Embætti og þingnefndir
Ég hafði oft heyrt um kvikmyndina Advise & Consent (1962), leikstýrt af Otto Preminger eftir skáldsögu Allen Drury sem hafði fengið Pulitzer-verðlaunin fyrir nákvæma lýsingu sína af tilnefningarferlinu á bandaríska þinginu nokkrum árum fyrr. Drury varð samt aldrei frægur rithöfundur enda var hann afar hlédrægur og hafði kannski ástæðu til. Mörgum fannst sagan og sérstaklega myndin draga upp of neikvæða mynd af refskák stjórnmálalífsins en hún hefur höfðað til margra kvikmyndafríka síðan. Í aðalhlutverkum eru kempur eins og Henry Fonda, Charles Laughton, Walter Pidgeon, Franchot Tone, Lew Ayres, Gene Tierney, Don Murray, George Grizzard og Peter Lawford. Þetta er hópsaga; enginn einn er á sviðinu allan tímann þó að sagan hnitist einkum um Leffingwell (leikinn af Henry Fonda) sem er tilnefndur til embættis utanríkisráðherra og hinn unga Brig Anderson sem er falið að stýra nefndafundunum (hann er leikinn af Don Murray sem enn lifir) en báðir reynast geyma lík í lestinni.
Sérstaklega ánægjulegt er að fylgjast með Charles Laughton í hlutverki demónsks öldungardeildarþingmanns frá Suður-Karolínu (eins og hinn litríki Strom Thurmond) sem gengur iðulega um í hvítum fötum og hneigist til að hegða sér eins og Loki í Lokasennu eða Flárus Fjandíbus í Ástríki. Sérgrein Laughtons (sem var kominn með krabbamein og lést nokkrum mánuðum eftir frumsýningu myndarinnar) er varaþykkur fyrirlitningarsvipur sem hann setur stundum upp, hlaðinn kaldri gremju. Hann og aðrir reyna að stimpla Leffingwell sem linan gegn kommúnismanum og það verður vatn á myllu þeirra þegar vitni sem hefur harma að hefna kemur fram og kallar Leffingwell kommúnista. Þá ákveður einn helsti friðarsinninn og stuðningsmaður hans að ráðast gegn hinum unga nefndarformanni Anderson með því að grafa upp gamalt samband hans við annan mann í hernum í Hawaii og nota það gegn honum. Anderson fremur sjálfsmorð eftir þetta enda voru það á þeim tíma einu eðlilegu örlög öfugugga en þó má geta þess að Anderson er þrátt fyrir þetta maður sem við eigum að halda með (kannski var höfundurinn Drury sjálfur í svipaðri stöðu) og Preminger þótti sýna mikið hugrekki með því að sýna hommabar í meginstraumsmynd.
Góð endalok eru ekki möguleg í þessu hrossakaupasamfélagi sem Leffingwell skýrir fyrir syni sínum í upphafi myndarinnar. Þessi gáfaði en kaldi maður er greinilega að einhverju leyti byggður á Adlai Stevenson sem var tvisvar í forsetaframboði og var iðulega kallaður „egghead“ vegna þess að hann þótti tala svo gáfulega. Leffingwell er mælskur og hrokafullur og skilur leikinn vel. Samt vill hann á tímapunkti draga sig til baka þó að hann hafi verið borginmannlegur í fyrstu og náð sniðuglega að afhjúpa vitni andstæðinga sinna sem ótraust. Ástæðan er að Leffingwell er raunar líkt og Anderson sekur um það sem hann er sakaður um. Forsetinn vill þó ekki annan ráðherra vegna þess að hann er sjálfur við dauðans dyr og treystir ekki varaforsetanum (sem er frá Delaware eins og Biden) til að reka skynsamlega utanríkisstefnu án Leffingwells. Þess vegna fær hann Leffingwell til að berjast áfram enn um sinn en örlögin grípa í taumana og embættið er hrifsað úr höndum Leffingwells að lokum.
Nokkrir gamlir öldungadeildarmenn birtast í myndinni í smáum hlutverkum. Einn þeirra virðist sofa á flestöllum fundum en þá sjaldan að hann vaknar gellur hann við: „Andvígur, andvígur“. Preminger bauð auk heldur Martin Luther King að leika einn af þingmönnunum en á þeim tíma var raunar enginn afrískættaður í öldungadeildinni. King sagði nei en Preminger notaði leikara sem höfðu lent á svörtum lista á McCarthy-tímanum og sjálf Betty White birtist í einu atriði sem öldungadeildarþingmaður frá Kansas; hæðst er að henni fyrir að vera kona í þessum karlaheimi.