Natalie Zemon Davis
Sennilega er það til marks um hversu einbeittur ég var að verða fræðimaður upp úr tvítugu að ég eignaðist ýmsar hetjur í hópi fræðimanna seinustu áratuga, þar á meðal suma sem margir stúdentar könnuðust við en einnig nokkra sem fyrst og fremst ég þekkti og ein þeirra var sagnfræðingurinn Natalie Zemon Davis sem lést núna í október, á 95. aldursári. Hennar sérgrein voru fyrstu áratugir nýaldar en rannsóknir hennar höfðu einnig áhrif á miðaldasögu og einsögu sem á 10. áratugnum var ein helsta nýjungin í sagnfræðinni. Auk þess hafði ég séð kvikmyndina Martin Guerre snýr aftur en Davis var ráðgjafi við gerð hennar og að lokum handritshöfundur en skrifaði í kjölfarið fræðibókina sem gerði hana fræga.
Á sínum tíma leiddu sagnfræðingar nokkuð hjá sér menningarsögu og félagssögu og Davis var meðal brautryðjenda að koma þessum „mjúku málum“ á dagskrá en hún hafði einnig áhuga á mannfræði og sagnalist og ýmsu af því sem gerir hugvísindi ólík öðrum vísindum. Sérstaklega áhugasöm var hún um sögu hinna kúguðu og jaðarsettu löngu áður en það komst í tísku. Engin furða er að Davis hafi síðar orðið ýmsum einsögufræðingum innblástur og einnig hafði hún alls konar aðra póstmóderníska tendensa en sjálf baðst hún undan að láta kenna sig við eina stefnu öðrum fremur.
Þó að Davis væri meðal fyrstu kvenna til að leiða félög sagnfræðinga vestanhafs tók það hana dágóða stund að verða prófessor enda voru hún og maður hennar Chandler (sem andaðist í fyrra í hárri elli) talin vera kommúnistar og frami hennar um 1980 var til marks um breytt ástand í háskólapólitík. Meðal annars þess vegna bjuggu þau lengi áður í Kanada þar sem fordómar voru minni en samt átti að lokum fyrir Davis að liggja að verða prófessor í mörgum frægustu háskólum Bandaríkjanna.