Horfið æskufólk

Jafnvel fólk sem aldrei las sannar glæpasögur í DV forðum (en hins vegar í dönsku blöðunum) verður að játa að þær geta verið heillandi, sérstaklega á dögum netsins þegar lesandinn getur haldið áfram að rannsaka málin og velta þeim fyrir sér. Áður hef ég rætt Palmemorðið og Kennedymorðið og yfirheyrslur yfir ungum afbrotamönnum (hver veit nema Loch Ness skrímslið og api De Loys komi seinna) og í sumar endurnýjaði ég kynnin við fræg mannshvörf á borð við Beaumontsystkinin þrjú sem hurfu í Ástralíu á Ástralíudaginn árið 1966, ekki fjarri ströndinni þar sem Somertonmaðurinn fannst tæpum tveimur áratugum fyrr; nú er loksins búið að bera kennsl á hann en þau hafa enn ekki fundist. Seinast sáust þau á strönd en samt þykir ólíklegt að þau hafi drukknað enda öldur litlar þann dag, ströndin fjölmenn og þau þrjú saman (öðru máli gegnir um Harold Holt, einn örfárra þjóðarleiðtoga sem hefur horfið, nær tveimur árum síðar en hann var einn og öldur meiri). Tvennt var grunsamlegt við hvarfið. Elsta stelpan hafði borgað í sjoppu fyrr um daginn með heilum dollara sem ekki var vitað að hún ætti og þau höfðu líka sést með manni sem þau virtust þekkja en aldrei gaf sig fram. Almenn samstaða er um að það hafi verið barnaræninginn en enginn veit hvað varð um börnin. Miðdóttirin mun hafa sagt mömmunni nokkrum dögum fyrir hvarfið að sú elsta ætti „kærasta á ströndinni“ en engum fannst það áhugavert á þeim tíma; eftir hvarfið þykir það afar ískyggilegt og benda til að börnin hafi lent í kynferðisglæpamönnum. Sonur eins hinna grunuðu hefur sakað pabba sinn um verknaðinn á þeim forsendum að sá gamli hafði stundað að gefa fólki dollara. Flestir aðrir frægir perrar Ástralíu og einkum í nágrenni Adelaide hafa legið undir grun en fyrir utan dollarann bendir ekkert í neina átt. Foreldrarnir létust tiltölulega nýlega í hárri elli (mamman 2019 og pabbinn núna í apríl) en hvorki hefur fundist tangur né tetur af börnunum í 57 ár. Mér fannst ástæða til að hlusta á tvær hlaðvarpsúttektir á málinu en aðra aðallega vegna ánægjunnar af því að heyra Ástrali bera fram staðarnafnið Adelaide.

Eitt af því sem þykir óhugnanlegt við hvarfið er hversu venjulegur seinasti dagur barnanna var, þau fóru í stutta strætóferð á nálæga strönd og áttu ekki að vera í minnstu hættu. Hið sama gildir um hinn ellefu ára Jacob Wetterling sem var rænt á heimleið úr vídeóleigu árið 1989, á gullöld þeirra skammlífu menningarsetra, rétt hjá heimili sínu. Hann var í för með tveimur öðrum strákum þegar vopnaður maður ógnaði þeim og tók svo einn, eftir að hafa spurt þá um aldur og vegið og metið útlit þeirra. Þetta mál var eitt frægasta mannshvarf Bandaríkjanna í 27 ár en leystist árið 2016 þegar morðinginn játaði. Hann reyndist vera kynferðisglæpamaður og vanur að sleppa strákunum sem hann misnotaði en panikaði í þetta eina skipti þegar hann heyrði í löggubíl og skaut Jacob eftir að hafa misnotað hann, sama kvöld og hann rændi honum. Ósköp einfalt og ömurlegt, löggan var reyndar með manninn í sigtinu vorið eftir en gat aldrei sannað neitt. Hvarf Jacobs leiddi af sér lagabreytingar í Bandaríkjunum og óhemju mikla söfnun gagna um kynferðisglæpamenn en skilgreiningin á þeim hefur síðan verið víkkuð mjög og á ekki lengur aðeins við um menn með byssur sem ræna börnum heldur minniháttar dólga og jafnvel börn í læknisleik. Móðir Jacobs fór út í stjórnmál en tapaði því miður kosningum fyrir hinni snaróðu Michele Bachmann. Hún sér eftir því að nafn sonarins hafi verið notað til að réttlæta harkaleg mannréttindabrot. Í besta hlaðvarpinu um málið sem ég hlustaði á, In the Dark, var hún spurð hvort þau hjónin hefði leitað til sjáenda en svaraði: „Það þarf ekki, þeir hafa sjálfir samband“. Hinn hollenski Gerard Croiset gaf sig einmitt fram á sínum tíma að leita af Beaumontbörnunum en gerði ekkert gagn, fremur en allir sjáendurnir sem þóttust vita hvar Jacob Wetterling væri. Síðar var farið yfir feril Croiset og í ljós kom að ágiskanir hans voru ekkert betri en handahófið en ýmsir muna kannski eftir þeirri hugmynd Croiset að Geirfinnur Einarsson væri í vatni (ekki beinlínis ólíklegt þegar einhver hverfur á eyju í ballarhafi).

