Tröll í heimsókn, eða: mæði Myers

Fyrir nokkru minntist ég á yfirheyrslumyndbönd bandarísku lögreglunnar þar sem sjá má m.a. stamandi morðingjann Brian brotna niður eftir ágengni lögreglunnar. Áður hafa þeir m.a. spurt drenginn hver eftirlætisbíómynd hans sé og hann svarar „Halloween“ og á þar væntanlega við kvikmynd John Carpenters frá 1978 sem gerði Jamie Lee Curtis fræga; íslenskt heiti myndarinnar væri væntanlega Hrekkjavaka eða Trölladagur sem mér fyndist skemmtilegri þýðing í ljósi þessa siðar sem kemur mjög við sögu hjá Carpenter en það er að fólk beri ógeðslegar grímur á þessum degi sem skiptir raunar öllu máli til að flétta sögunnar hafi minnsta trúverðugleika en hún snýst um að skrímslið Michael Myers snúi aftur í heimabæ sinn með afar óhugnanlega hvíta grímu. Þetta gerist einmitt á trölladag og myndin er nú sýnd í Netflix og í Sambíóunum væntanlega í tilefni þeirra tímamóta. Hún er enn óhugnanleg þó að fléttan sé frekar ótrúverðug enda má færa rök að því að það skipti engu máli því að hún snýst um kenndir en ekki vit. Nýlega horfði ég á framhaldsmyndina sem gerir nóttina eftir fyrstu myndina. Það er skemmst frá því að segja að hún bætir nákvæmlega engu við, er hrein endurtekning á þeirri fyrstu eins og framhaldsmyndir eru gjarnan, eina fléttan er að skrímslið leitar stúlkunnar nú á spítala og drepur allt sem verður á vegi hans, sem sagt sama flétta og áður og trúverðugleikinn enn minni.

Michael Myers er í raun ekki persóna í heðbundnum skilningi heldur ímynd úr martröð. Hann er afar hávaxinn, ævinlega með hvíta grímu, talar ekki heldur andar óeðlilega ákaft eins og lafmóður perri eða gamall hundur og er gersamlega ósæranlegur og ódrepanlegur. Sérgrein hans er að standa óhugnanlega kyrr í hæfilegri fjarlægð eða rása um eins og bægifætt tröll (og því auðvelt að hlaupa frá honum tímabundið en hann gefst aldrei upp og kemur alltaf rásandi að lokum). Einu sinni var tiltekin kynlífsfræðslubók sögð „nær dýrinu en manninum“ í íslenskum blöðum og þau fleygu orð falla ágætlega að óvættinni Myers. Í stuttu máli er hann tröll eða „bogeyman“ eins og naski strákurinn Brian kallar hann í fyrstu myndinni. Dólgurinn sleppur í upphafi myndar af geðsjúkrahúsi sem eru þar með stimpluð sem geymslustaður fyrir stórhættulegar illar verur; slík demónísering geðsjúkra er hvorki nýstárleg né óvenjuleg eins og fram hefur komið í fötlunarfræðum en óvíða svona haganlega gerð og virkar einmitt vegna þess hversu margt fólk óttast geðsýkina. Enginn virðist sjá Myers í fyrstu eða hafa af honum áhyggjur þó að hann elti fólk á bíl langar leiðir eða standi ógurlegur í dagsbirtunni með hvíta grímu. Eins virðist hann einstaklega fær um að hverfa hvenær sem honum hentar til þess eins að birtast ítrekað aftan við aðrar persónur. Þetta gerir að verkum að ófreskjan virkar í raun ekki sérlega vel á vitsmunalegu sviði en þeim mun betur á sviði undirvitundarinnar eða draumlífsins. Þó að mig hafi ekki beinlínis dreymt Myers hafa álíka ófreskjur stundum verið komnar inn í íbúðina í draumum mínum og standa þöglar yfir mér. Þetta á aftur á móti ekki við um Föstudaginn 13. myndina (1980) sem ég sá líka nýlega og er ekkert sérdeilis óhugnanleg, a.m.k. ekki heima í stofu, hópur ungmenna er drepinn og þar á meðal sjálfur Kevin Bacon kornungur en engin tilraun er gerð til að láta okkur þykja smá vænt um þetta unga fólk þannig að óttinn lætur á sér standa. Keðjusagarmorðin í Texas eru síðan annar handleggur; ég ræði hana síðar.

Mín góða vinkona og ágæta fræðikona Carol J. Clover í Berkeleyháskóla varð þekkt fyrir bók sína um tiltekna tegund ódýrra hrollvekja sem Halloween lyfti upp á aðeins æðra plan þar sem hún greindi meðal annars persónuna „final girl“ sem sannarlega er notuð í þessari mynd. Laurie sem Curtis leikur er sú eina í vinkvennahóp sínum sem á ekki kærasta og lifir því ekki kynlífi en hinar tvær eru báðar beinlínis drepnar á leið til kærastans eða bíðandi eftir honum í rúminu eins og lóðatíkur. Augljóslega minna þær ófreskjuna á systur hans sem hann hafði áður drepið fyrir að lifa kynlífi þegar hún átti að passa hann og sat síðan brjóstaber og greiddi sér nautnalega. Þessi mikla feigð unglinga sem stunda kynlíf er eitt helsta einkenni þessarar frásagnargreinar og til siðs er einnig að þeir drepnu séu fremur leiðinlegir og hrokafullir og hálfpartinn emji flestallar línur sínar. Stundum finnst manni leikararnir í slíkum myndum ekki kunna að leika en líklega er þetta hluti af listrænu blekkingunni.

Þar sem vel heppnað ætlunarverk Carpenters var að lyfta hryllingsmyndum aðeins upp vísar hann ákaft í meistarann Hitchcock í mynd sinni, einkum Psycho. Þetta gerir hann beinlínis með því að kalla sinn draugabana ekki Van Helsing heldur Sam Loomis en það nafn heitir „hetjan“ í Psycho og óbeint með valinu á dóttur Janet Leigh sem aðalleikonu. Auk þess vísar tónlist Carpenters óbeint í Tubular Bells Mike Oldfield úr verðlaunamyndinni Exorcist, svona til að láta kvikmyndaheiminn vita að mynd hans væri ekkert drasl. Tónlistin er svo ágeng að maður gleymir því stundum að persónurnar heyra hana ekki og átta sig því ekki jafn fljótt á nálægð Myers og við áhorfendur. En það er engin tilviljun heldur, það erum við sem er ógnað með myndinni og kvikmyndagerðarmaðurinn er að tala við okkur og engan annan.

Previous
Previous

Skotmenn og hermenn

Next
Next

Stelkurinn er fugl dagsins