Endurfundir við Jón

Ég hygg að ég sé (fremur óvirkur) félagi í 18. aldar félaginu og sannarlega hef ég alltaf haft mikinn áhuga á henni og hefði ef til vill gert hana að sérsviði mínu ef ég væri betri að lesa fljótuskrift og þyldi betur að eiga alls enga lesendur. Sérstakan áhuga hef ég á séra Jóni Steingrímssyni en um ævisögu hans skrifaði ég námskeiðsritgerð á BA-stigi sem er annað hvort horfin öllum eða til á Landsbókasafni og hreifst þá af klerkinum og frásagnargáfu hans. Sérstaklega eftirminnileg er setningin „Þá kom undir barnfuglinn Sigríður dóttir mín“ sem við 18. aldar nördarnir hlógum oft að fyrir 30 árum.

Það má því segja að ég hafi verið helsti markhópur nýs smárits Sögufélagsins og spillir þar ekki fyrir smekklegt útlit ritraðarinnar, sú staðreynd að höfundurinn Jón Kr. Einarsson er einn af mínum viðkunnanlegustu aðstoðarmönnum gegnum tíðina og auk heldur er ég mikill aðdáandi Más Jónssonar sem á sinn þátt í verkinu og er nú öflugastur íslenskra textaútgefenda. Hef ég enda skemmt mér seinustu vikur við að grípa í þetta bráðskemmtilega og stórfróðlega rit sem varpar nýju ljósi á Jón Steingrímsson og 18. öldina. Ekki veitir af í allri þeirri goðsagnaframleiðslu um fortíðina sem stöðugt fer fram. Auðvitað grunaði mig allan tímann (hafandi mikinn krítískan sans) að Jón væri kannski ekki besta heimildin um eigin málaferli og það kemur enda á daginn. Eins og margar hetjur fortíðarinnar reynist hann æði breyskur en bókin er þó laus við þá nútímaáráttu að vilja rétta yfir fortíðinni. Tímarnir voru sannarlega erfiðir og það er annað sem er heillandi við þessi bók, hún er öðrum þræði saga um samspil náttúruhamfara og fjárhagsóreiðu, eins lýsandi fyrir Ísland og nokkuð getur verið.

Previous
Previous

Risavandamál

Next
Next

Túristi fyrir tilviljun