Gullkorn og launkímni
Í októberlok andaðist Bjarni Guðnason prófessor, 95 ára gamall. Hann var minn „doktorvater“, leiðbeinandi, velgjörðamaður og vinur til margra áratuga en um það get ég ekki skrifað núna af neinu viti. Hvattur af góðu fólki hef ég hins vegar notað tækifærið og lesið aftur skáldsögu hans Sólstafir sem kom út árið 1987. Ég las líka nokkra ritdóma um hana og varð frekar hryggur. Gagnrýnendur skilja bókina greinilega ekki mjög vel, eru afar uppteknir af því að höfundur sé prófessor en ekki bókinni sjálfri og þó að öllum finnist ritstíllinn góður hafa þeir fátt fleira um hana að segja. Ekki er óvænt að einna helst gæti skilnings hjá Árna Bergmann sem var íslensku menningarlífi þarfur maður áratugum saman.
Óneitanlega eru líkindin við lærða metsöluhöfundinn Umberto Eco nokkur enda hefst sagan í klaustri líkt og Nafn rósarinnar en fagurfræðin þó gerólík, hjá Bjarna er módernisminn í öndvegi, stíllinn tálgaður, mælgin engin og upplýsingar naumt skammtaðar. Stundum finnst manni lýsingar jafnvel of tálgaðar. Málfarið á þessari skáldsögu er sannarlega eitt það fegursta sem sjá má á íslensku skáldverki seinustu áratuga. Áherslan er öll á hið almenna gildi en lítið um fagurfræðilega leiki eða heimspekilegar vísanir eins og hjá Eco. Vegna þjóðbrautarþemans minnti hún mig frekar á Birting eftir Voltaire þegar ég las hana fyrst. Núna löngu síðar á ég ekki erfitt með að sjá miðaldamenntun Bjarna sem gegnsýrir verkið en hann er þó laus við þá áráttu sumra að fyrirlesa stöðugt yfir hausamótum lesenda. Kannski er það þess vegna sem sumir lesendur voru lens og vissu ekki hvernig ætti að túlka bókina.
Ekki skortir gullkorn og launkímni í söguna en það sem stendur henni helst fyrir þrifum er að aðalpersónan Pétur er frekar dauflegur og flókið fyrir lesendur að finna til með honum en þó er það hann sem tengir allt saman því að fleiri aðalpersónum er ekki til að dreifa. Árni Bergmann kallar hann áhorfanda og þolanda og þar með vantar bókina sterkari vitundarmiðju, einkum þar sem sagan er líkt og ferð þar sem persónur koma og fara og enginn lengi á sviðinu nema Pétur sem er tiltölulega óskrifað blað. Hinn demónski Róbert rannsóknardómari er áhugaverður enda birtist hann bæði í upphafi og enda sögu og veitir færi á nýrri túlkun. Kannski kallar bókin á marga lestra, lesandi fær sterka tilfinningu fyrir að hvert orð sé dýrt. Ég skildi strax á unglingsárunum að Sólstafir væri mjög innihaldsrík skáldsaga þar sem leit mannsins að inntaki væri undir og það er skaði að Bjarni hafi ekki skrifað fleiri skáldsögur þó að ég skilji það svo sem þegar ég les luntalega ritdómana. Bókin hefur verið lengi í hillu á heiðursstað á mínu heimili og verður þar áfram.