Dauður maður sló í gegn

Mig minnir að ég hafi keypt fyrstu bók Stieg Larsson í einni af mínum fjölmörgu Kaupmannahafnarferðum, sennilega sumarið 2006 þegar hún var glæný á dönsku og ég las hana heima í Nordisk Kollegium á Strandboulevarden, íbúð 126 á fimmtu hæð. Líkt og Proust get ég ekki handfjatlað bókina án þess að vera kominn þangað aftur og finna skápalyktina þar. Ég áttaði mig raunar strax á því að þetta væri óvenjuleg bók, m.a. vegna þess að hún lýtur engum hefðbundnum lögmálum spennusögu. Langur undanfari er að kynningu aðalráðgátunnar og morðinginn í sögunni er afhjúpaður og dauður löngu áður en bókinni lýkur. Bókin var hátt í 600 blaðsíður og obbinn af henni snýst um hægfara gagnalestur þó að inni á milli séu átakasenur. Stieg Larsson var það sjaldgæfa fyrirbæri, höfundur sem gefur skít í allar forskriftir og kemst upp með það. Hann var líka látinn, dó áður en bókin kom út og það hefur á þversagnakenndan hátt alltaf verið hluti af aðdráttarafli hans sem höfundar.

Annað aðdráttarafl bókarinnar er heiti hennar sem Bandaríkjamenn treysta sér þó ekki til að þýða beint. Hún snýst um alvörumál sem er sú staðreynd að drjúgur hluti ofbeldisverka heimsins eru morð karla á konum sem tengjast kynferðislegri spennu og hefðbundnum kynhlutverkum. Fáir spennusagnahöfundar hafa tekið þetta jafn alvarlega og Stieg Larsson sem holdgerir kvenhatrið í raðmorðingjanum Martin Vanger sem er geðþekkur maður í viðkynningu eins og margir kynferðisglæpamenn (sem gerir fyrirbærið ekki auðveldara viðfangs) og sem á eðlilegt samlíf við kærustu sína en svalar fýsnum sínum á konum sem eru erlendar eða vændiskonur. Í kynferðisglæpnum felst einmitt gjarnan valdatafl og það er ekki tilviljun að kvenhatarinn drepur erlendar konur því að þær eru honum óæðri í huga hans og allar kallaðar hórur. Snúningur verksins felst svo í því að glæpamaðurinn er alls ekki sekur um glæpinn sem blaðamaðurinn Blomquist er að rannsaka og raunar er eðli þess glæps allt annað en allir halda. Hér er Larsson undir áhrifum frá Japrisot og öðrum snillingum 7. áratugs glæpasögunnar sem gekk út á að fá lesendur til að trúa því að sagan fjalli um allt annað málefni en hún gerir.

Annað snilldarbragð Larssons var hin óvenjulega kvenhetja Lisbeth Salander en kannski er hún líka ógæfa höfundarferils hans. Hún þróast nefnilega úr því að vera sláandi óvenjuleg og áhugaverð persóna í að vera hálfgerð teiknimyndahetja sem hefur nánast yfirnáttúrulega hæfileika og krafta. Eins verður að segjast eins og er að seinni bækurnar tvær sem Larsson skrifaði eru hressandi afþreying og hafa gildi sem spennusögur en þó engan veginn sama slagkraft og fyrsta bókin. Hið sama gildir um hinar fjölmörgu framhaldsbækur sem hafa verið skrifaðar löngu eftir lát Larssons í von um að gullgæsin verpi enn.

Larsson mun sjálfur hafa sagt að Lisbeth Salander sé eins konar Lína langsokkur í nýju umhverfi og eins og fyrri Lína hefur Lisbeth mikið afþreyingargildi en ég hef samt hneigst til að sakna alvörunnar sem þrátt fyrir léttleika og gamansemi gegnsýrði fyrstu bókina sem ég kynntist í Danmörku á sínum tíma, allrar einlægu pólitíkurinnar sem Larsson kom á framfæri með aðstoð frásagnargáfu sinnar. Kannski skiptir þar máli að skýr afstaða hans gegn valdinu var eins og ferskur andblær árið 2006 en varð mörgum árum síðar að innantómri orðræðu hræsinna miðjumanna.

Previous
Previous

Að anda í lestrinum

Next
Next

Ezra Miller á hraðferð