Harry Styles, lögga
Í fyrra las ég skáldsöguna My Policeman eftir Bethan Roberts sem einhver lánaði mér (fyrirgefðu viðkomandi að ég man ekki hver þú varst) og fannst hún allgóð, einkum sá hluti hennar sem gerðist í Brighton á 6. áratugnum þó að meginþemað um sakbitna eldri konu í nútímanum minni kannski fullmikið á Ian McEwan. Í ár frétti ég svo að búið væri að gera kvikmynd um hana með popparanum fræga Harry Styles og þrátt fyrir frekar harða dóma varð ég forvitinn þegar ég sá að hún var komin á Amazon Prime og eyddi kvöldi með Harry Styles.
Það er einkum leikur Harry Styles sem hefur fengið misjafna dóma og eftir að hafa lesið þá hafði ég skrúfað væntingarnar rækilega niður og fannst Styles hreint ekki yfirgengilega slæmur en þess ber að geta að persónan á að vera fremur stíf og kauðsk en laða þó að sér tvær ólíkar manneskjur og kannski er Harry Styles að myndast við að leika einmitt það sem vantaði. Í öðrum lykilhlutverkum eru ágætir leikarar, Emma Corbin og David Dawson, og þeirra persónur eru kannski eiginlegar aðalpersónur dramans þó að það snúist allt um persónu Styles.
Sögusamúðin þróast talsvert í sögunni. Í fyrstu finnst manni löggan Tom Burgess sem Styles leikur vera sá sem fær allt sem hann vill, leikur tveim skjöldum og fer illa með bæði eiginkonu sína og ástmann. Síðar verður konan sú sem erfitt er að líka við þegar hún fyllist afbrýðissemi og hikar ekki við að eyðileggja líf annarra þess vegna. En í þeim hluta sögunnar sem gerist í nútímanum eru þau öll þrjú frekar eymdarleg og niðurstaðan kannski að ranglátt samfélag og kröfur þess eyðileggi líf allra. Konan virðist þó hafa náð einna bestu lendingunni.
Allar breskar raunsæisskáldsögur snúast að einhverju leyti um stéttaskiptinguna sem tröllríður því samfélagi. Löggan Tom er af neðri millistétt, kennarinn Marion heldur betur sett en ástmaðurinn Patrick er ríkastur og best menntaður en sekkur þó dýpst þegar hann er handtekinn fyrir ósiðlegt athæfi eftir að Marion ljóstrar upp um hann í afbrýðissemiskasti og þarf að eyða árum í fangelsi þar sem hinir lemja hann og berja. Marion er þó fljót að átta sig á að enginn getur farið með sigur af hólmi og kannski er það þess vegna sem hún er komin einna lengst mörgum áratugum seinna þegar hún tekur að sér að hjúkra Patrick. Tom tekur engan þátt og hefur reynt áratugum saman að láta eins og Patrick hafi aldrei verið til.
Endirinn er frekar nöturlegur: Marion ákveður að stíga til hliðar og leyfa Tom að sjá um hinn deyjandi Patrick. Þetta er sett upp sem eins konar lausn en er afar ósennileg og ég furðaði mig á hve lítið persónurnar áttu að hafa lært og hvílík ólán hugmyndin um hið eðlilega ástand sé að allar manneskjur þurfi að eigna sér aðra manneskju reynist mörgum. Eftir stendur einna helst að Harry Styles í löggubúningi mun eflaust verða mörgum góð fantasía.