Hrokkagikkurinn Þór og tungumálaséníið Alvíss

Eitt af eddukvæðunum í Konungsbók fjallar um ágengan dverg sem vill ganga að eiga dóttur guðsins Þórs sem kærir sig ekki um þennan tengdason og finnst „þursa líki“ á honum. Hann grunar dverginn um að hafa dvalið í nótt með líkum — eins og bandaríski fræðimaðurinn Chester Gould benti á fyrir löngu eru tengslin milli dverga og dauðans áberandi í norrænum heimildum — og biðillinn er ekki „til brúðar borinn“. Átökin í Alvíssmálum snúast um stétt, lágkúrulegan biðil sem girnist konu sem er honum ekki samboðin. Það er aftur á móti aðeins ramminn því að þorri kvæðisins eru upptalningar á því hvað alls konar fyrirbæri heita hjá mismunandi „alda sonum“ (sem merkir hugsanlega allar mannlegar goðverutegundir) en Alvíss virðist búa yfir óvenju miklum orðaforða úr ólíkum áttum.

Nákvæmlega hver uppruni allra þessara orða er virðist málum blandið. Kannski er kvæðið ekki frá heiðnum tíma og höfundurinn aðeins að skálda upp sum eða flestöll heitin. Meðal svara Alvíss er að það sem menn kalla logn heiti lægi hjá goðum, vindflot hjá vönum, ofhlý hjá jötnum, dagsefi hjá álfum og dvergarnir kalli lognið „dags veru“. Þessi nöfn eru ekkert sérstaklega trúverðug (og það er enginn hægðarleikur að þýða öll þessi samheiti á spennandi hátt). Jafnvel enn andlausari eru þessar verur þegar kemur að sjónum sem dvergar kalla „djúpan mar“ en Vanir „vog“. Í ljósi þess hversu margar sjávarkenningar eru til í fornum ritum furðar manni á að skáldinu hafi ekki dottið neitt betra í hug.

Það sem vekur ekki minni athygli en öll þessi samheiti eru örlög dvergsins. Hann er „uppi dagaður“ í lok kvæðisins svipað og tröll í sumum yngri þjóðsögum og auðvitað Hobbitanum eftir Tolkien. Ekki kemur fram að hann verði að steini en sólin virðist vera óvinur dvergsins þó að það komi ekki fram í neinum öðrum fornsögum um dverga sem virðast þar spranga um hvívetna í dagsbirtunni. Eins vekur athygli að Þór sem stundum virðist hálfgerður kjáni (t.d. í Hárbarðsljóðum) hefur leikið á dverginn með kænsku sinni, þ.e. með því að fá hann til að gleyma sér í samheitaorðabókinni. Þó lýsir ásinn líka aðdáun sinni á allri þekkingu dvergsins sem virðist samt ekki gera hann að meira aðlaðandi biðli.

Fróðir lesendur hafa eflaust þegar áttað sig á að þetta er ekki eina tilvikið þar sem dvergur getur verið staðgengill trölls, hið sama á auðvitað við um dverginn Rumputuska sem leikur sama hlutverk og Gilitrutt í sögunni um lötu eiginkonuna og dulið nafn hjálparhellunnar (ævintýri ATU 500). Rannsóknir mínar á dvergum sem ég hef skrifað um a.m.k. tvær ritrýndar fræðigreinar hafa einmitt leitt í ljós að það er ekki sama dvergur og dvergur, allar þessar tegundir goðmagna eru breytilegar eftir heimildum og ekki síst á mismunandi svæðum eða tímum.

Previous
Previous

Bóterisminn

Next
Next

Brian sléttir seðla og stamar upp sekt sinni