Í hvað grét Guðrún?

Guðrúnarkviða hin fyrsta er ein af þremur Guðrúnarkviðum í Konungsbók eddukvæða og ekki sú elsta (það er Guðrúnarkviða önnur) en allar þessar kviður teljast vera tregróf eða harmljóð (elegíur) þar sem Guðrún grætur eiginmann sinn Sigurð Fáfnisbana og eigin örlög en annars eru kviðurnar býsna ólíkar. Guðrúnarkviða I hefur ekki þótt sérdeilis torskilin og ég er kominn með grófa þýðingu á henni með tiltölulega fáum vafaatriðum en þar eru þó stakyrði, t.d. í 14. erindi þar sem sagt er að Guðrún Gjúkadóttir gráti „sva at tár flvgo / treſc igognom“ og mun þetta vera eina dæmið í íslensku um orðið tresk.

Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir orðið í Íslenskri orðsifjabók og telur að það hljóti að merkja eins konar klæði en er ekki hrifinn af neinum skýringum sem aðrir fræðimenn hafa aðhyllst en finnur ekki heldur nein óyggjandi dæmi um klæði í nágrannamálum sem gætu tengst orðinu. Þar sem orðið er stakyrði er þó ekki útilokað að það sé hreinlega alls ekki til heldur hugsanlega misskilningur, e.t.v. á styttingu. Kannski grét Guðrún í gegnum eins konar tré en klæði virðist samt líklegra, þá e.t.v. rifið klæði eins og Carol J. Clover ræddi í hinni kunnu grein „Hildigunnr’s Lament“ (1986) en slík rifin klæði gátu átt heima í helgisiðum tengdum dauða og sorg.

Þetta er auðvitað afar hömlulaus grátur sem er til marks um hversu ólík Guðrún sé öðrum konum og hversu stórkostleg sorg hennar var. Síðar gengur hún að eiga tvo aðra konunga og fremur hræðilega glæpi sem hafa þótt minna á hina grísku Medeu, drepur fyrst syni sína og eldar en sendir svo annan sonahóp í dauðann. Þetta var áberandi kvenmynd miðalda en kannski fyrst og fremst tignuð af körlum, um þetta hafa Jenny Jochens og fleiri skrifað. Á 19. öld féll hún hins vegar í skugga Brynhildar Buðladóttur sem rómantísku listamennirnir féllu unnvörpum fyrir.

Brynhildur er vitaskuld líka áberandi í 13. aldar goðsögnum líka en það er þó Guðrún sem mesta athygli vekur og þá sem syrgjandi kona en harmljóð og tregróf eru ein mest áberandi undirgrein eddukvæða.

Previous
Previous

Embætti og þingnefndir

Next
Next

Heimurinn skreppur saman