Brian sléttir seðla og stamar upp sekt sinni
Það er eins líklegt að fv. forseti mesta stórveldis heims verði aftur kjörinn á næsta ári þó að hann sé bullandi vanhæfur í starfi vegna þess að þrátt fyrir það skilur hann fjölmiðla og afþreyingu betur en nánast allir aðrir. Þessu tengt rakst ég nýlega á einkennilegan menningarkima á Youtube sem eru játningar bandarískra ungmenna sem framið hafa morð fyrir 18 ára aldur, iðulega í fullri lengd (sum myndböndin eru lengri en flugferð til Evrópu), væntanlega allt sett á netið af sjálfri lögreglunni en þar í landi tíðkast þar að auki að setja fangamyndir á netið. Meðal annars má finna þar fjóra tíma af yfirheyrslu og játningum 16 ára unglinganna Brian Draper og Torey Adamcik frá mér áður ókunnum mormónabæ í Idaho og mér finnst þeir sérkennilega líkir persónum í bók sem ég gaf út árið 2022, áður en ég hafði heyrt þeirra getið en svona fara skáldverk manns stundum að leka inn í lífið. Að sið mormóna voru þeir Brian og Torey alltaf tveir saman en í minni takt við trúna drápu þeir skólasystur sína árið 2006 eftir að hafa keypt grímur og hnífa og eru síðan kallaðir Scream-morðingjarnir enda voru þeir þar að auki búnir að gera kvikmyndabrot af sjálfum sér í tiltölulega venjulegum skrítnum táningasamræðum um glæpinn þar sem maður veit ekki alveg hvort þeir eru á lyfjum eða venjulega drafandi táningar og þar sem á skiptast krakkafliss og stundum ískyggilega góðar rökfærslur en samt fullar af unglingslegum misskilningi á heiminum, t.d. þegar þeir ræða hvort það ætti að vera ólöglegt að drepa fólk. Glæpur þeirra átti greinilega að vera liður í flóknu sjálfsmorði (þeir tala um að vera dánir þegar fólk sér myndirnar þeirra og ræða hvernig þeir ætla að skjóta sig) og hafði þann helsta tilgang að gera þá fræga eins og helstu skólaskotmenn samtíðarinnar. Þó að þeir Brian og Torey hafi reynst klaufskir og lélegir morðingjar tókst þeim samt á sérkennilega trumpískan hátt að verða frægir; auðveldlega væri hægt að verja meira en sólarhring í að horfa á öll myndböndin um þá sem ég hef fundið þó að þeim mistækist aftur á móti að deyja þannig að þeir munu eyða ævinni í fangelsi vegna kerfisbundinnar dómhörku enskumælandi þjóða. Hér á Norðurlöndum væri auðvitað aldrei dreift myndefni af börnum sem fremja glæpi. Nokkrir íslenskir morðingjar hafa verið undir 16 og þeir fara leynt. Engum dettur heldur í hug að fordæma þá, það er ekki ríkjandi viðhorf að ævilangt fangelsi sé sanngjörn refsing eins né neins, hvað þá afbrotaunglinga hvað sem þeir hafa gert og þeir væru auðvitað aldrei kallaðir „skrímsli“ en í engilsaxneska heiminum (Bretlandi ekki síður en Bandaríkjunum) er annað uppi á teningnum og sú skrímslavæðing glæpamanna virðist öfgakennd ef maður er frá landi þar sem morðingjar koma í blaðaviðtöl og kalla morð sitt „atvikið“ sem mér finnst stundum einum of langt gengið en norræna linkan þó heilbrigðari en bandaríska skrímslavæðingin.
