Morðingi kerfisins

Ég nenni ekki alltaf að horfa á gamlar myndir sem ég hef séð oft áður en þegar DR sýndi Nikita eftir Luc Besson í júní fann ég að nú var kominn tími til að sjá hana aftur. Ég hlýt að hafa séð hana í bíó upphaflega því að frá 1987 til 1995 var ég alltaf í bíó, annað en núna. Er viss um að pabba fannst hún góð en auðvitað er flétta myndarinnar mjög skrítin. Stúlka sem er smáglæpamaður er dæmd í fangelsi en svo tekin af lífi (!) og sögð látin en í raun hefur hún öðlast nýtt líf hjá ónefndri ríkisstofnun og er þjálfuð til að verða launmorðingi af dularfullum manni sem er kallaður Bob. Einkennileg flétta en taktur myndarinnar gerir að verkum að maður kyngir þessu og hefur einkennilega mikla samúð bæði með glæpakvendinu og Bob. Þar hjálpar til hversu góðir leikarar Anne Parillaud og Tchéky Karyo eru.

Þegar Nikita er að lokum hleypt út nær hún að mynda nýtt líf með aðstoð afgreiðslumanns sem hún hittir fyrir tilviljun í stórmarkað og hann nær að koma með hjartað í myndina, er venjulegur náungi en samt svolítið frábær — eins og raunar föðurímynd hennar Bob er líka — og síðar kemur í ljós að hann skilur mun fleira en hún heldur. Hinn gæðalegi Jean-Hugues Anglade sem var í öllum frönskum myndum á unglingsárum mínum fer vel með þetta hlutverk. Leigumorðin sem Nikita er látin fremja eru líka ótrúlega áhættusöm og flókin sem heldur spennunni vel við (þó að maður skilji ekki alveg hvers vegna) og ekki batnar það þegar eitt verkefnið fer úrskeiðis og það þarf að sækja í „hreinsarann“ Viktor en hans hugmynd um þrif er að drepa alla.

Hin dauða hönd kerfisins og lífvænlegri áhrif Marcos togast á um söguhetjuna og að lokum velur hún hvorugt. Það merkilega er að franska kerfið er merkilega fullt af sjarma og harðneskjulegri mennsku sem kemur vel fram í persónunni sem Jeanne Moreau, þokkagyðjan sem aldrei brosti, leikur. Í myndinni er endurmenntun sannarlega engin kjörbúð, markmiðið er að brjóta niður persónuleikann og skapa nýjan á grunni hins eins og Kínverjar ku hafa reynt á dögum Maós. Tókst þeim það eða var það kannski Nikita sjálf sem endurskapaði sjálfa sig með aðstoð Marcos?

PS: Ég hef geymt þennan pistil af því að mér finnst hann ekkert sérstakur hjá mér en tímdi þó aldrei að henda honum; þetta er nú einu sinni vefsíða og ég að skrifa margt annað þessa dagana.

Previous
Previous

Vinátta kvenna í fornum textum

Next
Next

Langlífi hafnað