Heimurinn skreppur saman

Í miðaldasögum eru risarnir Gog og Magog allvinsælir en þeir voru stundum sagðir búa í norðri en stundum í austri (ég hef rannsakað íslenskar hliðstæður þeirra hér) og raunar eru frásagnir af þessum goðsagnakenndu verum svo margar og fjölbreyttar að engin leið er að gera grein fyrir þeim hér en iðulega má líkja þeim við eins konar skrímsli, þeir eru ættaðir úr fjarlægu landi, iðulega úr fjarlægri fortíð líka og stundum eru þeir tengdir við risaland. Biblían var innblástur þessara sagna en þar eru raunar ekki tvö skrímsli heldur aðeins Gog og Magog er landið hans. Eins leit Geoffrey frá Monmouth á veruna sem eina og hét Gogmagog.

Hið algenga stef sem birtist í goðsögunni um Gogmagog er að forðum og í fjarska voru mannverur stærri og eldri. Heimurinn hefur skroppið saman sem er þvert á það sem miklahvellshugmyndin gengur út á sem er að heimurinn sé þvert á móti að þenjast út. Allt þetta hefur hvarflað að mér við þýðingu Vafþrúðnismála en þar sækir Óðinn heim hundvísan jötun (forliðurinn hund- tengist stærð og hefur meiri tengsl við orðið hundrað en dýrategundina) til að fræðast bæði um fortíðina og framtíðina, samkvæmt þeirri hugmynd að með því að leita nógu langt í fortíðina sé léttara að sjá framtíðina. Einar Benediktsson sagði víst eitthvað svipað í Aldamótaljóði sínu sem ég vann eitt sinn það afrek að læra utanbókar. Væntanlega er þetta skýringin á því að skólar eru til og þar er eldra fólk fræðandi ungu kynslóðina um hvaðeina. Forsenda kennslu er að líkt og jötnarnir lumi kennarinn á gagnlegri þekkingu.

Ég hef áður skrifað um Vafþrúðnismál og þess vegna líklega fann ég ekki svo marga erfiða staði í kvæðinu. Þetta er hins vegar ljóð mikilla andstæðna þar sem allt lífið er undir eins og manni finnst stundum að eigi að einkenna góðan skáldskap. Í greininni skellti ég því í sæmilega aðlagaða freudíska túlkun vegna þess að ég hafði tekið eftir því hversu orðið „faðir“ kom oft fyrir og notað um báða keppninautana. Freud er stundum hallmælt um of sem manni síns tíma, vitaskuld hefur margt gerst í sálfræði síðan hann skrifaði en innsýn hans og góð menntun í sígildum fræðum og bókmenntum gerir skrif hans þó enn áhugaverð. Það er léttara að bölva kenningasmiðum en setja sjálfur fram kenningu sem höfðar til jafn margra.

Previous
Previous

Í hvað grét Guðrún?

Next
Next

Svik og annarleiki