Ezra Miller á hraðferð

Ég hef ekki beinlínis gaman að ofurhetjumyndum og satt að segja skil ég ekkert í þeim en horfði þó á nýlega mynd um ofurhetjuna „The Flash“ sem ég veit ekki til að eigi sér íslenskt nafn en ég hef ákveðið að kalla Eldinguna. Ástæðan fyrir að ég horfði á myndina var að Ezra Miller leikur í henni og er ansi góður leikari þó að ýmsar sögur séu til um undarlega hegðun þeirra, jafnvel hér á Íslandi (nánar tiltekið í Bankastræti). Ezra Miller leikur raunar tvö hlutverk þar sem Eldingin tekur upp á því að álpast aftur til fortíðarinnar og reynir að breyta rás tímans til að móðir hans deyi ekki en þá fer allt í vitleysu út af einhverju tímaspagettí (ég get ekki skýrt það fullnægjandi en ekki heldur neinn í myndinni) og hann þarf að finna sjálfan sig og fá aðstoð tvífarans til að bjarga heiminum með því að finna fyrst leðurblökumanninn og síðan ofurmennið. Fyrir utan þetta tvífaraminni eru fleiri ofurhetjur í þessari mynd en þetta mun hafa verið alsiða í bandarískum myndablöðum áratugum saman og það er aðeins mér að kenna að hafa ekki lesið þau.

Þessar tvær persónur sem Ezra Miller leikur (síðhærði Ezra og stutthærði Ezra) eru miklar andstæður, önnur kjánaleg og óábyrg en hin stíf og á rófinu og milli þeirra verða iðulega átök í myndinni. Þar nýtast kómískir hæfileikar Miller vel þar sem hvellt mas hans skapar oft skemmtilega truflun í hefðbundnum og leiðigjörnum bardagasenum myndarinnar. Þessi tiltekna ofurhetja sækir margt til andhetjunnar, einkum í gervi yngri Eldingarinnar sem í upphafi hefur enga ofurkrafta og skrækir mikið við ýmis tilefni. Samkvæmt öllum fjölmiðlasögunum um Ezra eru þeir (persónufornafnið sem Ezra notar iðulega) líka frekar sveiflukennd persóna þannig að myndin er þá einkennilega ævisöguleg. Ég er óviss um hvort nútímalegar ofurhetjumyndir séu allar gamanmyndir með tæknibrellum og bardagasenum en þessi fannst mér a.m.k. vera grínmynd og ekki síst vegna hæfileika Ezra og almennra undarlegheita.

Í myndinni er samt undirtexti sem er eiginlega ekki einu sinni undirtexti en reglulega er minnst á typpi persónunnar (og kvartað yfir því á amerískum síðum sem snúast um hve barnvæn myndin sé), eins hversu þröngur búningur hennar sé og tvífararnir fækka raunar báðir fötum í myndinni sem er þó ekki reglan í slíkum myndum. Þeir fara að lokum með Leðurblökumanninum til að finna Ofurmennið í „risapung“ (en þar leynist raunar frænka þess). Af þessum reðurtáknum ræð ég að brothætt karlmennska sé eiginlegt umfjöllunarefni myndarinnar: hetjan er með alvarlegan mömmukomplex og er handan hefðbundins kynferðis eins og Ezra sjálft. Hún er líka í afar viðkvæmri stöðu, í lykilatriði myndarinnar lætur Eldingin til dæmis binda sig beran að ofan í stól til að fá ofurkraftana á ný með rafmagni en liggur hálfdauð eftir þegar ofurfrænkan birtist og flýgur með hann í háloftin til að fá enn meira eldingarafmagn.

Mér skilst að myndin hafi floppað illilega í sumar enda er hún óneitanlega skrýtin þrátt fyrir allar tæknibrellur og aðalleikarinn auðvitað ekki síður og ímynd Ezra ekki heldur upp á það besta eftir miklar tröllasögur blaðanna um þau. Mér finnst samt gaman af því hve skemmtilega öðruvísi og öfug Eldingin er, nýja ofurhetjan er stór mömmustrákur á skjön við hefðbundna karlmennsku og vinnur sín helstu afrek í matvörubúðum en þeir kaflar myndarinnar ná raunar að vera átakanlegri en flest efni ofurhetjumynda og einna helst þar sem þessi ofurhetjumynd nær að verða annað og meira.

Previous
Previous

Dauður maður sló í gegn

Next
Next

Hvar á bók heima?