Vinátta kvenna í fornum textum

Agneta Ney er mikill Íslandsvinur og var um hríð tíður gestur hér á landi. Um daginn kom út ný bók eftir hana um vináttu kvenna í forníslenskum textum (einkum eddukvæðum og Íslendingasögum) sem þótt merkilegt megi virðast var nokkurn veginn óplægður akur í norrænum fræðum. Agneta er sagnfræðimenntuð og í bókinni má finna góða umræðu um heimildagildi þessara texta en mestur fengur er í dæmunum um vináttu kvenna, ekki síst þar sem Ney skoðar konur af ýmum samfélagsstigum en fornsögurnar eru einstaklega áhugaverðar heimildir um fjölbreytta hópa á miðöldum.

Annað gagn að bókinni er vönduð umræða um félagslegt rými og þá er rækileg umfjöllun um ættarbönd (og fóstur) út frá sjónarhorni kvenna. Eins og margir fyrri rannsakendur (t.d. Jenny Jochens) gerir Agneta greinarmun á kvenmyndum og því sem gæti verið raunveruleg staða kvenna. Áherslan hefur þó hingað til öll verið á konur sem einstaklinga og tengsl við karlmenn en nánast ekkert hefur verið fjallað um vinskap kvenna fyrir utan grein eftir Natalie Van Deusen sem Agneta Ney gerir góða grein fyrir. Þetta er því bók sem eðlilega mun vekja mikla athygli allra sem rannsaka vináttu og stöðu kvenna á miðöldum.

Previous
Previous

Karlar, konur og keðjusagir

Next
Next

Morðingi kerfisins