Byltingarárið 1967

Auðvitað hef ég ekki skrifað um nærri allar bækurnar sem ég las í sumar enda les ég talsvert af ómerkilegum bókum og næ stundum engu sambandi við bækur sem eflaust yrðu öðrum innblástur og sé enga ástæðu til að auglýsa tregðu mína og ónæmi. Ein bók sem ég las aftur heitir Pictures at a Revolution eftir fræðimanninn Mark Harris (f. 1963) og rekur sögu allra fimm kvikmyndanna sem kepptu um óskarinn sem besta mynd ársins árið 1967. Harris er blaðamaður en skrifar vel og er greinandi; þegar ég fletti honum upp áðan (kann ekki við að kalla slíkt „rannsókn” eins og kollegar Harris á Íslandi myndu gera) komst ég að því að hann er giftur leikskáldinu Tony Kushner. Hann hefur skrifað tvær aðrar kvikmyndabækur síðan sem aldrei er að vita nema ég næli mér í.

Eina myndin af þessum fimm sem ég hef aldrei séð er söngleikurinn Dagfinnur dýralæknir (1967) sem hafði raunar þau afar jákvæðu áhrif að bækur Hugh Loftings voru þýddar á íslensku undir lok 7. áratugarins og lesnar í ræmur á mínu heimili (og ég hef raunar skrifað um þær grein). Að sögn er myndin ein risastór rjómaterta með gervirjóma sem kolféll í bíóhúsunum og var að sögn Harris aðeins tilnefnd til verðlauna í viðurkenningarskyni við allt það stórfé sem kvikmyndaverið hafði sólundað í hana og endurheimti aldrei. Hún kom í kjölfar hinna feykivinsælu söngleikja My Fair Lady, Mary Poppins og The Sound of Music sem höfðu malað gull en reyndust ekki upphafið að nýrri söngleikjabylgju því að flestallir söngleikirnir sem fylgdu í kjölfarið kolféllu og voru hver öðrum verri. Myndin um Dagfinn var með Rex Harrison í aðalhlutverki sem hafði átt mörg góð ár þar á undan en ferill hans beið þess aldrei bætur. Rex átti mikinn þátt í hversu mikið flopp myndin var, hann gerði endalausar kröfur, skipti sér af öllu, lagði aðra leikara í einelti og var almennt til vandræða. Hann var líka súrrandi alkóhólisti og eins kona hans Rachel Roberts (hann fór almennt frekar illa með konur sínar). Þetta var á árum alvöru drykkju- og reykingamanna eins og Richard Burtons sem ku hafa reykt fimm pakka á dag og þegar hann var að leika í kvikmynd trappaði hann áfengisneysluna niður í eina vodkaflösku á dag.

Hinar kvikmyndirnar fjórar hafa allar verið taldar snilldarverk. Ég man ekki hvort ég sá Í næturhitanum í æsku og náði henni ekki alveg en a.m.k. sá ég hana upp úr fertugu og fannst hún þá snilldarverk (og aftur um daginn í danska sjónvarpinu) . Hún var kvikmyndin sem vann aðalverðlaunin og þó að margir væru óánægðir var það sennilega rétt ákvörðun. Það sem mér finnst gott við hana er ekki boðskapurinn um jafnari stöðu kynþáttanna sem þó er miðlað allsniðuglega heldur hversu vel hún er tekin, hversu gott handritið er og hvernig fjöldi leikara brillerar í misstórum vel skrifuðum hlutverkum, vitaskuld aðallega Rod Steiger í hlutverki skerfarans sem tekur út mestan þroska í myndinni. Svo er Sidney Poitier auðvitað stórkostlegur sem hinn tígulegi Virgil Tibbs sem augljóslega ber af öllum öðrum viðstöddum að mannkostum. Lee Grant er frábær í litlu hlutverki (ég hef áður rætt hana) og hinn ófrýnilegi Anthony James (sem sjá má að ofan) er sérkennilega heillandi og krípí sem afgreiðslumaður á matsölustað. Þar fyrir utan eru alls konar löggur á sviðinu stutt og lengi, allt áhugaverðar persónur. Þetta er í stuttu máli vel gerð og sígild mynd sem á allan heiður skilinn. Hvort hún taldist byltingarkennd árið 1967 er auðvitað annað mál.

