Útgáfa Hins íslenska bókmenntafélags í ár, fyrsti hluti

Margir lesendur þessarar síðu vita eflaust að ég er nú forseti Hins íslenska bókmenntafélags sem er 207 ára gamalt og er stundum lýst sem félagi Jóns Sigurðssonar sem var einn af forsetum félagsins á 19. öld. Fyrir þessi jól gefur félagið út níu bækur og ég ætla að segja stuttlega frá þeim á þessari síðu enda hef ég lesið allar bækurnar og á vitaskuld talsverðan þátt í útgáfu þeirra. Engum þarf að koma á óvart að ég sé stoltur af þeim en þrátt fyrir að ég sé ekki hlutlaus gerir þessi umfjöllun kannski samt sitt gagn.

Ein útgáfubók okkar í ár er Menning við ysta haf sem er ritstýrt af Birnu Bjarnadóttur og Inga Birni Guðnasyni og í þeirri bók á ég grein ásamt ýmsum öðrum fræðimönnum af ýmsum þjóðernum. Allar greinarnar tengjast menningu á Vestfjörðum í tímans rás, allt frá Gísla Súrssyni til Eiríks Guðmundssonar. Bókin er svolítið eins og menningarleg mósaíkmynd þar sem bæði einstök brot og heildin skipta máli. Hið íslenska bókmenntafélag er vissulega staðsett í Reykjavík en er þó ekki aðeins félag Reykvíkinga heldur allra landsmanna. Þess vegna er sérstaklega ánægjulegt að gefa út bók sem snýst um Vestfirði sérstaklega, eitt fegursta, undursamlegasta, dulúðugasta en um leið fámennasta svæði Íslands.

Önnur bók sem við hjá félaginu erum stolt af að gefa út er Alþýðuskáldin sem Þórður Helgason hefur unnið að áratugum saman og er mikilvægt framlag til sögu íslenskrar ljóðlistar. Þórður er sjálfur ljóðskáld en einnig íslenskukennari á ýmsum skólastigum, síðast dósent á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Þessi bók hefur þegar vakið nokkra athygli meðal bókmenntaunnenda; hún er að mínu mati verk sem verður ekki gengið framhjá þegar kemur að íslenskri bókmenntasögu, kannski ekki síst vegna þess að stigveldi bókmenntanna er þar mjög til umræðu og hvernig það er stöðugt í mótun og til umræðu.

Þriðja bókin sem ég ætla að nefna fjallar um Tryggva Magnússon teiknara sem er vanmetinn í íslenskri listasögu en mörg verk hans eru þó vel þekkt meðal íslensku þjóðarinnar. Ég er sjálfur alinn upp við ýmis verk Tryggva og bókin er spennandi fyrir okkur öll sem þekkjum vel til þessa merka myndlistarmanns. Ef lesendur muna ekki hvað hann teiknaði verða þeir að fletta bókinni því að list hans er sannarlega kunn öllum á mínum aldri og þeim sem eldri eru.

Previous
Previous

Auga flandrarans

Next
Next

Horfið æskufólk