Skotmenn og hermenn

Á 24 árum hef ég séð og heyrt mikið bandarískt efni um hið alræmda fjöldamorð í Columbine-menntaskólanum (m.a. þessa ágætu en einföldu þáttaröð í átta (!) hlutum sem greinilega er gerð af miklum áhuga) sem markar upphaf morða- og ofbeldishrinu sem enn stendur (sbr. Scream-morðingjana sem ég fjallaði um nýlega). Bæði Michael Moore og Gus Van Sant gerðu eftirminnilegar kvikmyndir um þennan viðburð og hann kemur einnig fyrir í ágætri skáldsögu Wally Lamb, The Hour I First Believed (sem hefst á lýsingu á Eric Harris). Hinn upphaflegi fréttaflutningur af málinu bjó til ýmsan misskilning sem hefur reynst erfitt að kveða niður; það þarf engum að oma á óvart sem las grein mína um fréttir í vor. Þó að fréttir geri sitt gagn (einkum við að afla myndefnis) eru þær yfirleitt ekki góð leið til að skilja heiminn eða einu sinni einföldustu atburði, jafnvel þótt víða erlendis séu til marktækir fréttamiðlar. Ýmsar bækur hafa líka verið skrifaðar um fjöldamorðið síðan og varpa betra ljósi á það, t.d. að þeir Eric Harris og Dylan Klebold hugsuðu árásina sem hryðjuverk með sprengjum fremur en „skólaárás“ með skotvopnum. Auk heldur að hin þrælvopnaða bandaríska lögregla nýtir ekki vopn sín til að bjarga fólki (öfugt við í spennuþáttum skjóta ungmennin sjaldan löggur). Hún kom seint á staðinn og hékk fyrir utan skólann lengi eftir að árásarmennirnir voru dauðir — mér skilst að síðan hafi ferlum verið breytt þannig að morðingjarnir hafa ívið minni tíma til að skjóta fólk. A.m.k. eitt fórnarlambið dó vegna þess hve hægt opinberir aðilar fóru sér. Núna sést skýr hneigð í Bandaríkjunum að ræða fórnarlömbin fremur en morðingjana sem er skynsamlegt í ljósi þess að margir þeirra eru einmitt í frægðarleit en vandinn við það er auðvitað að fórnarlömb tilviljanakenndra glæpa eru venjulegt fólk sem fátt er um að segja. Saga þeirra eftir árásina getur þó varpað mikilvægu ljósi á tráma og áfallaviðbrögð eins og margar áhugaverðar myndir á youtube sýna.

Öðru máli gegnir auðvitað um fólk sem fremur hroðaleg verk, þó að það sé sannarlega ekki hetjur er óvenjulegt háttalag þeirra áhugavert á sinn hátt og ekki vantar hlaðvörp sem reyna að kafa djúpt ofan í gerðir þeirra, ekki síst strákanna sem frömdu Columbine-morðin og skildu eftir sig gögn sem veita innsýn í hugarfar þeirra. Augljóslega þarfnast samfélagið þess að þeir séu alls ekki ofurvenjulegir því að hvað segði það um samfélagið sjálft? Annar þeirra, Dylan Klebold, var greinilega þunglyndissjúklingur sem dreymdi um sjálfsmorð eins og marga aðra skólaskotmenn og komist hefur í tísku að telja hann viljalausan fylgjanda Eric Harris ræddi hatur sitt á samfélaginu og öllu og öllum mikið á netinu (m.a. hataði hann kántrýtónlist sem er varla hægt að nota gegn neinum) enda er hann oft kallaður sýkópati í umfjöllun um málið — allir muna að hann sagði „Peek-a-boo“ við stelpu sem faldi sig undir bókasafnsborði áður en hann skaut hana en nefbrotnaði raunar í leiðinni af því að hann kunni ekki nógu vel á skotvopn. Hugtakið er ofnotað og fæstir sýkópatar eru morðingjar, hvað þá fjöldamorðingjar. Draumóramaður var hann Eric líka en það orð sjaldan notað því að það þykir of fagurt fyrir slík afstyrmi. Hins vegar virðast margir sem fjalla um málið eiga erfitt með að skýra hvernig almennt hatur á fólki leiðir til morða því að fjölda manns er illa við annað fólk (og kann betur viö hundinn sinn eða hvali) án þess að drepa neinn eða beita ofbeldi. Eitt eru gremja og hatur en annað er morðárás. Eins fremur fæst fólk sem virðist hata náungann og samfélag sitt morð heldur lætur samfélagsmiðla og athugasemdakerfið nægja. Mikill áhugi á morðum er ekki heldur sjaldgæfur; raunar er fremur kátlegt þegar fólk sem heldur úti hlaðvarpi um morðingja ræðir morðþráhyggju skotmanna eins og það eigi engan spegil. Stundum finnst manni að allar niðurstöður t.d. um Harris og Klebold lýsi þeim sem talar meira en morðingjunum. Það hvarflar þannig að manni að fólk langi til að sýkna hinn þunglynda Klebold af því að því líkar vel við móður hans sem hefur gerst opinber persóna og virðist góð og sjarmerandi kona. Heilbrigð skynsemi bókmenntafræðingsins kennir honum aftur á móti að nálgast gögn með varúð því að textar geta verið villandi, sérstaklega ef þeir eru eru skrifaðir af kláru fólki að reyna að sviðsetja sig.

