Fyrningar Vésteins
Ein af bókunum á borðinu mínu er greinasafn Vésteins Ólasonar, Fyrningar, og ég hef verið að grípa í greinarnar seinustu vikur. Viðfangsefnin eru af ýmsu tagi og fjölbreytt og sýna glöggt hve auðugar íslenskar bókmenntir eru af umfjöllunarefnum en um leið hversu víðfeðmur áhugi Vésteins á þeim er.
Vésteinn Ólason er sjálfsagt einhver fjölhæfasti og jafngreindasti bókmenntafræðingur sem Ísland hefur eignast, sérfræðiþekking hans spannaði margar aldir og hann sannaði sig á löngum ferli sem afbragðskennari, rannsakandi og stjórnandi. Ég var í ýmsum námskeiðum hans á sínum tíma og sérstaklega eftirminnileg eru teoretískt námskeið um ýmsar helstu bókmenntakenningar 20. aldar, frá Sklovskí til póstmódernismans og hins vegar stórt Íslendingasagnanámskeið þar sem hann kenndi ásamt Preben Meulengracht Sørensen sem því miður er löngu látinn og Guðrúnu Nordal sem síðar tók við af Vésteini sem forstöðumaður Árnastofnunar. Þar voru iðulega fjörugar umræður og fengist var við stórar spurningar. Sennilega hefur meistaranámið í íslensku sjaldan verið eins fjörugt og á þeim árum, ekki aðeins vegna þess að námskeiðin voru fjölmenn heldur líka vegna þess að Vésteini var lagið að draga hitt og þetta fram hjá nemendum.
Doktorsefni Vésteins voru sagnadansarnir en síðar skrifaði hann bækur um Íslendingasögur, eddukvæði og 20. aldar bókmenntir, að ógleymdri Íslenskri bókmenntasögu en þar ritstýrði hann tveimur bindum af fimm. Slík breidd er fágæt en kemur nemendum Vésteins varla á óvart því að við fundum það í tímum hversu létt hann virtist eiga með að setja sig inn í fjölda kenninga og hann virtist hafa lesið ótrúlega margar bækur á öllum hugsanlegum sviðum og hinum og þessum tungumálum. Ég hef raunar oft kennt bókmenntasöguna miklu og nemendum fannst kaflar Vésteins alltaf þægilega settir fram („pedagógískir,“ svo að slett sé) og auðveldir að lesa. Um leið er bókin auðvitað mikil fróðleiksnáma og verður áfram í fullu gildi þó að ég hafi ásamt fleirum nýlega gefið út styttra og aðgengilegra rit.
Fyrningar er glæsilegt rit og vel úr garði gert; bækur Árnastofnunar eru iðulega meðal þeirra fallegustu á hverju ári og einkennist af natni og smekkvísi en mestu máli skiptir auðvitað hið auðuga inntak.