Örlagavaldurinn Susan Harris

Á morgun verður bandaríski sjónvarpsframleiðandinn og handritshöfundurinn Susan Harris 83 ára, kona sem er ef til vill ekki nafnkunnug Íslendingum en það er þó mín kenning að hún hafi verið mjög áhrifamikil hér á landi, einkum vegna þess að hún er manneskjan á bak við Löður (e. Soap) og Klassapíur (e. Golden Girls), sjónvarpsþætti sem féllu mjög í kramið á Íslandi en voru aftur á móti umdeildir í Bandaríkjunum, aðallega vegna þess að þeir þóttu breiða út frjálslynd eða vinstriróttæk viðhorf (hugmyndir Bandaríkjanna um hvað séu vinstriróttæk viðhorf eru iðulega skrítnar og því miður farnar að breiðast út). Ég man vel blómaskeið beggja þáttanna, enn betur eftir Löðri því að Klassapíurnar voru á Stöð 2 og ég sá þær ekki fyrr en löngu síðar. Löður var alltaf á dagskrá á laugardögum og þótti hátindur vikunnar enda fátt um sjónvarp á þeim dögum og enn minna um fyndið sjónvarp. Í dagbók sem ég hélt árið 1981 er nánast ekkert ritað annað en það sem var í matinn og hvenær Löður var í Sjónvarpinu.

Löður var þannig séð framandi hér því að engar sápur voru á dagskrá á Íslandi á þeim árum en húmor Susan Harris þótti góður þó að nafn hennar væri afar sjaldan nefnt (við í fjölskyldunni urðum þó forvitin um hana smám saman og tókum eftir þegar hún birtist loksins sjálf í þáttunum í litlu hlutverki gleðikonu). Megineinkenni Löðurs er að persónurnar eru meira og minna kexruglaðar og heimurinn allur nema helst persónur eins og Jodie (leikinn af Billy Crystal) sem voru þó hinsegin (Löður kenndi Íslendingum orðið „hýr“) og hann er t.d. eini maðurinn sem áttar sig á að búktaradúkkan Bob er tjáning fósturbróður hans Chuck en ekki bara dónaleg dúkka. Þannig flutti Susan Harris til mörki hins eðlilega og óeðlilega og hafði mikil áhrif á hugarfar Íslendinga. Ég hef aldrei efast um að vinsældir gleðigöngunnar á Íslandi eru sprottnar upp úr jarðvegi sem m.a. Susan Harris lagði á sínum tíma. Önnur eftirlætispersóna var Benson sem er í sígildu þjónshlutverki síns kynþáttar en afar uppreisnargjarn, tákn nýrra tíma.

Klassapíur var líka byltingarkenndur þáttur þar sem gamlar konur eru í aðalhlutverki sem var sannarlega ekki venjulegt á sínum tíma (og varla núna heldur) og tilvera þeirra snýst um fleira en manninn og börnin. Norrænir menn fá þarna líka að sjá eigin spegilmynd þegar persónan Rose fer með fróðleik um þorpið St. Olaf í Minnesota þar sem allur matur heitir nöfnum sem Bandaríkjamenn skynja sem norræn (og er á við sænska kokkinn í fyndni). Ellefu aðra gamanþætti bjó Susan Harris raunar til þó að þessir tveir yrðu frægastir en var hætt störfum um sextugt vegna síþreytu (sennilega illskeytt veira á bak við). Lítið hefur því borið á henni seinustu áratugina en einmitt þess vegna er ástæða til að rifja upp að margt sem nú þykir róttækt vegna hins ferlega afturhalds áranna milli 1980 og 2010 var í raun ratað inn í meginstrauminn fyrir 40-50 árum fyrir áhrif frá fólki eins og Susan Harris. Öll stefin um fjölbreytni og rétt fólks til að lifa eigin lífi eru þannig innbyggð í alla hennar vinsælu gamanþætti.

Þess má geta að ég eignaðist Löður á dvd fyrir nokkrum árum (nei, þið fáið þættina ekki lánaða, ég er ekkert f…íng bókasafn) og horfði á þá alla aftur og ólíkt því sem var þegar ég var 10-13 ára hló ég ekki mikið lengur en fannst þættirnir samt hrikalega áhugaverðir og stórmerkilegir og aðallega pólitískt framsæknir að flestu leyti. Eins var þar gott geimverugrín sem líka var í tíðarandanum þá og auðvitað hin frábæra leikkona frá Texas Katherine Helmond sem vann hug og hjörtu allra og hélt því síðan áfram í öðrum hlutverkum.

Previous
Previous

Stelkurinn er fugl dagsins

Next
Next

Michelle týnir barni