Það sem iðulega er tiplað á tánum í kringum er að Harris er alls ekki eini reiði tjáningurinn í heiminum og eins var hinn þrælvopnaði Adam Lanza sem drap 20 sex ára krakka í Sandy Hook skólanum 13 árum síðar fyrst og fremst alvarlega veikur maður upp alinn í húsi fullu af byssum. Krakkar sem drepa eru iðulega furðu líkir öðrum krökkum að sjá þó að til siðs sé að kalla þá „skrímsli“ í umfjöllun á netinu. Bæði Harris og Lanza voru aldir upp í samfélagi þar sem ungir menn tjá sig með byssum og aldrei meira en síðasta aldarfjórðung. Uppeldi þar sem vopn eru talin lausn vandamála er sem betur fer ennþá sjaldgæfara hér á landi. Eric Harris var úr hermannafjölskyldu og dreymdi um að verða hermaður. Umsókn hans um inngöngu í herinn var hafnað fimm dögum fyrir fjöldamorðin (m.a. vegna þess að hann var kominn á sertralín) og Harris hafði takmarkaðan áhuga á annarri framtíð. Hann var einnig sjúkur í hernaðarleiki sem raunar er svo algengt hjá táningsdrengjum að það hefur takmarkað skýringargildi. Gjörðir hans að lokum eru í mjög skýru samhengi við allt þetta en um það er lítið rætt vegna þess að í Bandaríkjunum virðist harðbannað að tengja vel skipulögð morð og dráp bandaríska hersins algóða við illa skipulögð morð og dráp naumvitra ungmenna. Herinn og skólamorðingjar eru andstæður fyrir bandaríska fréttamenn og hlaðvarpara. Fyrir aðra er nokkuð augljóst að uppeldi Eric Harris í hernum hafði ekki aðeins þau áhrif að hann þyrfti að flytja oft heldur er var það líka draumur hans um starf í lífinu. Að lokum drap hann krakka í eigin heimabæ meðal annars vegna þess að hann fékk ekki að drepa í öðrum heimsálfum. Hann var þar að auki hægrisinnaður rasisti sem dáðist að fv. hermanninum og hryðjuverkamanninum McVeigh en aðallega elskaði hann vopn og hernað. Þar að auki var hann á endanum klaufi sem klúðraði árásinni eins og þeir allir því að vopnasafn hins dæmigerða skólaskotmanns gæti oftast valdið mun meiri skaða ef þessir reiðu ungu menn kynnu til verka. En blindan gagnvart hinu sanna eðli hersins veldur því að ofbeldi Harris má aldrei tengja við ofbeldið sem herir snúast um, jafnvel þó að tengslin séu augljós, hann var beinlínis klæddur upp sem hermaðurinn sem hann langaði til að vera þegar hann dó (með því að skjóta sig fagmannlega í munninn, Klebold var ekki jafn öruggur og dó því hægar).

Auðvitað er ég ekki að segja að löngun Eric Harris til að verða hermaður (sem hefði þá síðar tekið þátt í innrásinni í Afganistan og Írak og kannski fleirum því að af nógu er að taka) sé eina skýringin á Columbine-morðunum (foreldrar Klebolds voru t.d. friðarsinnar) en það vekur athygli hversu mjög hún er hunsuð af nær öllum Bandaríkjamönnum sem fjalla um málið og þó er Harris meðal áhrifamestu mönnum sinnar kynslóðar því að tugir byssudrengja fylgdu í kjölfarið, margir hermenn í eigin huga og klæddir þannig þegar þeir mæta vopnaðir í skólana til að taka sem flesta aðra með sér í óhjákvæmilegu fallinu.

Previous
Previous

Guðir, hetjur, hrafnar og hross

Next
Next

Tröll í heimsókn, eða: mæði Myers