Hið óskáldaða skáldlega

Nýlega las ég Klettaborgina eftir Sólveigu Pálsdóttur sem kom út árið 2020 en við Sólveig höfum stundum hist í upplestrum og ég hef alltaf dáðst að því hversu vel hún flytur mál sitt og virðist eiga auðvelt með að mynda tengsl við áhorfendur sem auðvitað stafar að hluta af því að hún er menntuð leikkona. Sólveig hefur sent frá sér sjö spennusögur sem ég þarf fyrr eða síðar að gera grein fyrir en núna er það Klettaborgin sem er bók af því tagi sem mig dauðlangar til að skrifa sjálfur, skáldlegar minningar þar sem hið bókmenntalega er yfirskipað þörfinni fyrir að segja frá öllu og í bókinni myndir sem styrkja frásögnina, svolítið í anda meistarans W.G. Sebald sem öðrum betur kunni tökin á því óskáldaða skáldlega.

Minningar Sólveigar eru ekki síst gott söguefni að tvennu leyti. Annars vegar er hún eins og við mörg fædd á tíma sem er svo gjörólíkur þeim sem við lifum núna og er því að mörgu leyti eins og dulbúin sem nútímamaður en ættuð úr heimi sem var að ýmsu leyti einfaldari en öðru flóknari, án tækjanna sem stjórna nútímamanninum en þó einnig „nýi tíminn“ á sinn hátt. Auk heldur eru þessar andstæður jafnvel enn skýrari í hennar reynslu en flestra þar sem hún bjó ýmist á sjálfum Bessastöðum eða í sveitabæ án rafmagns sem mörgum finnst eflaust fjarstæðukennt núna.

Skondin kaflaheiti sýna aðferð Sólveigar vel og er hún ekki ólík aðferðum módernískra ljóðskálda. Hún nemur staður við alls konar smáa hluti og einfaldar minningar en þær verða fyrir vikið táknrænt fyrir annað og meira. Annað sem einkennir bókina er sterkt samband við lesandann. Þó að persónur séu yfirleitt dregnar upp í fáum orðum eru þær kynntar nógu vel til að tilfinning skapast strax fyrir þeim og þó er ekki alltaf fylgt línulegri frásögn. Bókin hefur líka það ágæta tvíeðli minninga að hinn fullorðni höfundur og túlkanir hans eru með í för og sagan verður því sterk mynd af samfélaginu og stöðu aðalpersónunnar í því.

Sem höfundur sem hef haft hug á að reyna eitthvað svipað get ég ekki annað en dáðst að því hversu vel Sólveig heldur utan um minningabrotin og þó að fagurfræðin sé skýr stjórna engar reglur henni eða koma í veg fyrir að hún segi það sem segja þarf. Klettaborgin er alls ekki saga hörmunga eða illrar meðferðar en samt ekki síður áleitin og varpar sterku ljósi á þann mennska harmleik að tíminn líður og allt tekur enda.

Previous
Previous

Góður Dagur til að elska

Next
Next

Karlar, konur og keðjusagir