Siðlaus samningagerð

Eddukvæðin hafa verið áberandi í lífi mínu undanfarið eins og þið vitið flest, en þetta misseri menntast ég þar að auki í Niflungahring Wagners. Eins og allir sem þekkja mig vita tel ég mannlega hugsun og tónlistina raunar einnig hafa náð hámarki á 19. öld þó að stöku síðari alda manneskju hafi tekist að bæta smá við, einkum fólki sem er vel að sér í 19. öldinni. Auðvitað þrái ég að bætast við þann góða hóp. Wagnernámskeiðið mitt fer fram á einu mesta menningarheimili suðvesturhornsins og fyrst á dagskrá var Rínargullið, sviðsetning frá Budapest. Ég hafði hlustað á verkið í heild sinni áður en aldrei séð það allt í einni lotu fyrr.

Eins þreytandi og illa hugsaðar aðlaganir stórvirkja geta verið er það einkenni verulega góðrar uppsetningar að hún dregur fram eitthvað sem býr í verkinu en áhorfandinn hefur ekki endilega tekið eftir og það á við um þessa nýlegu Budapest-uppfærslu. Loki (sem er eldguðinn Loge hjá Wagner) er þannig leikinn af þéttholda þunnhærðum miðaldra manni sem er algerlega laus við glamúr og kannski var það eimitt vegna þess að ég fann hvergi í honum þá demónsku náttúru sem ég er vanur að tengja við Loka að ég fór að taka eftir öðrum leiðum til að túlka uppreisn goðsins. Meðal annars tók ég eftir að í Rínargullinu hefur Loki öðrum þræði stöðu sögumanns sem ræðir það sem er að gerast í sögunni eins og hann sé að lýsa kappleik. Svipaðri stöðu tók ég eftir hjá Skarphéðni Njálssyni fyrir nokkrum árum eins og ég hef áður rætt á prenti. Loki er ekki illvættur heldur þreyttur tilvistarspekingur sem er í uppreisn gegn guðunum sem ætlast til að hann leysi öll þeirra vandamál án þess að þiggja neitt þakklæti fyrir, á að gera sig ánægðan með að fá að vera með þeim.

Loki Wagners er slyngur samningamaður og raunar snýst öll óperan um samningagerð. Guðirnir hafa látið risana Fasolt og Fafner byggja fyrir sig höll en þegar risarnir heimta Freyju í laun þarf að finna upp á einhverju öðru og Loki sem áttar sig á fégræðgi Fáfnis stingur upp á að þeim verði borgað í Rínargullinu sem hinn illi dvergur Alberich hefur stolið frá hinum kenjóttu Rínarmeyjum. Eins og þær benda sjálfar á í lok óperunnar er þessi samningur siðlaus því að guðirnir borga í annarra eigum án þess að hirða um hinn upphaflega eiganda. Líkt og Loki eru risarnir sungnir af breiðum söngvurum og raunar er öll uppsetningin ekki ósvipuð The Sopranos sem fyrir utan aðra kosti veitti leikurum utan kjörþyngdar mörg og fjölbreytileg hlutverk. En það er auðvitað ekki aðeins stærð söngvaranna sem minnir á þann ágæta þátt, uppsetningin dregur fram að heimur guðanna og hetjanna sé eins konar mafíósaheimur sem er uppfullur af ójöfnuði, kúgun, svikum og glæpum þar sem hinn sterkari (eða klókari) fer með sigur af hólmi.

Þannig er Mímir í þessari uppfærslu aumkunarverður og jafnvel hinn illi Alberich líka, þrátt fyrir mikilmennskubrjálæði sitt. Hann sækist eftir öllu en missir líka allt og það skýrir þá bölvun sem hann leggur á gullið og dregur dilk á eftir sér. Eins og í flestum sínum óperum gefur Wagner sér góðan tíma til að segja fremur einfalda sögu en þannig magnar hann fremur mikilfengleik atburðanna. Í lengdinni stækka þær og áhorfandinn nær að skynja goðsagnaheiminn sem mun mikilfenglegri en nokkuð sem gerist í mannheimum. Þar nýtist nútímatækni vel eins og iðulega í leiksýningum okkar aldar: myndum er varpað á tjald og auk heldur eru risavaxnar styttur af Fastold og Fafner til að minna okkur hvílíkar óvættir séu hér á ferð sem ógna Freyju en þar með líka öllum goðheimum sem heldur aðeins æsku sinni með aðstoð epla hennar (Iðunnar í Snorra-Eddu).

Íslendingar hafa gert talsvert úr beinum áhrifum eddukvæða og Snorra-Eddu á Wagner og vissulega eru þau fyrir hendi þó að hin þýska Niflunganauð sé hans aðalheimild. Það sem stendur upp hjá mér er hversu frumlegur og sjálfstæður túlkandi þessa forna efnis Wagner var og miklu minna máli skiptir hvaða gögn hann hafði. Þó að Wagner hafi í tímans rás höfðað jafnt til nasista sem geðþekktra listunnenda verður því ekki neitað að hann er einn af höfundur 20. aldar, tónskáld sem breytti heiminum með nýsköpun sinni, líkt og vinur hans Nietzsche (þeim sinnaðist að lokum) sem hafði vissulega vond áhrif á ýmsa en nútíminn væri þó með öllu óhugsandi án þessara höfuðsnillinga 19. aldar beggja.

Previous
Previous

Brian sléttir seðla og stamar upp sekt sinni

Next
Next

Til hamingju, Jon Fosse!