Guðir, hetjur, hrafnar og hross

Ég hef núna séð helming Niflungahringsins í fyrsta sinn – hafði áður séð búta og hlustað á hann allan en aldrei séð – í uppfærslu frá Budapest í vor sem er fjarska áhugaverð, aðaláherslan er þar á módernískan mínimalisma sem er ekki fagurfræði Wagners en dregur samt fram kjarnann í verkinu á áhrifamikinn hátt. Ég er farinn að sjá eftir að hafa áður notað orðið óperu um þessi verk þar sem Wagner notaði sjálfur orðin Musikdrama og Gesammtkunstwerk. Það leynir sér ekki við hlustunina hversu mikil áhrifin frá Wagner eru á kvikmyndatónlist, í verkinu er fátt um hefðbundnar aríur en þeim mun meira um endurtekin stef eins og í nútímalegri kvikmyndatónlist. Annað sem gleður er dálæti Wagners á stuðlasetningu en þar kann hann sér ekkert hóf. Hóf í sjálfum texta verksins myndi aftur á móti ekki gera tónlistarleikverkum Wagners neinn greiða þó að hóf í sviðsetningu geti komið vel út eins og Ungverjar hafa sýnt fram á með þessari nýju uppsetningu.

Meðal þeirra sem eru á sviðinu eru dansarar með grímur sem þeir halda iðulega framan við andlitið, svolítið eins og börn að leik, einkennilega frumstætt en hefur samt furðulega mögnuð áhrif. Í fyrsta þætti Valkyrjunnar (Die Walküre) sem ég sá núna í október eru úlfar (eða hundar) áberandi, í öðrum þætti hrafnar og að lokum hestar. Aðeins sex aðalsöngvarar eru annars í verkinu sem eins og allir vita er á talsverðri hægferð jafnvel miðað við hefðbundnar óperur. Hlutverkin eru Óðinn (Wotan), Frigg (Fricka), Brynhildur (Brunhilde), Sigmundur (Siegmund), Signý (Sieglinde) og Hundingur (Hunding) en aðeins Sieglinde syngur í öllum þremur þáttum. Tiltölulega lágstemmdar samræður setja svip á sönginn milli þess sem kennsl verða og söngvarar bresta í hærri tóna og syngja þá um „Völsungablóð“.

Wagner hefur ekkert dálæti á lágkúru og kallar t.d. hesta oftast „roß“ (sbr. hross) sem ég er að hugsa um að taka upp í mína þýsku. Annars hef ég tekið eftir við áhorfið að líkt og í Álfheimabókum mínum eru frumefnin áberandi bæði öll saman og eitt sem mest ber á (vatn, loft, jörð og eldur) og það þarf svo sem ekki að koma á óvart því að rætur bókanna liggja í 19. aldar rómantík og Wagner var eitt sérstæðasta og frumlegasta afsprengi hennar. Þar fyrir utan var hann einn besti goðsagnatúlkandi sinna tíma. Myndmál hans naut sem kunnugt er mikilla vinsælda hjá helstu morðvörgum 20. aldar en kannski er það hálfgerður ruglandi eða jafnvel andleg leti að eigna hugmyndum eða myndmáli gjörðir illmenna sem oftast eru hversdagslegt fólk með fremur almennar hugmyndir.

Aðalstefið í Valkyrjunni eru sjálfstæð hugsun og svik Brynhildar sem í þessari uppfærslu minnir talsvert á Angelu Merkel, ímynd hins skynsama miðjumanns (Catherine Foster syngur). Valkyrjan er föst milli lógíkur guða og manna og er það engin smávægileg úlfakreppa. Þekktasta stefið úr verkinu og kannski öllum hringnum er einmitt valkyrjureiðin sem Francis Ford Coppola nýtti vel til að afhjúpa guðakomplex bandaríska heimsveldisins í sinni eigin mynd um ragnarök þar sem hann m.a. sameinaði Wagner, Joseph Conrad og nýliðnar blóðfórnir ameríska guðsins. En í Budapestuppfærslunni er líka sterk áhersla á ófrelsi guðsins Wotan sem getur ekki látið eigin tilfinningar ráða enda aðeins einn guð af mörgum. Þetta túlkar söngvarinn danski Johan Reuter vel, tign hans er ekkk augljós í fyrstu en sprettur fram í söngnum. Líkt og hjá Snorra Sturlusyni er guðinn furðu mennskur enda stundum lítill munur á guði og manni í goðsögu.

Previous
Previous

Draugagangur vinsældanna

Next
Next

Skotmenn og hermenn