Risavandamál

Ég get ekki tölum talið hversu ánægður ég er með drenginn sem ég hitti um helgina og ætlar að gefa vinum sínum Álfheima 2 í jólagjöf. Ég sagði frá útgáfunni nýlega og hef líka rætt bókina aðeins en nú langar mig að halda áfram vitrænni umfjöllun. Þannig er að þessi bók er unnin upp úr íslenskum menningararfi en er samt innblásin af aðferð Svövu heitinnar Jakobsdóttur að láta rönguna snúa upp. Þess vegna gerist bókin ekki í 19. aldar samfélagi og er ekki endurtekning á álfasögum úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar eins og einhverjir ættu kannski von á. Þvert á móti gerist hún í nútímanum, fjallar um nútímafólk og það sem einkum er sótt til 19. aldar er það hugarfar sem fékk fólk á þeim tíma til að trúa á álfa — sú sannfæring að til væri fullkomið samfélag sem auðvitað líktist okkar en væri betra, ríkara og réttlátara.

Annað lykilatriði í álfasögunum er hugmyndin um „transcendens“, þ.e. að hægt sé að hefja sig upp yfir og út fyrir og út úr eigin lífi. Þó að álfar séu ekki hluti af okkar raunveruleika getum við samt hitt þá og haft áhrif á þá og orðið fyrir áhrifum frá þeim. Fyrstu bókin í flokknum fjallar ekki síst um hvernig þessum tengslum verður komið á og þar koma steinar auðvitað við sögu. En hvað gerist síðan þegar til Álfheima er komið? Hvernig er hið fullkomna samfélag í framkvæmd? Hvernig getur fólk búið í öðrum heimi? Er hægt að skynja það sem raunveruleika? Allt er þetta undir í annarri bók og auðvitað er von mín að það sé áhugi á þessum hugmyndum þó að þær séu ekki beinlínis predikaðar í sjálfri bókinni heldur reynt að láta söguna vera umgjörð sem kemur hinum stærri andstæðum og hugmyndum til skila, alveg eins og sögur hafa gert í mannlegu samfélagi öldum saman.

Eins og ég nefndi um daginn í pistli um hina bókina mína í ár snúast allar bækur mínar um persónusköpun. Aðalpersónur Álfheima eru fjórir táningar sem verða að fulltrúa vatnsins, jarðarinnar, loftsins og eldsins. En hvað þýðir það? Mig langaði til að persónurnar yrðu fólk sem lesendum fyndist þeir þekkja en samt fulltrúar þessara eiginleika þó að það kallaði á að ég kynnti mér ýmsar nýaldarkenningar um höfuðskepnupersónuleikana. Eins auðvitað nýti ég mér Skam-aðferðina að láta hverja bók fylgja nýrri persónu með þeim afleiðingum að þær sem áður var fylgt verða allt öðruvísi en þegar þeim var fylgt. Persónur sem virtust uppfullar af öryggi reynast óöruggar undir niðri, og þegar flokknum vindur fram kemur vonandi í ljós að persónurnar eru uppteknar af allt öðru en vinir þeirra héldu.

Eins og lesendur Bróðurins, fyrstu Álfheimabókarinnar, vita sækir hver bók heiti sitt í þá persónu sem kemur átökum bókarinnar af stað (sem Åsfrid Svendsen höfundur Tekstens mönstre hefði kallað „katalysatoren“) og í Risanum er það sem sagt persóna sem hugsanlega er risi. Risar eru sérkennilegar goðverur sem ekki finnast í Þjóðsögum Jóns Árnasonar eða Snorra-Eddu og kannski er risi fyrst og fremst túlkunaratriði. Eins og Dr. Henry Wu sagði í Júraveröldinni: „Hvað er skrímsl? Kanarífuglinn álítur köttinn vera skrímsl.“ Í evrópskum ævintýrum eru persónurnar yfirleitt hræddar við risa. Í Risanum tekur sagan hugsanlega aðra stefnu en vonandi ekki fyrirsegjanlega fremur en í Bróðurnum.

Hvað er risi? Ég hef aldrei skrifað fræðigrein um risa vegna þess að þeir eru ekki áberandi í þeim bókmenntum sem ég rannsaka mest en í bókinni set ég fram mína eigin einkakenningu um hvernig risar séu og nota til þess þá persónu sem reynist vera risi. Þar eru líka ýmsar samfélagslegar kenningar og lýst atburðarás sem kannski er kunnugleg fyrir einhverja. Meira get ég varla sagt fyrr en bækur 3 og 4 eru komnar út en eins og ég hef áður nefnt finnst mér þetta eiginlega vera ein bók í fjórum hlutum og kannski verður hún bara ein bók þegar hún kemur út erlendis. Það merkir þó ekki að það sé bannað að byrja á bók 2. Það má alltaf byrja í miðjunni, það er eitt sem prentaðar bækur hafa fram yfir hljóðbækur!

Previous
Previous

Svartir turnar og meinafræðingar

Next
Next

Endurfundir við Jón