Draugagangur vinsældanna

Sjónvarpsþátturinn Kynfræðsla (Sex Education) var afar ferskur þegar ég sá hann fyrst á Netflix fyrir fjórum árum. Þar sem ég vil ekki hætta að horfa í miðju kafi er ég núna búinn að sjá seinustu átta þættina, alls eru þeir 32. Aftur á móti var þetta skylduræknisáhorf lengst af því að smám saman varð þátturinn að sápufroðu þar sem hjakkað var í sama fari en áfram var áhugavert að fylgjast með vel sköpuðum skemmtilega sérkennilegum persónum lenda í nýjum og nýjum vandamálum sem að einhverju leyti leiddu eðlilega af því hvernig þær voru upphaflega settar upp, en eins og einkennir sápur þarf að spinna þræði endalaust og flétturnar og tilfinningagosin fara að bæta frekar litlu við þó að reynt sé að hressa upp á þættina með nýjum og mishressum persónum. Það gekk ívið betur í 2. syrpu en í þeirri þriðju fór þátturinn að síga enn og í þeirri fjórðu er eiginlega engin ný persóna sem vekur áhuga þó að óþolandi systir og illþolandi áhrifavaldur komist einna næst því. Allar „lausnirnar“ í lokaþættinum eru óþolandi stúderaðar og kórréttar — persónur fara reglulega með ræður sem augljóslega eru sjónarmið höfunda og eru álíka óvæntar og ferskar og ályktanir Stúdentaráðs.

Það sem upphaflega var áhugaverðast við þáttinn var vandi feimna stráksins Otis sem þurfti að burðast með að vera sonur kynlífssérfræðings og þar skipti máli persónusköpun Asa Butterfield og Gillian Anderson í þessum hlutverkum. Smám saman eru þau bæði orðin álíka tilgangslaus og Maggie Smith í seinni syrpum Downton Abbey. Eins var með hörkutólið Maeve sem varð viðskiptafélagi Otis í fyrstu þáttaröðinni, við fáum að sjá æ meira af lífi hennar en það var allt gefið svo vel í skyn frá upphafi að í raun kemur fátt eitt á óvart. Bestu senurnar í fjórðu syrpu tengjast þó Maeve, móðurmissi hennar og nýju lífi og eins sérkennilegu vinkonu hennar Aimee. Eins er með litríka besta vininn Eric sem er alinn upp í heitri trú, þau átök liggja alltaf fyrir og sviðsetning á þeim í fjórðu syrpu verður næstum jafn óþarflega endurtekningarsöm og forleikurinn að Stjörnustríði uns þátturinn fjarar út, lokaþátturinn hálftíma lengri en hinir með þeim afleiðingum að manni fer að líða eins og maður sé Bruce Willis í The Sixth Sense og sé hugsanlega löngu dauður.

Kannski sannar Kynlífsfræðslan fyrir mér þá visku ýmissa eldri breskra gamanleikjahöfunda að hætta hverjum leik þegar hæst stendur – það voru engar leiðinlegar syrpur af Já, ráðherra. Fjórða syrpan af Kynlífsfræðslunni er ekki illa gerð en hnignun þáttarins þó stöðug og aldrei meira en nú, lokaþættina skortir tilfinnanlega hinn upphaflega ferskleika og kannski var dirfskan sem þurfti til að taka hann á algerlega nýjar brautir ekki fyrir hendi. Þátturinn er ekki illa gerður tæknilega þannig að freistandi er að horfa á allt heila klabbið á 2-3 dögum en ég geri fastlega ráð fyrir að ef ég horfi aftur muni ég láta fyrstu syrpuna nægja.

Boðskapurinn með þessum heldur neikvæðu eftirmælum um draugaganginn er að það er hálfgerð bölvun góðrar sögu að lifa sjálfa sig vegna vinsælda og markaðsmenningar. Þannig dagar ferskasta þátt ársins 2019 uppi í lokin þrátt fyrir að allir reyni sitt besta og ég kenni markaðnum um.

Previous
Previous

Natalie Zemon Davis

Next
Next

Guðir, hetjur, hrafnar og hross