Svartir turnar og meinafræðingar

Eftir að ég uppgötvaði youtube á vod-inu (sennilega áratug á eftir öllum öðrum) hef ég haft veikluleg áform um að horfa á eitthvað þar og fyrir nokkrum mánuðum sá ég að þar voru heilu þáttaraðirnar af aðlögunum á glæpasögum P. D. James um Dalgliesh lögregluforingja sem gerðar voru á árunum 1983 til 1998. Ég horfði á þær með foreldrum mínum sem unglingur, síðar á dvd en núna hef ég verið að horfa og lesa bækurnar á svipuðum tíma til að átta mig betur á aðlögunartækninni – og sömu aðferð beitti ég við Smiley’s People eftir John Le Carré sem er ein fullkomnasta spennisaga sem ég veit. Kannski stafar áhuginn af áformum um að gera sjónvarpsþætti eftir Tíbrá sem enn eru einkum í framtíðinni. Þættirnir um Dalgliesh eru þekktir sem tryggar aðlaganir sem sýna bókunum virðingu. Það var í tísku á 8., 9. og jafnvel 10. áratugnum en núna fer aðlaganatískan í öfuga átt við þýðingatískuna.

Eitt af því sem blasir samt við þegar bækurnar eru lesnar og þættirnir í fersku minni er að raunar er mjög miklu breytt en yfirleitt ekki að óþörfu. Persónur, atriði og lýsingar sögurnar eru þaulnýttar en byggingu er iðulega kollvarpað, m.a. á þann hátt að fortíð sem í sögunum birtist aðeins í endurliti eða í ræðu persónanna er iðulega sviðsett. Þetta einkennir báðar þáttaraðirnar sem ég náði að sjá nánast samtímis og ég las bækurnar, Death of an Expert Witness og The Black Tower. Sú síðarnefnda kom út fyrr en fór síðar á skjáinn. Eins er heldur meira gert úr persónu lögreglumannsins en í bókunum. Vitaskuld er ekki hægt að sviðsetja hugsanir persónanna en þeim stundum miðlað í tali þeirra í staðinn. Allt eru þetta breytingar sem skýr fagurfræðileg rök eru fyrir. Stöku breytingar eru varasamari en þó greinilega í þágu hins myndræna. Þannig er Dalgliesh að jafna sig eftir að hafa verið skotinn í fyrsta þættinum af The Black Tower en í bókinni var hann á spítala vegna veikinda sem hugsanlega voru hvítblæði.

Sögurnar geyma allar góðar setningar sem glatast í þáttunum en þær hefði ekki verið hægt að nota í sjónvarpi nema á tilgerðarlegan hátt. Í þáttunum eru hins vegar góðir leikarar sem bæta heilmiklu við persónurnar. Það á sérstaklega við um Geoffrey Palmer heitinn sem leikur fórnarlambið í Death of an Expert Witness, fremur óviðkunnanlegan mann í bókinni en Palmer er frábær leikari og nær að framkalla paþos með honum í sjónvarpinu. Aðalpersónan Dalgliesh er heldur viðkunnanlegri í sjónvarpinu en í bókunum þar sem hann hugsar iðulega hrokafullar hugsanir um fólkið sem verður á vegi hans og ekki síst kollegana í lögreglunni. Almennt er skáldsagnahöfundurinn James heldur grimmari en sjónvarpsfólkið t.d. þegar hún lýsir ýmsum blæbrigðum í útliti persónanna en ég kann raunar að meta það. Það er ekki endilega hlutverk höfunda að vera góðir.

Bókin Death of an Expert Witness er frekar stutt en þátturinn er næstum 350 mínútur vegna þess að allt sem kemur fram í minningum persónanna og samtölum er sviðsett og með því að eyða þessum tíma nær sjónvarpið sömu dýpt og textinn þó að sumt glatist. Engri persónu er sleppt en einum lykilviðburði sem er sveitamenningarhátíð. Það er ekki slæm ákvörðun og í heildina einkennist þátturinn af aðdáunarverðri virðingu við texta höfundar; raunar mætti segja að þessar aðlaganir einkenndust af mikilli virðingu bæði við hina upprunalegu sögu og hið nýja form sjónvarpsins. Ef Tíbrá eða önnur verk mín rata í sjónvarp þættist ég góður að fá svipaða meðferð en er samt minnugur þess að núna hneigist sjónvarpsfólk til að breyta meiru, oft með lélegum rökum og stundum með hörmulegum afleiðingum (Agatha Christie heitin hefur mjög orðið fyrir barðinu á því, bæði fyrir og eftir gullöldina 1975-1995).

Það sem mest kemur á óvart þegar bók er lesin nálægt áhorfi á mynd er í þessum svokölluðu tryggu aðlögunum er samt fullt tillit tekið til að sjónvarp er annað en saga og öllu breytt sem þarf. Á hinn bóginn er greinilega litið á söguna sem auðlind sem þarf að nýta að fullu. Það væri gott ef svipuð viðhorf héldu innreið að nýju núna á öld hringrásarhagkerfisins.

Previous
Previous

Fyrningar Vésteins

Next
Next

Risavandamál