Svik og annarleiki

Julian Mitchell er fæddur árið 1935 og gekk í breskan einkaskóla fyrir stráka skömmu eftir stríð. Þar máttu umsjónarmenn hýða hvern sem þeir vildu fyrir sannar og ímyndaðar ávirðingar og reiðin sem blundaði í honum síðan fékk útrás í leikritinu Another Country sem gerist í slíkum skóla og þar blandast reynsla Mitchells sjálfs við sögu njósnarans og svikarans Guy Burgess sem í leikritinu birtist í persónunum Bennett og Judd, skóladrengjum sem eru hommi og kommi og passa því ekki í stigveldi skólans þar sem efstir eru „guðirnir“, æðstu umsjónarmennirnir en neðar í virðingarstiganum eru „faggar“ eins og Wharton litli sem virðist eyða öllum sínum frítíma í að þrífa fyrir eldri drengina. Reglulega klæðast eldri nemendur hermannabúningum til að æfa sig fyrir framtíðarhlutverk sitt sem vörslumenn heimsveldisins. Leikritið hef ég ekki séð á sviði en það var kvikmyndað árið 1984 og er sú mynd í fullri lengd á Youtube. Þá léku framtíðarstjörnurnar Colin Firth og Rupert Everett undanvillingana Judd og Bennett en Wharton var leikinn af Adrian Ross Magenty sem síðar hætti að leika en sést hér að neðan við þrifin. Meðal annarra leikara í leikritinu og myndinni var Piers Flint-Shipman sem var látinn í slysi áður en myndin var frumsýnd. Kenneth Branagh og Daniel Day-Lewis eru ekki í myndinni en spreyttu sig í leikritinu á sviðinu.

Bæði leikritið og myndin slógu í gegn og mörkuðu tímamót því að fyrir 40 árum var alls ekki sjálfsagt að söguhetjur kvikmynda væru slíkir undanvillingar. Eitt umfjöllunarefni myndarinnar er ástarævintýri Bennetts og Harcourts sem er leikinn af Cary Elwes, áður en hann festist í að vera myndarlegi skúrkurinn. Cary er svo bláeygur, varaþykkur og rjóður í þessari mynd að það er ekki erfitt að skilja að Rupert þrái hann skáldlega úr fjarska þó að öðru hverju manni hann sig upp í að bjóða honum á afar skrautlegt tehús eða í gönguferðir í tungsljósinu. Bennett hefur aldrei lært að fara leynt og þó að hann langi til að verða einn af „guðunum“ á hann engan möguleika því að allir vita að hann er upp á karlhöndina (meðal annars vegna þess að umsjónarmennirnir sem þykjast vera af öðru sauðahúsi hafa sjálfir fært sér það í nyt). Vandamál Judds er af öðru tagi. Þar sem hann er sannfærður kommúnisti fyrirlítur hann stigveldi skólans en nú er komið að honum að bjóða sig fram sem umsjónarmaður. Það kemur í hlut Bennetts að reyna að sannfæra hann um að púkka upp á úldið kerfið til að koma í veg fyrir aukin völd versta fasistans sem gengst mjög upp í hermannabúningi sínum en er samt hálfgerður vesalingur.

Að sjálfsögðu sigrar kerfið að lokum, Bennett og Judd eru báðir auðmýktir, annar með því að yfirgefa prinsip sín án þess að neitt komi út úr því (hann situr eftir einmana með Lenínstyttuna sína) en hinn er hýddur fyrir framan fjölda skólafélaga sinna fyrir að hafa reynt að senda Cary rómantískan miða. Það jákvæða við sögulokin er að Bennett nær að sannfæra Judd sem hafði aldrei tekið rómantískar langanir hans alvarlega fram að því um að hlutskipti þeirra er í raun alveg hliðstætt. Eins hafa þeir lært að hið hlálega enska stigveldiskerfi snýst allt um sýndarmennsku og er ekki við bjargandi, þar verður aldrei pláss fyrir sjálfstætt hugsandi menn eins og þá og eina úrræði þeirra er að vera tryggir draumum sínum um annan heim — sem að lokum mun gera þá að landráðamönnum og njósnurum en við kerfi sem ekkert verðskuldar nema svik. Enda segist svikarinn Bennett að lokum einskis sakna úr kerfinu nema hugsanlega krikkets.

Julian Mitchell skrifaði fleiri leikrit og kvikmyndahandrit, m.a. að kunnri kvikmynd um Oscar Wilde með Stephen Fry í aðalhlutverki (og reyndi víst eitt sinn að skrifa söngleik ásamt Ray Davies úr The Kinks). Hann mun eiga nokkrar óútgefnar skáldsögur en er fyrst og fremst þekktur fyrir þetta eina leikrit sem sló í gegn. Hann segist sáttur við það í nýlegum viðtölum. Sem betur fer fékk hann að lifa tímana tvenna og á nú löglegan eiginmann, býr í sveitinni og finnst að byltingin sem hann þráði hafi þegar átt sér stað.

Previous
Previous

Heimurinn skreppur saman

Next
Next

Natalie Zemon Davis