Brian Draper var einkum heillaður af menningarhetjunum Harris og Klebold sem frömdu Columbine-fjöldamorðið, eru raunar enn vinsælli á netinu en þeir Idaho-stráklingar og hafa komist í alvarlegri bókmenntir líka en þeirra skotárás var einmitt skipulögð sem flókið sjálfsmorð. Torey Adamcik var undir meiri áhrifum frá Scream-myndunum sem snúast um táninga að herma eftir morðmyndum sem gerir hermilist hans sjálfs eftir eftirhermuglæpunum mjög „meta“ eins og sagt væri í dag. Samræður þeirra Torey og Brian á myndböndunum eru fremur leikrænar, ímyndaði áhorfandinn sannarlega viðstaddur í listaverkinu þegar þeir ræða áform sín um að verða fyrirmynd annarra raðmorðingja flissandi á skólabókasafni milli þess sem þeir þykjast vera að læra fyrir próf og hvísla þá vegna þess að þeir eru skíthræddir við kennara og foreldra. Þeir finna líka stúlkuna sem þeir ætla að myrða og segja hæ við hana á göngum skólans sennilega til að gera myndina átakanlegri og ræða lengi að hún sé vinur þeirra og þetta sé því mikil fórn hjá þeim að drepa vin sinn. Þar á milli ræða þeir meðal annars hugtakið „illska“ (sem ég skrifaði grein um í Ritið fyrr í ár) en hugsanir þeirra um það eða annað ná aldrei að verða agaðar enda listaverkið óklárað. Þessu fylgja myndir af Brian berum að ofan og beltislausum að leika á trommur (enginn annar viðstaddur þannig að hann hefur tekið þetta upp sjálfur sem hluta af ævisögu morðingjans) og Torey segist verða graður af því að hugsa um Cassie aleina í afskekktu húsi en þá er fóður fyrir freudískar draumatúlkanir uppurið. Sumar upptökurnar eru fullar af íróníu, fótboltagaur treður sér inn í myndbandið á safninu og þá segist Brian hafa sleppt fótbolta í ár vegna þess að hann hafi „mikilvægari hluti að gera“ og horfist í augu við myndavélina, sem sagt okkur sem erum þá öll orðin fulltrúar raðmorðingja framtíðarinnar sem hann vildi ná til. Í einu atriðinu velta þeir fyrir sér óhjákvæmilegri kvikmynd um fyrirhugað morðæði þeirra og verða sárir yfir tilhugsuninni um að verða þá kannski túlkaðir af leikurum sem líkjast þeim ekki í útliti („Þetta er minn líkami,“ segir Torey hneykslaður). Allt þetta finnst bandarískum áhorfendum til marks um hvílík skrímsl þeir séu en Íslendingnum mér finnst þeir veruleikafirrtir kjánar (vinur minn frá Texas varð einu sinni mjög hissa þegar ég sagðist hafa hitt allnokkra morðingja og væri ekkert hræddur við þá) og því meira sem þeir ræða morð, þeim mun meiri börn finnst mér þeir vera að trúa svona á eyðingarmátt sjálfstjáningarinnar eða tjáningarmátt eyðingarinnar en efa ekki að það sé gnótt af álíka unglingasamræðum að eiga sér stað í heiminum á hverri stundu þó að fæstir gangi svo langt að beinlínis fremja morðið en eflaust hjálpaði til að þeir voru tveir og stundum stutt í hanaslaginn í samveru þeirra í draumaheimi sínum (í Sturlungu er lýst svipuðu strákagengi fyrir utan Sauðafell). Einnig er til myndband með Brian og Torey nýbúnum að fremja morðið og eru þá móðir af æsingi, samt hlæjandi en líka steinhissa á sjálfum sér og trúa varla að þetta hafi gerst í raun og þetta er að sjálfsögðu líka til á netinu og sennilega væri morðið það líka nema vegna þess að Brian og Torey treystu sér ekki til að halda á myndavél meðan þeir stungu stúlkugreyið.
Draper og Adamcik eru svo sláandi venjulegir að sjá að það er erfitt að taka þá alvarlega þrátt fyrir að þeir hafi framið hræðilegan glæp og miðað við myndböndin virðast þeir ekki skilja vel alvöru málsins. Aldrei kemur fram hvers vegna dauðinn var þeim svo hugleikinn þó að í einhverju netefni sé reynt að greina þá þunglynda. Auk heldur reyndust þeir sérlega klaufskir og komu fljótlega upp um sjálfa sig með því að segjast hafa farið á bíómynd þetta kvöld sem þeir höfðu þó ekki haft fyrir að kynna sér nógu vel til að geta lýst henni (aðeins annar þeirra mundi nafnið á henni í fyrstu yfirheyrslunni) — en lögreglan hins vegar fór fagmannlega á myndina og var ekki lengi að sjá í gegnum lygarnar. Það tók þjálfaða lögreglumenn síðan skamman tíma að brjóta Brian niður eins og sjá má í 90-100 mínútna myndbandi frá lögreglunni