Að anda í lestrinum

Ég hef stundum vakið athygli á mikilvægi þess að anda meðan lesið er. Raunar má segja að það hafi verið einn aðalstarfi minn sem bókmenntafræðingur sem sinnir íslenskum bókmenntum frá miðöldum. Þegar andað er meðan á lestri stendur en ekki ruðst gegnum hann eins og snjóplógur kemur margt upp úr kafinu og ég hef reynt að vekja athygli á mörgu slíku og til stendur að gera enn betur í bók minni um aukapersónur fornsagna sem ég hef unnið að seinustu fimmtán ár en vegna þess að ég veit ennþá ekki alveg hvernig á að skrifa hana fellur hún iðulega í skugga annarra bóka.

Eitt af dæmunum sem ég mun taka er þetta úr Laxdæla sögu: „Hann spyr nú gjaforð Guðrúnar og brá sér ekki við það en mörgum var á því kvíðustaður áður“. Kjartan Ólafsson er kominn heim frá Noregi og fréttir að óopinber heitkona hans hafi gifst fóstbróðurnum Bolla. Þegar hann heyrir það lætur hann ekki neitt á sér finna enda orðinn kurteis af dvöl við erlendar hirðir og lykilatriði kurteisinnar er stilling (um þetta skrifa ég m.a. í Í leit að konungi). Viðbrögð eða „ekkiviðbrögð“ Kjartans eru mjög áhugaverð en samt ekki það áhugaverðasta við setninguna heldur hinir „mörgu“ sem höfðu kviðið viðbrögðum hans. Hverjir eru þessir „margir“ í setningunni? Þeir væru ekki þar nema vegna þess að höfundurinn vill láta okkur sjá þetta ónefnda andlitslausa fólk fyrir okkur. Við vitum ekkert um þá eða þau (skv. hefð merkir „margir“ bæði karla og konur) nema að þessu fólki er annt um Kjartan og hugsanlega Guðrúnu eða friðinn í héraðinu. Þetta ónefnda fólk hefur líka tilfinningar og ein slík er kvíði. Þetta andlitslausa fólk hefur kviðið viðbrögðum Kjartans, hugsanlega allan veturinn, allt frá brúðkaupi Bolla og Guðrúnar.

Þetta er alls ekki eina slíka augnablikið í fornsögunum sem eru svo fjarska ólíkar því sem nútímamaðurinn sem ekki hefur lesið þær nógu vel ímyndar sér. Fólk er uppnumið af ofbeldinu, eitruðu karlmennskunni, stóísku rónni og ýmsu öðru en tekur ekki alltaf eftir því að sögurnar eru líka fullar af nafnlausu fólki sem kvíðir og það skiptir máli. Fornsögurnar eru alls ekki eins og spagettívestrar nema kannski þeir bestu sem líklega er kjarni málsins: margar þeirra eru góðar bókmenntir og þar með fullar af öllu því stöffi sem góðar bókmenntir innihalda: hiki, efa, kvíða, eftirvæntingu, þrá og þar fram eftir götunum. Þessu er iðulega miðlað á kaldrifjaðan hátt milli línanna en þessa þætti vantar samt ekki og mér þætti gaman að sjá nútímaaðlögun (fyrir utan Three Billboards sem ég hef áður rætt og er ekki yfirlýst aðlögun) sem tekur fullt tillit til þessa. Til þess þarf auðvitað listamenn af sama tagi og höfunda bestu fornsagnanna og slíkir eru ekki á hverju strái en þeir eru þó til. Ég ræddi heilmikið um Alfred Hitchcock í sumar. Hann var einn slíkur. Kannski eru fleiri, jafnvel starfandi núna.

Previous
Previous

Sígandi augnlok Heinreks Englakonungs

Next
Next

Dauður maður sló í gegn