Góður Dagur til að elska

Ég hef þekkt Dag frá því að ég man eftir mér og þó töluðumst við aldrei við, man ekki eftir að hann hafi sýnt pollum eins og mér sérstakan áhuga og seinna var hann svo illa farinn að ég treysti mér ekki til að umgangast þennan erfiða móðurbróður, bar í mér óþol fyrir óreglu og sjálfsást sem einkenndu hann. Á hinn bóginn var ég alinn upp við virðingu fyrir honum sem listamanni sem ekki var þó endilega deilt af samfélaginu öllu í þá daga. Við horfðum t.d. á hann leika Ólaf liljurós í sjónvarpinu sem var ansi furðuleg kvikmynd. Mamma fór á opnanir og átti allar bækur hans, líka þær minnstu og skrítnustu. Þær voru seinna horfnar úr búinu en núna er ég farinn að safna þeim aftur sem er ekki létt verk og stundum enn flóknara vegna þess að Dagur hneigðist til að gefa bókum sínum því fleiri titla eftir því sem þær voru styttri eins og hér má sjá dæmi um.

Þessi bók var eins konar Rauðhettu- eða Öskubuskusaga sem var þó afar frábrugðin barnabókunum. Ég las hana þó samviskusamlega sem barn og var á minn hátt heillaður, líka af enn minni bók hans sem hét Ósköp venjuleg húsmóðir og ekkert stóð í nema: „Þessi er númer 0“ en Dagur hafði skrifað tölu fyrir aftan. Hún var tileinkuð konu sem hafði sakað hann um að hafa aldrei selt bók og kallaði sig húsmóður og ekki er ég viss um að ádeilan hafi rist neitt dýpra en það; auðvitað má af þessu ráða að róttæklingar þessa tíma báru enga sérstaka virðingu fyrir „ósköp venjulegum húsmæðrum“ enda vildu femíniskar konur þá vera menn og voru heldur andvígar sérstöku kveneðli sem ástæða væri til að hylla.

Fagurskinnu Dags lauk á því að úlfurinn beit Rauðhettu í brjóstin. Dagur var alltaf frekar klúr og því talsvert vandræðalegur frændi þó að aldrei hafi komið til greina að afneita honum. Mamma ól okkur upp á sérstökum andlegum stað sem var fullur af virðingu fyrir Dag en þó opinskátt rætt um öll vandamálin sem honum fylgdu. Löngu seinna hafði hún sérstakt yndi af mynd af henni sjálfri tveggja ára og systkinum hennar tveimur barnungum og skellihlæjandi, áður en foreldrarnir skildu og þau fóru hvert í sína átt. Hún var farin að sakna Dags löngu áður en hann lést en fáir eru bundnir sterkari böndum en systkini. Þau gefa hvert öðru aldrei neinn afslátt og fá sambönd einkennast því af meiri hita og sterkari tilfinningum en oft furðu óbeisluðum.

Mörg ljóð Dags einkenndust af kæruleysi, eins og hann hefði gubbað þeim upp úr sér á tveimur mínútum. Hann var ekki skáld eins og Hannes Pétursson og Snorri Hjartarson sem augljóslega höfðu lagt mikla vinnu í list sína. En Dagur hafði samt á sínum bestu stundum sama eiginleika og sjálfur Jónas og gat gert eitthvað fjarska einfalt sem er þó fullt af inntaki og stenst tímans tönn og er kannski afarsnjallt þegar nógu lengi er á það horft. Hér er síða úr einni af handskrifuðu ljóðabókunum hans með tveimur frekar snjöllum tveggja lína ljóðum.

Previous
Previous

Smyl hafi þig

Next
Next

Hið óskáldaða skáldlega