Bóterisminn

Í september lést kólombíski myndhöggvarinn Fernando Botero, 91 árs. Ég er ekki sérfróður um höggmyndir en man aftur á móti eftir styttum hans frá öðru árinu sem ég bjó í Kaupmannahöfn, sennilega haustinu 2000. Þær voru ansi magnaðar. og sennilega er hann einhver auðþekktasti listamaður sinnar kynslóðar Auðvitað þekkti ég goðsöguna um Ledu og svaninn löngu fyrir en þegar ég sá styttu Boteros fékk ég aðra sýn á þá goðsögn því að Botero dregur fram árásargirnina í kynmökum svansins (sem var raunar Seifur í dulargervi) og konunnar; ég hafði einhvern veginn aldrei séð þetta fyrir mér á þennan hátt og sé fugla á annan hátt eftir.

Fleiri styttur Boteros eru kynngimagnaðar, oft örlítið klúrar og klunnalegar, augljóslega hefði Jónas frá Hriflu talið þær til vitnis um „klossastíl“ eða jafnvel „klám- og kynórastílinn“ sem hann taldi Halldór Laxness helsta fulltrúa fyrir á Íslandi. Oft eru stytturnar með stór læri eða maga eða annað sem iðulega á að vera smátt í algengustu fagurfræði nútímans. Þær eru einatt frekar tómar á svip, oft kinnamiklar og hökusíðar en sjaldan brosandi. Botero er stundum kenndur við naívisma eða prímitívisma en þrátt fyrir einfaldleikann blasir undirtextinn í verkum hans við sem ekki er alltaf tilfellið hjá a.m.k. íslenskum naívistum. Úr vandræðum hefur hugtakið „boterismo“ orðið til um sérstaka fagurfræði listamannsins.

Augljóslega er Botero einkennilegur listamaður. Styttur hans eru vissulega stundum barnslegar en þó í þeim sláandi broddur og þær hafa því einkennilegan áhrifamátt eins og listin á helst að hafa. Maður horfir og horfir og veltir þeim fyrir sér. Köttur Boteros er svo kunnuglegur að mér finnst ég hljóti að hafa séð hann í Kaupmannahöfn forðum daga og fundist hann líkari flóðhesti en ketti. Um leið minnir hann okkur á misjafna stærð kattardýra sem sum eru hættuleg mönnum.

Botero málaði einnig og gerði freskur og stíll hans auðþekktur, hjá fólkinu hans sökkva andlitsdrættirnir í spikið og munnurinn er eins og mjótt strik. Hann sagðist sjálfur dragast að hinu stórvaxna en gæti ekki skýrt hvers vegna. Þetta er sérstök fagurfræði en áleitin og ógleymanleg. Ein þekktasta mynd hans er tilbrigði við málverk endurreisnarsnillingsins Rafaels af Leó páfa og eitthvað er hann að segja okkur um söguna og listasöguna með þessu verki. Smám saman hafa kólombíumenn tekið ástfóstri við þennan sérstaka landa sinn og við hann er nú kennt torg í heimabæ hans Medellin og er það fullt af listaverkum hans.

Previous
Previous

Hvar á bók heima?

Next
Next

Hrokkagikkurinn Þór og tungumálaséníið Alvíss