Karlar, konur og keðjusagir
Í bók sinni Karlar, konur og keðjusagir (1992) segir norrænufræðingurinn Carol Clover frá því að hún var mönuð til að fara á kvikmyndina Keðjusagarmorðin í Texas (1974) eftir Tobe Hooper sem hún telur með áhrifamestu myndum 8. áratugarins og hefur augljóslega rétt fyrir sér. Ég er líkt og hún alinn upp við að líta á slíkar myndir sem drasl en líkt og hún hef ég skipt um skoðun á gamals aldri, þó að myndin sé augljóslega gerð fyrir litla fjármuni er hún máttug lýsing á martröð, einkum seinasti hálftíminn þar sem fjórir karlar pynta konu, þar af einn sem er nokkurn veginn venjulegur við fyrstu sýn, annar frekar krípí, sá þriðji eins og draugur eða múmía og sá fjórði skrímslið Leðurfés sem er nær dýrinu en manninum. Þeir eru það auðvitað allir þó að sumir virðist eðlilegir í fyrstu. Myndin virkar ekki á rökrænu sviði en myndmálið er kraftmikið og hún græðir á því að vera einföld og frumstæð, hefur síðar verið endurgerð og þar er framleiðslan mun betri en myndirnar græða þó ekkert á því. Tobe Hooper gerði síðar sjónvarpsþættina Salem’s Lot sem eru ekki jafn frumstæðir en þar er sama sterka tilfinning fyrir sterku myndmáli og óhugnaði.
Þetta er sem sé heil fjölskylda af ófétum en eins og Carol Clover bendir á er þessi mynd tilbrigði við Deliverance John Boormans (1972) sem er almennt viðurkennd sem góð mynd, mynd Tobe Hooper hrárri og grófari en ekki endilega verri. Hún bendir líka á að í þessari mynd verði til „lokastelpan“ (final girl) sem áhorfendum er augljóslega ætlað að samsama sig með en Clover bendir líka á að yfirgnæfandi meirihluti þeirra séu ungir karlmenn sem lifi sig samt inn í þjáningu stúlkunnar. Kynuslinn í myndinni er jafnvel enn meiri þegar Leðurfésið mætir varalitað til að sitja til borðs með stúlkunni og virðist búa yfir mörgum húðflettum andlitum. Í síðari myndum eins og Halloween er heldur meiri hófstilling í blóðsúthellingum en í raun fylgt sömu formúlu. Þar verði stúlkurnar líka smám saman virkari og berjist á móti kvölurum sínum en stúlkan Sally í Keðjusagarmorðingjanum afrekar aðeins að flýja eftir að hafa æpt ósköpin öll.
Þessar pyntingar á stúlkunni eru seinustu 30 mínútur myndarinnar en hún er hálfnuð þegar Leðurfésið birtist og morðin hefjast. Fjórir félagar Sally týna tölunni á tíu mínútum, áherslan er öll á hið óvænta fremur en að sýna pyntingarnar. Þar á undan er inngangur sem er fullur af illum fyrirboðum og ógeðfelldu myndmáli en engum hryllingi. Þar er Sally ekki mest áberandi af fimmmenningunum heldur bróðir hennar Franklin sem er í hjólastól og ekki laust við að hann sé líka skrímslavæddur og verði hálfgerð hliðstæða karlafjölskyldunnar sem síðan ræðst á ungmennin. Þannig er Franklin augljóslega ósáttur við hópinn þegar þau fara upp á aðra hæð án hans og flissa og glensa meðan hann er fastur niðri í hjólastól og gefur frá sér skrítna smelli – þetta er áður en Leðurfésið birtist og ópin og óhljóðin taka við.
Að lokum tekst Sally að flýja en er alls ekki hætt að æpa. Flótti hennar er fálmkenndur og björgun hennar skemmtilega handahófskennd enda eru skrímslin í þessari mynd ekki ódrepandi eða yfirnáttúruleg á nokkurn hátt. Við skiljum við hana enn í áfalli og myndinni lýkur á Leðurfés úti á götu veifandi keðjusöginni sinni í skrítnum dansi, sannarlega óhugnanlegur endir og reyndist vera upphaf á gullöld hryllingsmynda.