Tröll leitar á ungmenni

„Mamma mín sagði mér að gera þetta aldrei“ segir hinn ungi, stóreygi og glaðbeitti Jim Halsey (leikinn af C. Thomas Howell úr Utangarðsdrengjum) þegar hann tekur upp puttaferðalang (Rutger Hauer) í myrkri og rigningu í kvikmyndinni The Hitcher (1986) eftir að hafa reynt að halda sér vakandi með reykingum í fyrsta skoti myndarinnar. Sá ókunni reynist vera hið mesta tröll og segir stráknum fljótlega að hann hyggist deyða hann. Hefst þá einvígi sem virðist í fyrstu afar ójafnt þar sem puttaferðalangurinn reynist hafa nánast yfirskilvitlega hæfileika til að drepa fólk, leika á lögregluna, hanna atburðarás þar sem stráksi virðist hinn seki en virðist hins vegar fljótlega hættur við að drepa hann og sleppir stráknum ítrekað úr klóm sér, minnir á eltihrelli sem hyggst ná athygli og áhuga stráksins með öllum mögulegum leiðum. Aldrei er skýrt hvers vegna eða hver maðurinn er (hvað þá hvers vegna hann leikur sér eins og köttur að músinni) enda virðist hann ganga undir dulnefni. Farþeginn er martraðarkennt óféti sem ásækir söguhetjuna ungu án skýringa, ekki ósvipað og þegar kveldriðan ásótti Gunnlaug Þorbjarnarson í Eyrbyggju þó að hin frábæra Strangers on a Train Hitchcocks sé örugglega beinni fyrirmynd.

Fyrir utan hinn augljósa ótta við ókunna puttaferðalanga sem sagan þrífst á er hómóerótíski bdsm-undirtextinn varla lengur undirtexti mörgum áratugum síðar enda myndin morandi í býsna augljósum tilvísunum sem fóru þó sennilega framhjá flestum árið 1986. Strax í byrjun spyr Jim puttaferðalanginn hvers vegna sá ókunni horfi svona áfergjulega á hann og þá er hann rétt að byrja að góna; þó að dauðinn eigi síðan að tengja þá saman er hann augljós metafóra fyrir Eros. Leðurmittisjakkaklæddi ungi maðurinn og frakkaklætt ófétið eru síðan æ ofan í æ starandi hvor á annan dágóða stund í hvert sinn sem þeir mætast á ný (klókasta löggan segir stráknum undir lok myndarinnar að greinilega sé eitthvað einkennilegt í gangi milli þeirra tveggja) og eltihrellirinn nær að lokum sínu fram þegar annar verður banamaður hins. Ungi maðurinn er allur annar í lok myndarinnar, ekki lengur glaðbeittur, hræddur og saklaus heldur orðinn harður vígamaður sem við sjáum standa hugsi við bíl sinn í eyðimörkinni og reykja hina hefðbundnu eftirsamfararettu, myndin þannig römmuð inn af fallískum stautnum sem andstæðingarnir tveir stinga reglulega upp í sig, milli þess sem þeir strjúka hnífa og byssur og skrímslið brosir ljúfsáru brosi, eflaust að hugsa um tár í rigningunni.

Í millitíðinni hafði stúlka (leikin af Jennifer Jason Leigh) blandast í málið sem hjálpar unga manninum ítrekað að því er virðist einkum vegna þess að hann er sætur en hún er þó ekki hnoss myndarinnar þó að maður haldi það fyrst því að stráksi heldur áfram að vera mest upptekinn af puttaferðalangnum ógurlega sem er sannkallað skrímsli þó að hann lîti alls ekki þannig út, fer auðveldlega gegnum alla veggi og veit alltaf hvar allir eru staddir. Hann birtist þannig þegar unga parið hefur legið saman (fullklætt), rænir henni og myrðir að lokum í misheppnaðri tilraun til að fá unga manninn til að drepa sig. Eins stútar sá óði heilu fjölskyldunum og tug lögreglumanna að því er virðist eingöngu til að ná athygli unga mannsins sem upphaflega tók hann sennilega upp í bíl sinn í von um að halda sér vakandi og sleppur síðan ekki undan sjúklegum áhuga hans.

The Hitcher var gerð af ungum og óreyndum mönnum (handritshöfundurinn heitir Eric Red eða Eiríkur rauði) og kolféll í Bandaríkjunum enda hötuð af þarlendum gagnrýnendum. Í Evrópu þótti hún góð hryllingsmynd á sínum tíma en ég sá hana í fyrsta sinn núna um daginn vegna þess að á unglingsàrunum hafði ég engan kjark til að horfa á slíkar myndir. Hún kallar á „willing suspension of disbelief“ en er sannarlega nógu hröð til þess og heldur áhorfendum stöðugt á tánum. Lítil von er að finna vitræna skýringu á hvað morðingjanum gengur til enda sennilega ekki til þess ætlast. Rutger Hauer fer með allar sínar setningar með tóbakslegnu hvæsi eins og þulur í kynningsrmyndbandi en er líka með glettnisglampa í augum. Sem táknræn saga um eltihrelli er hún sterk og mögnuð og áhorfandinn tekur fullan þátt í fjölbreyttum líkamlegum viðbrögðum þessa Farley Granger 9. árarugarins, unga mittisjakkamannsins titrandi og skjálfandi sem kyngir, stynur, tárast, svitnar, kastar upp, hrækir á ógnvaldinn, hlýtur ýmsar skrámur en banar glottandi tilberanum að lokum þegar hann hefur yfirunnið eigin bælingu og hleypt af.

Previous
Previous

Skírnir er kominn út

Next
Next

Gullkorn og launkímni