugsa um.

Previous
Previous

Konan sem var Edgar Allan Poe á Íslandi

Next
Next

Pikkföst