Auga flandrarans

Undanfarið hef ég verið að lesa Vegamyndir, úrval úr ljóðum og smáprósum Óskars Árna Óskarssonar sem er nýkomið út með fróðlegum og skemmtilegum inngangi Hauks Ingvarssonar. Safnið staðfestir það sem mann hefur lengi grunað, þ.e. að Óskar Árni sé eitt fremsta ljóðskáld og örsagnaskáld Íslands um þessar mundir og hefur raunar algera sérstöðu vegna þess að hann er það sem Haukur kallar „flandrara“, er stöðugt á ferðalagi þó að ekki séu þau alltaf löng og safnið er því ljóðræn gerð af Landið þitt, Ísland, og kannski er það einmitt þess vegna sem ég hef flett því aftur og aftur.

Óskar Árni er það íslenska skáld sem hefur náð einna bestu tökum á hæku-forminu og hann hefur einstakt lag á látlausum myndum úr náttúrunni og oft er það vera mannsins í náttúrunni sem er fönguð, t.d. í þessari lágstemmdu mynd af tveimur mönnum með ísskáp sem eru settir í samhengi við allt umhverfið, næstum eins og við séum að horfa á margslungið málverk eftir Bosch eða annan slíkan meistara (ef ykkur finnst myndin mín af síðunni ekki nógu góð, kaupið þá bókina!).

Notalegt tvísæi setur svip sinn á texta Óskars Árna eins og í örsögunni „Maðurinn sem safnaði engu“ sem sækir styrk sinn í safnaraáráttu gamalla karla í sveitasamfélaginu forna og stöðu nútímans andspænis henni, þar á meðal fræðasamfélagsins. Maðurinn sem safnaði engu ber ábyrgð á einstæðasta safni í þessum heimi en er það til eða ekki? Þó að smæðin sé áberandi í textum Óskars Árna eru spurningarnar stundum merkilega stórar.

Hægt væri að setja fram kenningu um auga listamannsins sem nær vel utan um list Óskars Árna. Listamaðurinn fer um meðal manna en hann sér annað og meira en aðrir og nýtir hæfileika sína til að búa til myndir úr orðum.

Previous
Previous

Ljóshærðar fornsagnahetjur

Next
Next

Útgáfa Hins íslenska bókmenntafélags í ár, fyrsti hluti