Ljóshærðar fornsagnahetjur

Eitt af mínum afrekum í lífinu er að kenna íslenskum ungmennum (með hjálp bókarinnar Bókmenntir í nýju landi sem er metsölubók meðal minna útgáfuverka) að Kjartan Ólafsson hafi ekki endilega verið ljóshærður þó að hann hafi oftast verið teiknaður þannig á síðustu öldum. Ég áttaði mig ekki á því hversu andrasískt þetta athæfi var en auðvitað var ég alinn upp á andrasísku heimili í grárri forneskju og mörg viðhorf foreldra minna komin í tísku núna löngu löngu seinna.

En hvað um það tók ég eftir því eitt sinn að það er Bolli sem er sagður vera „ljósjarpur á hár“ í Flateyjarbókartexta sögunnar, Kjartan er aldrei sagður annað en „ljóslitaður“ sem gæti merkt fölur og þess vegna dökkhærður — í kennslubókinni fékk ég írskan innflytjanda, fölan og dökkhærðan, til að leika Kjartan vegna þess að kenning mín var sú að Kjartan hefði þá hugsanlega erft írskt útlit föðurömmu sinnar Melkorku ásamt írsku nafninu. Nú er ég einn örfárra Íslendinga sem er sama hvort við séum komin af norrænum mönnum eða Keltum — en Íslendingar elska hugmyndina um að við séum keltnesk og þar með hress og skemmtileg og svolítið hífuð en ekki stíf og borðum bara matarpakka og höfum fundið upp ostaskerann.

Alla sem skrifa bækur dreymir auðvitað um að hafa örlítil áhrif á umhverfi sitt og þannig er ég að vona að dökkhærði Kjartan breiðist út. Stundum rekst ég á fyndin verkefni framhaldsskólanema sem benda í þá átt, sbr. úrklippuna að neðan þar sem Kjartan er dökkhærður (og virðist raunar búa í Hlíðahverfinu fremur en Dalasýslu en ekki verður á allt að kosið). Ef ég spyr hver ætti að vera mín arfleifð, þá er ég ekkert ósáttur við að hafa dekkt hárið á þessari viðkunnanlegu Laxdæluhetju.

Previous
Previous

Michelle týnir barni

Next
Next

Auga flandrarans