Stelkurinn er fugl dagsins

Í lok september og upphafi október sat ég málþing um smásögur í Háskóla Íslands og kannski var þar fulllítið rætt um birtingarvettvang slíkra sagna. Tilfinning margra er að heldur hafi dregið úr virðingu smásagna. Einnig var nefnt að smásagan væri ekki síst form hinna jaðarsettu. Hvorttveggja getur tengst því að á 19. öld og fram á þá 20. var öflug tímaritaútgáfa í okkar heimshluta og auk heldur birtu dagblöð og vikublöð smásögur en þaðan var þeim síðar úthýst. Smásögur þrífast nefnilega ekki vel án tímarita og blaða og þess vegna er sérstakt fagnaðarefni að nýtt vefrit helgað smásögum hafi litið dagsins ljós um það leyti sem málþinginu lauk.

Ég á sjálfur eina sögu í tímaritinu og er hún ólík flestum fyrri birtum ritverkum mínum. Aðrir höfundar eru Arndís Þórarinsdóttir, Steinunn Helgadóttir og Þórdís Helgadóttir og þykir mér það góður félagskapur. Sögurnar eru greinilega valdar með fjölbreytni í huga því að þær eru ekki líkar innbyrðis en a.m.k. allar hinar þrjár (það gengur ekki að dæma sína eigin sögu) bera möguleikum formsins gott vitni. Ekki síst þess vegna vonar maður að Stelkur eigi farsæla daga framundan og að kvak hans muni styrkja við íslensku smásöguna, form sem krefst athygli og natni.

Previous
Previous

Tröll í heimsókn, eða: mæði Myers

Next
Next

Örlagavaldurinn Susan Harris