Skírnir er kominn út

Elsta tímarit á Norðurlöndum lifir góðu lífi og 197. árgangur þess er sá fyrsti sem áskrifendur geta fengið rafrænan ef þeir vilja spara pappír eða sendingarkostnað. Þar kennir margra grasa og og fullyrða má að margar greinar í hefti haustsins 2023 eigi eftir að vekja athygli bæði nú og síðar enda er fjallað um ýmis hitamál sem ýmist hafa verið talsvert í umræðunni eða hefðu átt að vera þar. Sigrún Margrét Guðmundsdóttir er nýr ritstjóri heftisins og þegar hún tók við var fátt af efni sem beið enda fyrri ritstjórar óviljugir að binda mjög hendur hins nýja. Í gamni spurði hún hvort ég gæti lagt til uppfyllingarefni og ég ákvað að senda henni grein sem fjallaði beinlínis um uppfyllingarefni og heitir „Uppfyllingarefni“ (sem umbrotsmaður hélt eðlilega fyrst að væru mistök). Er þetta sennilega sú grein mín sem er mest „meta“ af þeim öllum þó að ýmsar leyni núna kannski á sér.

Í greininni segi ég meðal annars: „Eins og sjá má á þessari grein eru stuttar gamansögur og brandarar mikilvægt efni blaða allt frá lokum 19. aldar út 20. öldina en sjaldan er þeirra þó getið í fjölmiðlasögu. Á 21. öldinni ber minna á slíku efni en staða blaðanna er líka gjörbreytt á dögum netsins, þau eru smám saman að veslast upp líkt og póstþjónustan. Velta má fyrir sér hvort ástæða verði eftir nokkur ár að nota orðið „fjölmiðlar“ eða hvort „miðlar“ ætti betur við. Brotthvarf uppfyllingarefnis er því hugsanlega hnignunarmerki. Líklega er engin tilviljun að „Áramótaskaup“ Ríkisútvarpsins er lífseigasta og vinsælasta fjölmiðlaefni á Íslandi og eitt af því fáa fyrir utan söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem reiknað er með að allir horfi á.“ Við sem erum „meta“ erum auðvitað heldur meira fyrir að varpa fram spurningum en að svara þeim. Þó að þessi tilraun mín sé stolt uppfyllingarefni er ég ekki frá því að hún standi jafnvel fyrir sínu og brjóti jafnvel blað (myndlíking sem framtíðarkynslóðir munu tæpast skilja mjög vel).

Previous
Previous

Enn er búið í Stepford

Next
Next

Tröll leitar á ungmenni