Sígandi augnlok Heinreks Englakonungs
Hinrik 3. (ríkti 1216–1272) er sá Englandskonungur sem lengst var við völd allt fram á 19. öld en þó er hann furðu ófrægur, Shakespeare skildi hann eftir og örfáir hafa minnstu tilfinningu fyrir honum. Þrátt fyrir að vera konungur í 56 ár varð hann sem sagt enginn menningarhetja en það þjóðfræðilega hugtak á við fólk sem öðlast slíka frægð að það fer að draga að sér alls konar sögur og að lokum semur Andrew Lloyd Webber söngleik um það (ég uppgötvaði á málþingi um daginn að það virðist ekki mjög þekkt meðal áhugamanna um fræði). Kannski skiptir líka máli að margir konungar sátu lengi um miðja 13. öld; meðal samtíðarmanna Hinriks voru Friðrekur Rómarkeisari sem kallaður var veraldarundur (stupor mundi á latínu), Hákon Noregskonungur sem lagði undir sig Ísland, hinn heilagi Loðvík 9. Frakkakonungur og Alfonso vitri sem allir sátu mun lengur á stóli en meðalkonungur og voru símakkandi um völd og áhrif í álfunni. Hinrik 3. mun hafa verið með ptosis samkvæmt samtímaheimildum en það er sígandi augnlok og að sögn var hann einn grátgjarnasti konungur sinnar samtíðar en það var hugsanlega í tísku á Englandi þá. Ekki náði sú tíska þó til Íslands ef marka má Njálu en þar eru ýmsir karlmenn hrakyrtir mjög fyrir að tárfella.
Heinrekur þessi (svo að ég noti miðaldanafnið) varð konungur níu ára, áður eftir að faðir hans féllst á hið mikla skjal (magna carta) sem takmarkaði völd konungs mjög. Það tók samt eiginlega aldrei gildi og var alls ekki einstakur gjörningur á 13. öld en síðar varð til mikil goðsagnagerð um að með miklaskjali hefðu Englendingar innleitt eins konar lýðræði löngu fyrr en aðrir — ekki að spyrja að oflátungshætti Tjallans. Hinrik litli var því ekki valdamikill í fyrstu en náði að styrkja tök sín mjög með tíð og tíma og blómaskeið hans var upp úr 1230 og næsta aldarfjórðung. Á þeim tíma reyndi hann m.a. að ná undir sig Sikileyjum eftir andlát Friðriks 2. Árið 1258 hófst hins vegar sjö ára óróaskeið þegar barónar gerðu aðra uppreisn gegn konungsvaldinu. Henni lauk að lokum með sigri Hinriks sem þá var orðinn 58 ára öldungur og eftir því heilsuveill. Uppreisnarmaðurinn Simon de Montfort var drepinn og jafnvel enn verr farið með lík hans en Sturlu Sighvatssonar nokkrum áratugum fyrr.
Nýlega kom ég í tvær íðilfagrar miðaldakirkjur í Strasbourg, daginn eftir að eignaðist mitt sjöunda „doktorabarn“ og kom þaðan innblásinn af fagurfræði há- og síðmiðalda eins og sjá má á myndunum sem fylgja þessari grein. Hinrik 3. lést 65 ára sem þótti mjög góður aldur veraldlegra valdsmanna á þeirri öld. Langfæstir konungar 13. aldar urðu svo gamlir (átu og drukku of mikið fyrir utan alla bardagana og samsærin gegn þeim) og Hinrik 3. fór nú að sinna trú sinni æ meira en treysti á son sinn Játvarð sem stundum var kallaður hinn skankalangi en stundum Skotahamarinn en hann lagði raunar líka undir sig Wales og rak gyðinga úr Englandi. Orðspor hans hefur því verið afar blendið en faðir hans Hinrik hefur verið allgleymdur og þó var hann engu ómerkari konungur á sínum tíma en aðrir sem ríktu yfir Englandi á 12. og 13. öld en e.t.v. höfðaði hann ekki til ímyndunarafls yngri sagnaritara vegna þess að hann gerði ekki nóg af sér.