Hvar á bók heima?
Ég kom fyrst í Árnagarð haustið 1990 en flutti þaðan eftir 15 ár í skrifstofu 424 þann 16. ágúst síðastliðinn. Fyrr þetta nýliðna sumar hafði ég sem endranær numið staðar hjá hinu kunna bókaborði í Árnagarði þar sem stundum eru eigulegar bækur (innan um aðrar síður eigulegar) og rakst þar á bók frá 1906, skáldsögu að nafni Þyrnibrautin eftir þýska höfundinn Hermann Sudermann (1857-1928). Þó að ég sé sæmilega víðlesinn hafði ég aldrei heyrt Sudermanns getið (ekki mitt tímabil, auðvitað) en grunaði að þessi bók væri gersemi. Mig grunaði þó líka að enginn sem kynni að meta þessa bók á næstunni ætti leið hjá næstu mánuðina enda dvelja bækur stundum lengi á téðu borði. Ég tók hana því með mér og fræddist um Sudermann næstu tímana. Þýðandi verksins reyndist vera Sigurður Jónsson frá Álfhólum (1881-1912) en bókin gefin út á Ísafirði, hugsanlega af langalangafa mínum sem átti prentverk þar. Mér fannst Sudermann of merkilegur til að reyna ekki að bjarga bókinni en vissi þó að hún væri líklega ekki best komin hjá mér.
Ég settist við tölvuna og leitaði uppi fólk sem hefði skrifað doktorsritgerðir eða bækur um Hermann Sudermann og fann að lokum einn starfandi í bandarískum háskóla en sá rannsakar enn þýskar bókmenntir 19. aldar. Ég gróf því upp netfang hans eins og alltaf er hægt með háskólafólk (þó að mörgum reynist furðu erfitt að finna mitt) og sendi honum skeyti. Hann svaraði tiltölulega hratt. Mér hafði áður tekist að finna út að þessi bók héti Frau Sorge á frummálinu en sérfræðingurinn sagði að þessi bók þætti gott dæmi um þýskan „Jugendstil“ í bókmenntum. Þetta hefði verið fyrsta skáldsaga Sudermanns sem seinna varð frægur sem leikritahöfundur en vinsældum hans hrakaði mjög eftir heimsstyrjöldina fyrri.
Ég hafði líka komist að því með aðstoð netsins vitra að ýmsar sögur Sudermanns hefðu birst í íslenskum tímaritum en síðar komst ég að því að leikritið Heimilið eftir hann var ekki aðeins sett upp árið 1902 heldur endurflutt árið 1918 af Leikfélagi Reykjavíkur í tilefni af 25 ára leikafmæli Stefaníu Guðmundsdóttur. Utan Þýskalands er Sudermann ekki lengur í tísku en svo seint sem árið 1975 var verið að kvikmynda sögur hans með Hönnu Schygulla og álíka stjörnum. Þýðandinn Sigurður frá Álfhólum var að mestu sjálfmenntaður barnakennari í Bolungarvík og Rangárvallasýslu en lést á Álfhólum um þrítugt og virðist pestin hafa tekið hann. Hann átti heitmey þegar hann lést en engin börn.
Háskólamaðurinn var búinn að fá íslensku bókina í ágúst, skrifaði mér þegar hann handfjatlaði hana í fyrsta sinn og ég ég hef síðan sagt mörgum þessa sögu til að láta þeim líða vel. Boðskapur hennar er: bækur eru gersemar og það er þess virði að leggja margt á sig til að finna þeim gott heimili.