sjálfri sem er mun betra leikrit en klippur morðingjanna um ódæðið, stenst t.d. fullkomlega kröfuna um einingarnar þrjár, en er sem sagt sviðsett af lögreglunni þó að Brian sé aðalhlutverkið. Það er líka átakanlegt því að Brian ræður ekki beinlínis vel við aðstæðurnar eins og sést þegar hann flissar að löggu sem kallar sjálfan sig feitan kall — eins og hann sé enn að ræða við Torey vin sinn. Margt af því sem Brian segir framan af eru eins og replikkur fyrir bíómynd en þess á milli missir hann móðinn og fer þá að stama ákaflega sem hann gerði ekki í eigin myndefni, því meir eftir því sem hann lýgur meir og allir viðstaddir (hann og löggurnar) átta sig greinilega á hvað klukkan slær, stamið eins og blóðblettur á skyrtu hans. Þar sem ég ólst upp í samfélagi með góðum talmeinafræðingum er ákaft stam óþægileg nýlunda fyrir mér, stamandi morðinginn næstum eins og brella, atriðið eins og úr smiðju handritshöfundar sem kann sér ekki hóf — og þó verð ég að játa að höfundurinn ég lét morðingja einmitt fá blóðnasir undir svipuðum kringumstæðum löngu áður en ég sá þetta og í nákvæmlega þeim tilgangi að vekja hugsanlega með honum sama paþos og ég finn þegar Brian stamar hvað mest (annar leki milli listar og lífs). Eftir allt stamið er manni sjálfum og Brian létt þegar hann gefst barasta upp, boðskapur þessa raunveruleikasjónvarps hugsanlega sá að stamandi drengir ættu að forðast að komast í kast við lögin. Áður hefur lögreglan yfirgefið herbergið tvisvar og skilið drenginn eftir einan með myndavélinni. Í fyrra sinn er Brian allrólegur, æfir trommuleik á hnjánum á sér fyrst en dregur eftir langa mæðu upp seðlaveskið sitt þar sem hann er farsímalaus 16 ára unglingur (fyrirbæri sem virðist hafa verið til árið 2006) og fer að slétta velkta seðla í óljósum tilgangi. Í seinna skiptið virðist hann hafa gleymt myndavélinni og vinnur leiksigur í hlutverki angistarfulla afhjúpaða glæpamannsins sem játar allrækilega með líkamstjáningunni. Álíka langt myndband er síðan til af yfirheyrslu Torey eftir að Brian hefur stungið hann í bakið án þess að hann hafi frétt af því en það er ekki jafn áhrifamikið þar sem hann er mun svalari, situr alltaf á hlið á stólnum, starir fullur áhuga á löggurnar, stamar ekki neitt og er með foreldra sína með í för eins og báðir áttu rétt á. Vegna þessa skorts á tilfinningagosi eru ýmsir hraðtúlkandi amerískir áhorfendur fljótir að lýsa hann siðblindingjann í málinu.
Það er vitaskuld erfitt að horfa á þetta tröllslega myndefni af ýmsum ástæðum, næstum jafn erfitt og að standast það og ómögulegt án þess að velta fyrir sér hvort maður sé genginn af göflunum en a.m.k. þarf enginn að vera einmana í þeirri brjálsemi. Eitt af myndböndunum (samsett úr yfirheyrslunum yfir þeim báðum og bútum úr þeirra eigin efni) hefur fengið 20 milljón áhorf — ef glæpur og refsing þessara mormónadrengja er listrænn gjörningur mega þeir teljast með vel heppnaðri metsölulistamönnum heimsins. Kannski getur enginn skáldsagnahöfundur keppt við áhrifin af því að horfa upp á börn eyðileggja líf sitt og annarra í rauntíma? Strákarnir tala í mynd um morðáformin eins og listaverk og við áhorfið kom mér stundum í hug einn illræmdasti keisari Rómar, Elagabalus, sem varð keisari 14 ára og virðist hafa verið nauðalíkur þeim Brian og Torey, unglingur sem hélt að hans hlutverk væri að hrekkja heiminn og að keisaradómur hans væri gjörningur, en Rómverjar drápu hann að lokum og hentu nöktu líkinu í Tíber til að sýna stórveldisbúaviðbjóð sinn. Augljóslega átti þó aldrei að verða hluti af gjörningi Brians og Torey að þeir væru nappaðir lifandi af lögreglunni og talgalli Brians bryti hann niður sem leiddi til þess að hún fann þau sönnunargögn sem hún þurfti.
Ég rakst að lokum á heimildarmynd um unga fanga þar sem talað var við Torey og Brian báða fimm árum eldri og í fangelsi, mjög breytta auðvitað en sú mynd er þrátt fyrir fagmennsku, einlægni og alvöru ekki jafn hrikaleg og þeirra eigin myndbönd eða Idaholöggunnar; bara eins og hver önnur heimildamynd eftir vitiborinn kvikmyndagerðarmann en ekki gerð af klikkuðum táning.