Hrærðir lesendur og tilbúnar hörmungar

Ég man hve snortinn ég var 12-13 ára af bókinni Ég lifi eftir Martin Gray (1922-2016) sem er ein átakanlegasta lýsing á helför nasista í Austur-Evrópu sem finna má á íslensku. Raunar uppgötvaði ég síðar að bókin heitir alls ekki það sama á frummálinu heldur vísar til ófáu ættingjanna sem Martin hefur misst, Au nom de tous les miens (1972). Auk heldur er bókin ekki skrifuð af Martin heldur hinum mikilvirka franska sagnfræðingi Max Gallo (1932–2017) og Martin heitir raunar alls ekki Martin Gray upphaflega heldur Mieczysław Grajewski. Ekkert af þessu skiptir þó neinu höfuðmáli en öllu verra er að Gitta Sereny (1921–2012) skrifaði grein um bókina og benti á að lykilkafli hennar, dvöl Martins í Treblinka-fangabúðunum, væri hreinn uppspuni. Hún sagðist hafa borið þetta á Max Gallo sem yppti bara öxlum og sagðist hafa vantað kafla um Treblinka sem hann hafði samið eftir alls konar ritheimildum og væri því mjög raunsæisleg lýsing á fangabúðunum þó að Martin hefði aldrei verið þar.

Samkvæmt Gallo gerði bókin því sitt gagn þar sem ungmenni eins og ég urðu talsverðu nær, m.a. um lífið í Treblinka, og því miður er það dagsatt að Gray missti síðar konu sína og börn í skógareldum árið 1970 eftir að hafa áður misst ættingja sína í helförinni. Í stórum dráttum er saga Grays eins og hún er í bókinni því sönn þrátt fyrir ósannindin. Gray er sannarlega gyðingur sem lifði af helförina og þegar Sereny ræddi við hann um lygarnar í bókinni spurði hann á móti „Skiptir það öllu máli?“ Það fannst Sereny raunar enda var hún líka manneskjan sem skrifaði sögu Alberts Speer, mannsins sem slapp lífs úr Nürnberg-réttarhöldunum með því að leika iðrun betur en aðrir og líta ekki út eins og dólgarnir sem voru með honum á sakamannabekknum. Sereny varð hins vegar vör við að flestir gyðingar voru ótilbúnir að líta á Gray sem lygalaup. Hann var áfram í hávegum hafður í þeirra hópi.

Hvernig er þetta með aðrar hjartnæmar ævisögur sem hafa hrært við fólki nýlega? Yeonmi Park frá Norður-Kóreu hefur verið gagnrýnd á svipuðum forsendum og Gray og langa lista er hægt að finna á netinu um ósannindi hennar en eru þeir sem benda á þau þá að verja Kim Jong-Un? Var Sereny að verja Hitler með því að afhjúpa Martin Gray? Auðvitað ekki. Treblinka var auðvitað til þrátt fyrir lygar Grays og lífið í Norður-Kóreu enginn dans á rósum burtséð frá lygum Yeonmi Park. Það sem lesandinn þarf hins vegar að átta sig á að ævisaga getur verið afar varasöm heimild og þá breytir engu þótt um margverðlaunaða metsölubók sé að ræða. Þær eru jafnvel líklegri en aðrar til að vera ekki sannar og gott er fyrir hrifnæma lesendur að átta sig á því.

Previous
Previous

Langlífi hafnað

Next
Next

Þulur og þjóðlagabít