Michelle týnir barni

Kvikmyndin The Deep End of the Ocean er frá 1999 en hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga á Netflix og ég horfði á hana vegna þess að hún fjallar um barnshvarf eins og svo mörg hlaðvörp sem ég hef verið að hlusta á en raunar óvenjulegt hvarf því að drengurinn finnst á ný eins og reyndar hinn raunverulegi Shawn Hornbeck sem var í haldi barnaræningja í þrjú ár en fannst um síðir þegar sá ræningi hafði fyllst hroka og reyndi að ræna öðrum dreng. Viðburðurinn þegar Shawn kom í leitirnar var kallaður „The Missouri Miracle“ en fjölmiðlar áttu í vandræðum með túlkun hans vegna þess að Hornbeck hafði ekki flúið sjálfur frá ræningjunum og var því ekki hetja eins og Steven Stayner sem var í haldi í sjö ár þegar öðrum dreng var rænt og ákvað þá að bjarga honum (Stayner dó síðar í bílslysi kornungur og bróðir hans er í fangelsi fyrir morð). Hornbeck hreyfði sig hins vegar ekki frá kvalara sínum og því erfitt að búa til viðlíka hetjusögu um hann en það er ógurlega erfitt fyrir fjölmiðla, a.m.k. í Bandaríkjunum eins og þegar veslings fólkið sem var í turnunum tveimur 11. september 2001 er kallað „hugrakkar hetjur“ en er bara venjulegt fólk sem var statt í húsi sem hrundi eftir árás flugvélaræningja. Langar slíkt fólk til að vera kallað hetjur? Er ekki bara nóg að vera manneskja sem lifði af hrylling?

Og þá kemur að The Deep End of the Ocean sem skautar framhjá vandamálinu með Hornbeck en snýst samt um viðlíka endurkomu drengs sem var rænt. Ekki þó af barnaníðingi heldur brjálaðri konu sem vill eignast barn en er síðan dáin og aðeins stendur eftir ekkill hennar og stjúpfaðir drengsins sem ættleiddi hann í góðri trú. Það er þannig enginn lifandi skúrkur í myndinni, aðeins drengur sem er hæstánægður með líf sitt en er neyddur til að snúa aftur til foreldra sem hann hefur svo gott sem alveg gleymt. Móðirin er leikin af Michelle Pfeiffer og hún spilar alveg út við barnsránið sem skiljanlegt má teljast, er svo buguð af sorg að hún vanrækir manninn og börnin og er lengi varla í húsum hæf. Mörgum árum síðar þegar sonurinn birtist á ný er hún aftur á móti nógu yfirveguð til að bera kennsl á hann og er rödd skynseminnar í einu og öllu, öfugt við eiginmanninn sem heldur að málið sé einfalt og öll vandamál leyst við endurkomu drengsins. Michelle aftur á móti virðist skilja að sonurinn snýr í raun aldrei aftur, enginn er lengur á sama stað og áður og helstu áhrif endurkomunnar er að það sést betur hvílík áhrif brotthvarið hefur haft á alla í fjölskyldunni. Hún veit líka að það er henni að kenna hvernig komið er fyrir öðrum í fjölskyldunni en skilur um leið að hennar sektarkennd á samt ekki að vera aðalatriðið.

Eldri sonurinn sem týnir bróður sínum er brjóstumkennanlegasta persónan þegar hann er ungur og skyndilega ósýnilegur í allri sorginni. Mörgum árum síðar er hann hins vegar orðinn bitur og kaldhæðinn og virðist þegar hafa borið kennsl á bróður sinn í hverfinu án þess að segja neinum, greinilega sannfærður um að endurkoman sé ómöguleg. Í ljós kemur síðan að hann er sennilega sá sem þarf mest á bróðurnum að halda og þegar strákurinn sem var rænt áttar sig á því hvernig stórabróður líður ákveður hann að snúa aftur til fjölskyldu sinnar sem hafði að lokum leyft honum að snúa aftur til stjúpföðurins vegna þjáninga hans í þessu nýja umhverfi.

Þetta eru ekki mjög dramatísk vandamál og þau eru ekki gerð það í myndinni heldur en kannski virkar hversdagsleikinn einmitt ágætlega á öld heimildamyndanna. Vegna þess að það vantar öll læti í myndina verður hið raunverulega vandamál skýrara sem er það að missir verður ekki aftur tekinn, fjölskyldan mun aldrei endurheimta það gamla líf sem hún missti og það eina sem hún getur reynt er að búa til eitthvað nýtt. Það tekur þau þó flest sinn tíma að horfast í augu við það.

Previous
Previous

Örlagavaldurinn Susan Harris

Next
Next

Ljóshærðar fornsagnahetjur