Byltingarkennd var Frú Robinson (eða The Graduate) ótvírætt og það á margvíslegan hátt. Hún fjallar um hluti sem áður höfðu verið harðbannaðir í Hollywood, andhetjan Benjamin var glænýtt fyrirbæri á sínum tíma og jafnvel notkunin á tónlist SImon og Garfunkel var þvert á allar Hollywood-hefðir. Auk heldur er boðskapur hennar óljós kynslóðauppreisn sem hitti beint í mark og myndin er bráðfyndin á köflum. Handritið er ekki alveg jafn gott tæknilega og hin (þráðurinn er losaralegur á köflum) en þetta var mynd sem fangaði nýjan tíðaranda og ef ég man bókina hans Harris rétt er þetta sú mynd sem á endanum skilaði mestum tekjum. Ég man að foreldrum mínum fannst hún frábær, þau elskuðu fyndnar, frjálslyndar og nútímalegar myndir og engan hefði grunað að afkvæmi þeirra yrðu miðaldafræðingar. Anne Bancroft sló í gegn í myndinni og er vissulega mögnuð. Auk heldur má nefna eitt sérstæðasta lokaatriði allra tíma þegar ungu hetjurnar eru stungin af úr brúðkaupi hlæjandi og kát og setjast aftast í strætisvagninn en eftir smástund rennur gleðin af þeim og þau sitja þarna hugsi og hálftóm sem minnir áhorfandann á að svona endir er vitaskuld enginn endir. Samkvæmt Harris náðist þetta skot fyrir slysni, leikararnir héldu að tökunni væri lokið og hættu að leika. Leikstjórinn Mike Nichols sá að hann var með gull í höndunum og notaði tökuna.

Önnur mynd sem gekk vel fjárhagslega var Gestur til miðdegisverðar sem Harris finnst samt greinilega ekki sérstaklega góð mynd. Ég er sammála honum með þeim fyrirvara að það er mjög langt síðan ég sá hana. Hún snýst um kynþáttahyggjuna en allt frá sjónarhorni þeirra hvítu, í þessu tilviki frjálslyndra hjóna sem þrátt fyrir allt sitt frjálslyndi líst ekkert á að dóttir þeirra sé trúlofuð svörtum manni, jafnvel þótt viðkomandi sé algjörlega fullkominn, vel menntaður, vinni fyrir Sameinuðu þjóðirnar, eiginlega næsti bær við Kofi Annan. Þetta var gert til að einangra kynþáttinn sem eina hugsanlega gallann en virkar ekki vel mörgum árum síðar, prófraunin er í raun engin. Svörtu leikurunum í myndinni líkaði víst ekki heldur alls kostar við handritið en velgengni myndarinnar stafaði ekki síst af því að Spencer Tracy og Katharine Hepburn léku saman í tíunda sinn, í fyrsta sinn í áratug og raunar hinsta sinn. Tracy var dauðveikur og andaðist skömmu eftir að tökum lauk. Það kostaði þau mikið átak að eyða síðustu vikum sínum saman í þessu verkefni og þótti hjartnæmt. Tracy flytur væmna og frekar gervilega ræðu í lok myndarinnar og Hepburn sést þar grátandi en það var ekki leikur heldur vissi hún að Tracy væri á seinustu metrunum.

Bonnie og Clyde varð umdeildust af öllum myndunum fimm vegna ofbeldisins og erótíska myndmálsins en hún var líka byltingarkenndust vegna þess að liturinn á Hollywood-myndum var að breytast og verða eðlilegri sem þýddi að alvarlegar myndir þurftu ekki lengur að vera svarthvítar og óskarsverðlaunin fyrir svarthvíta myndatöku hurfu. Uppreisnargirni myndarinnar og evrópsk áhrif voru líka greinileg, áhrifin frá Godard og Truffaut heilmikil og myndin fór mjög í taugarnar á gamla fólkinu í Hollywood þannig að viðtökurnar voru blendnar í fyrstu en síðar skiptu allir um skoðun, myndin var lýst snilldarverk og til varð „ný Hollywood“ sem kannski stóð samt ekki nema í áratug eða svo (eins og ég ræddi um daginn í greininni um Friedkin).

Previous
Previous

Horfið æskufólk

Next
Next

Sígandi augnlok Heinreks Englakonungs