Þulur og þjóðlagabít

Upp úr 1990 nældi ég mér í Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur sem Ólafur Davíðsson og Jón Árnason söfnuðu, gott ef ég bað ekki um hana í jólagjöf, svo harður var ég í mínu nýja fagi íslensku. Þetta var tveggja binda endurprentun bókanna fjögurra sem ég las spjaldanna á milli og hefur oft verið innblástur minn síðan. Stöku kvæði þekkti ég áður, m.a. Fúsintesþulu sem Savanna-tríóið hafði flutt og oft mátti heyra í útvarpinu. Savanna-tríóið var hálfgerður brandari þá eins og allar þjóðlagahljómsveitirnar enda diskóöld hafin þegar ég man fyrst eftir popptónlist og síðan komu pönkið og nýrómantíkin og hvergi passaði Savanna-tríóið inn. Núna löngu síðar er ég fullur aðdáunar á því hvernig þetta viðkunnanlega tríó nýtti sér alheimsþjóðlagapoppbylgjuna til að miðla íslenskum þjóðlögum til nýrra kynslóða.

Það átti meðal annars við um Fúsintesþulu sem er í 4. bindi hjá Ólafi Davíðssyni með lesbrigðum þar sem m.a. kemur fram að kvæðið er stundum kallað Fontinteskvæði og Fúsintes er stundum kallaður Pontintes líka, kóngurinn Kes er stundum kallað Kónginkes og er ýmist Safalakóngur, Skarkalakóngur, Skafalakóngur, Skagalakóngur, Skaglakóngur og Skálakóngur. Drottningin heitir Flagikes eða Magnhildes en mig minnir að Savanna-tróið hafi notað Makintes. Allar persónurnar í kvæðinu heita dularfulla nafni sem endar á -es, þetta er væntanlega helsta dæmi um svínalatínu í íslenskum bókmenntum áður en Múmínálfabækurnar voru þýddar á íslensku og bernskir lesendur 8. áratugar síðustu aldar kynntust Þöngli og Þrasa. Ég veit ekki hver boðskapur kvæðisins ætti að vera, líklega eru það einmitt þessi undarlegu svínalatínunöfn.

Útgefandinn Ólafur Davíðsson (1862–1903) var einn fremsti náttúrufræðingur og þjóðsagnasafnari síns tíma en drukknaði langt fyrir aldur fram í Hörgá. Finnur Sigmundsson landsbókavörður gaf út dagbækur hans og sendibréf undir heitinu Ég læt allt fjúka (1955) en heitið er ekkert sérstaklega viðeigandi þar sem hann ritskoðaði burt alla kaflana þar sem Ólafur kallar frænda minn Geir Sæmundsson „kærustuna sína“. Rithöfundurinn Þorsteinn Antonsson vakti löngu síðar (1990) athygli á þessum ritskoðuðu köflum og seinna hafa þeir orðið ýmsum fræðimönnum umfjöllunarefni vegna þess hversu opinskár Ólafur er um ást sína á frænda mínum sem þá var aðeins 14 ára og fimm árum yngri en Ólafur (og samkvæmt Ólafi hegðaði frændi minn sér stundum eins og mesta drusla sem ég geri engar athugasemdir við); síðar varð Geir frændi prestur og vígslubiskup sem sýnir líklega að við eigum okkur öll bæði virðulegar og kaotískar hliðar.

Previous
Previous

Hrærðir lesendur og tilbúnar hörmungar

Next
Next

Embætti og þingnefndir