Þegar morðingi Jacobs fannst reyndist lausnin frekar ómerkileg en hlaðvarpið In the Dark er magnað að hlusta á, ekki vegna þess að morðinginn sé áhugaverður (hann er vesalingur, einn af mörgum en býr í landi þar sem allir veifa byssum stanslaust) heldur vegna þess að það lýsir rannsókninni og írafárinu og m.a. kemur fram að lögreglan í héraðinu þar sem Jacob bjó (Stearns County) leysir næstum engin alvarleg sakamál. Hún hefur ekki heldur leyst hvarf Josh Guimond sem var háskólastúdent í kaþólskum háskóla sem yfirgaf partí rétt hjá heimili sínu nálægt miðnætti haustið 2002 og hefur ekki sést síðan. Josh var tvítugur og tvítugir menn eiga til að hverfa en þessi var afbragðsnemandi, metnaðarfullur og ábyrgur og líkið hefur aldrei fundist. Stöðuvatn er í háskólabænum sem hefur verið rækilega slægt og ein tilgátan er að bíll hafi ekið á Josh og líkið í kjölfarið falið. Rannsóknin hefur fátt dregið fram (ekki óvænt fyrir neinn sem hefur hlustað á In the Dark) en þó það að Josh hafði skömmu fyrir hvarfið haldið innreið sína á spjallsíður Yahoo (já, þetta var árið 2002) og m.a. kynlífssíður þar sem hann hafði þóst vera kona. Líka kom fram að hann hafði kært annan notanda síðanna, lokað prófílunum sínum og hringt langt símtal við ókunnan aðila skömmu yfir hvarfið. Eins að einhver reyndi að eyða gögnum af tölvunni hans eftir að hann hvarf. Allt þetta er grunsamlegt og gæti bent til þess að Josh hafi ekki einfaldlega dottið í vatnið.

Á skíðasvæði í British Columbia hvarf hinn tvítugi Ryan Shtuka fyrir fimm árum og líka er búið að gera heilu hlaðvarpsraðirnar um það mannshvarf þó að ekki virðist um nein grunsamleg málsatvik að ræða líkt og hjá Josh (hlaðvörpin hafa hins vegar rætt sögusagnir á netinu og afgreitt þær ágætlega). Það sem hefur gert Shtuka frægan er að hann á þróttmikla foreldra sem leituðu að honum uppi á fjalli mánuðum saman og sérstaklega mamman er svo mælsk að málið hefur vakið mikla athygli (mína aðallega vegna þess að Shtuka líktist einum vini mínum). Þó að náttúra British Columbia sé líkt og náttúra Íslands til alls vís hefur verið leitað svo mikið að Shtuka að það er örlítið skrítið að hann hafi ekki fundist. Ekki eru þó neinar vísbendingar um að mannshvarfið sé af manna völdum þó að það stöðvi ekki netspekinga sem marga grunar einstaklinginn sem sést aftan við Shtuka á seinustu myndinni sem tekin var af honum á diskóteki kvöldið sem hann hvarf.

Þessi litla skýrsla er aðeins brot af þeim hlaðvörpum um dularfull mál sem skemmtu mér í sumar og er aðallega gefin í játningaskyni svo að lesendur haldi ekki að ég lesi aðeins Proust og Rabelais. Eitt af því sem ég tek eftir að margir halda að þessi mikli áhugi á morðum og mannshvörfum sé einkenni nútímans en lestur gamalla blaða bendir ekki til þess, miðlunin hefur aukist en hlutfall glæpa er svipað og áður. Raunar snerust elstu fréttablöðin á 19. öld nánast alfarið um líkfundi og morðmál og áhorf mitt á Hitchcock-myndir í sumar leiðir hið sama í ljós: jafnvel í bíómyndum hans frá 4. áratugnum er lýst almenningi sem lifir og hrærist í fréttum af morðum og nýtur þess sérstaklega ef þau eru hræðileg. Hlaðvörpin kunna að vera ný en umfjöllunarefni þeirra eru hefðbundin.

Previous
Previous

Útgáfa Hins íslenska bókmenntafélags í ár, fyrsti hluti

Next
Next

Byltingarárið 1967