Langlífi hafnað

„Sæmundur þótti göfgastur maður á Íslandi þenna tíma. Hann hafði í Odda rausnarbú mikið en átti mörg bú önnur. Eigi var Sæmundur eiginkvæntur og fóru orð milli þeirra Haralds jarls Maddaðarsonar að mundi gifta honum Langlíf dóttur sína. Og var það milli að Sæmundur vildi eigi sækja brúðkaup í Orkneyjar en jarlinn vildi eigi senda hana út hingað.“ Fræg er sagan um manninn sem var svo hégómlegur að hann sendi langa skýrslu um ævi sína í ritið Hver er maðurinn? og var þar að finna setninguna: „Boðið á fiskmarkað í Grimsby, fór hvergi“ (sjálfsagt er hún til í ýmsum gerðum). En sá ónefndi maður á ekki íslenska hrokametið því að Sæmundur Jónsson í Odda neitaði að fara til Orkneyja til að giftast dóttur jarlsins og það þótt hún héti nafni sem gaf skýrt til kynna að hjónabandið yrði langvarandi.

En hver var þessi Langlíf sem hinn óeiginkvænti Sæmundur hafnaði og hvers vegna hefur nafnið ekki komist í tísku á Íslandi? Því miður er næstum ekkert vitað um hana þó að faðir hennar hafi verið jarl í Orkneyjum í hartnær 70 ár og talist einn merkustu jarla Orkneyinga á miðöldum, t.d. ekki hverjum hún giftist að lokum. Samkvæmt Orkneyinga sögu hét móðir hennar Hvarflöð en systur hennar Herborg og Gunnhildur.

Ekki er vitað hvers vegna Sæmundur Í Odda var svo góður með sig að vilja ekki mægjast jarlinum nema brúðkaupið færi fram á Íslandi. Kannski skipti máli að samband jarls við Noregskonungs var ekki gott og Sæmundur hefði sem tengdasonur dregist inn í þá deilu. Kannski vildi hann ekki giftast. Þó að hann væri eini skilgetni sonur Jóns Loftssonar í Odda eignaðist hann enginn skilgetin börn. Í september heyrði ég Auði G. Magnúsdóttur sagnfræðing flytja erindi um Sæmund í Odda á Oddastefnu og bind miklar vonir við að rannsóknir hennar varpi frekara ljósi á Sæmund.

Að lokum má þess geta að örnefnið Livingry á Bretlandseyjum hefur verið tengt nafni Langlífar en bandaríski arkítektinn og fútúristinn Buckminster Fuller tók það síðar til handargagns til að lýsa hugmyndafræði sinni um arkítektúr.

Previous
Previous

Morðingi kerfisins

Next
Next

Hrærðir lesendur og tilbúnar hörmungar