Smyl hafi þig

Eitt af helstu goða- og spekikvæðum Konungsbókar eddukvæða er Grímnismál og þau eru öll varðveitt í tveimur miðaldahandritum, öfugt við mörg eddukvæði, Konungsbóik eddukvæða og AM I 748 4to frá upphafi 14. aldar. Drjúgur hluti Grímnismála eru nöfn Óðins og annarra goðvera og er sá fróðleikur einnig nýttur í Gylfaginningu í Snorra-Eddu þar sem allmargar vísur úr Grímnismálum koma fyrir. Þó hafa Grímnismál vakið mun minni athygli fræðimanna en ýmis önnur kvæði sem eru nýtt í Snorra-Eddu. En í kvæðinu er þessi fróðleikur settur í rammasögu um hinn illa konung Geirröð sem hefur fangað sjálfan Óðin í dulargervi og á hinn bóginn son konungs Agnar sem hefur samúð með fanganum og færir honum drykk.

Fyrir vikið flytur Óðinn Agnari allan þennan forna og mikilvæga fróðleik áður en hann hefnir sín á Geirröði. Þetta er í stuttu máli kvæði af því tagi sem hefur verið nefnt prosimetrum, þ.e. ljóð römmuð af lausamáli. Eins og önnur fróðleiks- eða spekikvæði eru vísurnar undir ljóðahætti og þær eru hlaðnar nöfnum, heitum og öðrum upplýsingum. Í kvæðinu eru nokkur torræð orð en aðallega er hugsunin á bak við þau forvitnileg. Til dæmis er eldurinn kallaður „hripuðr“ í fyrsta erindi kvæðisins og það vísar væntanlega til hraða enda á eldur til að breiðast hratt út. Í formála kvæðisins segir Geirröður við skip sitt: „Farðu þar er smyl hafi þig“. Í mörgum útgáfum er orðið „smyl“ talið samsvara trölli eða óvætti og greinilega er eins konar bölvun hér á ferð en forvitnilegt væri að vita meira um smylið eða smylina sem gleypir skip. Flestar orðsifjabækur standa á gati um vensl þessa stakyrðis við önnur. Það er því áskorun fyrir okkur þýðendur að koma smylinu heim og saman.

13. erindi Grímnismála er ekki torskilið en áhugavert en þar segir frá glöðum verði sem drekkur mjöð í húsi sínu. Gátu goðin virkilega ekki fundið bindindismann í þetta mikilvæga hlutverk? segi ég. Annað sem Grímnismál hafa fengið mig til að hugleiða er orðið einherji sem íslenska wikipedia segir að merki ‘sá sem berst einn’ en þó er einherjahópurinn fjölmennur, virðist berjast saman og eitthvað málum blandið við þessa orðskýringu. Ein- er raunar iðulega notað um eitthvað sem er frábært eða sérstakt eða framúrskarandi og finnst mér líklegra að þar sé upprunans að leita en að þessir hermenn berjist einir.

22. vísa Grímnismála er líka frekar fríkuð en þar upplýsir Grímnir strákinn um að Valgrind sé hliðið að Valhöll „en þat fáir vitu, hvé hon er í lás of lokin“ sem vitaskuld er ánægjulegt, að tiltölulega fáir geti komist inn í jafn mikilvægan stað. Sama á þessa dagana við um Eddu, hús íslenskra fræða. Einhvern veginn finnst manni þessar upplýsinga samt frekar eiga heima í notkunarbæklingi en goða- eða helgikvæði. Í stuttu máli hef ég núna komist í gegnum Grímnismál og veit nokkurn veginn hvað hver vísa merkir en veit ekki hversu vel ég skil kvæðið allt og dularfull erindi þess. Ég sé raunar á fyrri útgáfum og þýðingum að það er margt sem fyrri útgefendur varpa tiltölulega litlu ljósi á þannig að ég er í ágætum félagskap.

Previous
Previous

Gullkorn og launkímni

Next
Next

Góður Dagur til að elska