Túristi fyrir tilviljun

The Accidental Tourist var vinsæl þegar ég var táningur, skáldsaga um mann sem ferðast án þess að langa til þess. Ég man ekki lengur hvað gerðist í bókinni fyrir utan þetta þema en foreldrar mínir voru hrifnir af henni svo að ég las hana og núna löngu síðar átta ég mig á því að það var sennilega vegna hinnar heimspekilegu myndhverfingar um manninn sem ferðast nauðugur. Pabbi var raunar bókstaflega sá maður, sinnti m.a. erlendum viðskiptum í bankanum og tók að sér ýmis erfið mál sem stundum kölluðu á ferðalög. Helst vildi hann samt vera heima að horfa á sjónvarpið með Rúbiksteninginn í lófunum. Hjá mömmu var myndhverfingin enn meira viðeigandi því að hún stefndi að ósýnileika, vildi ekki koma fram eða láta í sér heyra opinberlega, hélt sig mjög á sínu svæði og var svo illa við veislur að það nálgaðist fælni. Hún átti líka bókina Ensom blandt mennesker sem var dönsk þýðing á ævisögu Jean-Paul Sartre.

Ævistarf háskólakennarans snýst um að standa og tala í tímum eða halda opinbera fyrirlestra og hið sama á við um ýmis félagstörf sem ég hef tekið að mér, berandi þó gen pabba og mömmu. Hvert einasta skipti er þrekraun en síst dregur úr kröfunum til bókmenntafólks um að koma fram því að í nútímanum er stundum lítill munur á bókamarkaðnum og leikhúslífinu. Risavaxnar myndir af höfundum prýða veggi bókabúða og á Íslandi þekkist ekki lengur að höfundar gefi út nöfn sín undir skáldanafni og sjáist sjaldan opinberlega. Hér í fámenninu er ekki pláss fyrir Elenu Ferrante eða Thomas Pynchon. Þetta veit ég auðvitað og hef jafnvel mætt í Vikuna til að kynna bók. Er samt innst inni eins og slysaferðalangurinn í bókinni og væri ánægðari heima að lesa eða horfa á danska sjónvarpið.

Á langri ævi hef ég lent í því að standa með áróður fyrir stjórnmálaflokk í Kringlunni og í Holtagörðum. Ég reyndi auðvitað að bera mig vel og leyna vanlíðan minni. Líka mætt að lesa upp á kaffihúsi sem var fullt af fólki sem vissi ekki að það væri upplestur. Tvisvar hef ég setið í bókabúð í klukkustund fyrir framan stafla af eigin bókum og áritaði eina bók í hvort sinn. Allmörg árin hef ég staðið með bækling fyrir íslensku í Háskólanum og brosað við áhugalausum ungmennum á kynningardegi í von um að þeim fyndist þetta ekki jafn vandræðalegt og mér. Í starfi mínu felst að senda inn umsóknir um hitt og þetta á hverju einasta ári sem iðulega er hafnað eða fá leiðinlega umsögn frá kollegum. Sama gildir um ritrýndu greinarnar – þær eru ótalmargar og hefur sumum verið vel tekið en reglulega líður greinarhöfundi eins og hann sé útbíaður í fugladriti geðvonskunnar og eina huggunin að fá vitni eru að þessum reglulegu svipugöngum. Það er líka ætlast til ferðalaga á málþing þar sem einn áhorfandi mætir fyrir hvern klukkutíma sem fyrirlesari situr sveittur í lest eða á flugvelli til að ná þangað, sumir sofandi en aðrir mæta of seint eða fara áður en erindi er lokið. Allt er þetta afleiðing af því að mér finnst gaman að stúdera og skrifa, ímynda mér jafnvel að þrátt fyrir litlar undirtektir sé ég nokkuð góður í því og hef þessa norðurgermönsku þörf fyrir að vinna í vinnunni og reyna að gera sem mest gagn.

Í ár er lítil eftirspurn eftir mér í bókasöfnum landsins, rótarýklúbbum eða kaffihúsum og fagna ég því öðrum þræði þó að í mér búi strangur kalvinisti sem skammar fyrir mig sífellt fyrir að vinna ekki nóg. Hef þó samt farið í langa strætóferð upp í Árbæ eina af fáum fríhelgum haustsins til að stama einhverju upp um bækur mínar í fjórar mínútur fyrir framan einn áhugalítinn upptökumann og um helgina sótti ég hina árlegu bókamessu í Hörpunni, aðallega til að hitta útgefendur mína sem eru vandaðir og skemmtilegir og sýna þeim stuðning við sitt streð. Þar reyni ég oftast að gera gott úr þessu og taka þátt í sölunni og í ár (seinustu helgi) seldi ég ein tíu eintök af hinu og þessu fyrir þá þrjá forleggjara sem ég tengist mest og áritaði fjórar bækur eftir sjálfan mig sem ég fékk sterklega á tilfinninguna að væru keyptar af fólki sem vorkenndi mér að standa þarna á sölutorgi. Þetta er raunar skref upp á við frá því að ég stóð með áróður fyrir vinstrigræn í Kringlunni vorið 2003 og alls enginn vorkenndi mér en losar mig ekki við þá tilfinningu að ég sé bæði „ensom blandt mennesker“ og hálfgert uppfyllingarefni í tröllslegu jólabókaflóði fyrir utan það sem er verst sem er tilfinningin að frekar fátt sé um lesendur sem hafi beinlínis áhuga á því sem ég er að segja, hvað þá gagnrýnendur, rithöfunda eða kollega í bókmenntafræðinni sem eru mjög sparir á efsta stig í umfjöllun um bækur mínar. Þá er betra að sitja einn heima og skrifa og ímynda sér að það sem maður hefur hugsað upp og komið í orð sé ef til vill þrátt fyrir allt merkilegt.

Previous
Previous

Endurfundir við Jón

Next
Next

Harry Styles, lögga